Fréttir
ský þekur fjall
Ský yfir Esju 26. október 2007

Tíðarfar í október 2007

- stutt yfirlit

1.11.2007

Októbermánuður var óvenju votviðrasamur um allt sunnan- og vestanvert landið og voru októbermet úrkomu víða slegin. Sérstaklega á það auðvitað við þá staði sem einungis hafa athugað í einn til tvo áratugi, en einnig féllu gömul met á nokkrum stöðvum. Hlýtt var í veðri.

Meðalhiti í Reykjavík mældist 5,8 stig og er það 1,4 stigum ofan við meðallag, jafnframt hlýjasti október frá 2001 að telja. Á Akureyri var meðalhitinn 5,1 stig eða 2,1 stigi ofan meðallags. Á Höfn í Hornafirði var meðalhiti mánaðarins 6,1 stig og 0,9 stig á Hveravöllum. Í Bolungarvík var hiti 2 stig ofan meðallags og 2,4 stig á Egilsstöðum. Á Norður- og Austurlandi er mánuðurinn hlýjasti október frá 1985.

Úrkoma var óvenju mikil á Suður- og Vesturlandi. Í Reykjavík var hún tvöföld meðalúrkoma og mældist 174,8 mm og vantaði aðeins 6 mm upp á að metinu frá 1936 væri hnekkt, en þá mældist úrkoma í október 180,8 mm. Á Akureyri mældist úrkoman 100,8 mm. Það er 74% umfram meðallag, álíka mikil úrkoma var í október 2005. Á Höfn mældist úrkoman 283 mm.

Nokkur bið verður á endanlegu uppgjöri varðandi úrkomu á öllum stöðvum, en miðað við gagnastöðuna í dag (1. nóvember) er ljóst að októbermet féllu á að minnsta kosti 33 stöðvum. Búast má við einhverjum leiðréttingum við nánari yfirferð. Flestar metstöðvarnar hafa aðeins verið starfræktar innan við 20 ár, en stöðvar sem slógu met og hafa athugað í meir en 30 ár eru þessar:

 • Stórhöfði í Vestmannaeyjum (frá 1921). Meiri úrkoma mældist í Vestmannaeyjakaupstað í október 1915, en samanburður milli stöðvanna er erfiður.
 • Eyrarbakki (frá 1880). Úrkoma var ekki mæld á Eyrarbakka frá 1911 til 1925, þannig að ekki var mælt í október 1915, þegar metúrkoma mældist í Vestmannaeyjakaupstað.
 • Elliðaárstöð (frá 1924).
 • Kirkjubæjarklaustur (frá 1926)
 • Hæll í Hreppum (1933)
 • Vatnsskarðshólar/Loftsalir (frá 1949)
 • Andakílsárvirkjun (frá 1950)
 • Forsæti (frá 1960)
 • Kvísker (frá 1962)
 • Skaftafell (frá 1964)
 • Hjarðarfell (frá 1971)
 • Snæbýli (frá 1976)

Mesta mánaðarúrkoman mældist í Kvískerjum, 824,9 mm og er það nýtt met í október, en nokkuð vantar upp á að mánaðarúrkoman hefði náð mestu mánaðarúrkomu á staðnum, en hún féll í janúar 2002.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 78 og er það 5 stundum minna en í meðalári. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 53 og er það í meðallagi.

Hæsti hiti í mánuðinum mældist á Seyðisfirði þann 19., 21,0 stig. Á mannaðri stöð varð hiti hæstur á Skjaldþingsstöðum sama dag, 20,2 stig.

Kaldast í mánuðinum varð við Setur, -17,3 stig þann 29. Sama dag mældist mest frost í byggð, -11,9 stig í Möðrudal. Á mannaðri stöð mældist mesta frostið -9,9 stig á Mýri þann 31.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica