Hættumat fyrir Tálknafjörð
Hættumat vegna ofanflóða á Tálknafirði hefur verið unnið af Veðurstofunni. Hættumatið nær til þéttbýlisins, sjá mynd 2.
Kynning á Tálknafirði
Hættumatsnefnd Tálknafjarðarhrepps kynnir tillögu að hættumati í opnu húsi í Móbergi á Tálknafirði miðvikudaginn 5. desember 2007, kl. 17:00-19:00. Tillagan verður sýnd á veggspjöldum og skýrsla hættumatsnefndar liggur frammi. Fulltrúar hættumatsnefndar og sérfræðingar Veðurstofu Íslands kynna málið og svara fyrirspurnum gesta. Tillagan verður síðan aðgengileg almenningi á skrifstofu hreppsins til föstudagsins 11. janúar 2008.
Samkvæmt hættumatinu er lítill hluti byggðarinnar á hættusvæðum. Áhætta í allri byggðinni undir Bæjarfjalli og Tungufelli er talin viðunandi. Þar sem Hólsá fellur til sjávar er eitt hús á hættusvæði A. Undir Geitárdal eru þrjú íbúðarhús á hættusvæði C, þrjú hús eru þar á hættusvæði B, og tvö hús á hættusvæði A. Eftir að ofanflóðahættumat er staðfest af umhverfisráðherra skal sveitarstjórn gera aðgerðaáætlun til að tryggja öryggi fólks í húsum á hættusvæðum.
Hættumatið er gefið út í tæknilegri greinargerð Veðurstofunnar, 07029, Hættumat fyrir Tálknafjörð.
Hættumatsnefnd Tálknafjarðarhrepps hefur gefið út skýrslu og kynningarbækling um matið.