Fréttir
Frá Vestmannaeyjum
Frá Vestmannaeyjum.

Páskaveðrið 2008

17.3.2008

Spáin er byggð á spálíkani ECMWF, dags. 17. mars 2008.

Það styttist í páskahelgina og er þeirri spá sem hér er birt ætlað að draga upp grófa mynd af veðri um páskana. Hafa ber í huga að spár svo langt fram í tímann geta verið óáreiðanlegar, nákvæmni þeirra eykst þegar nær dregur. Þessi spá verður endurskoðuð á þriðjudaginn, 18. mars.

Skírdagur (20.03.08):
Útlit er fyrir hvassa norðanátt sem gengur niður undir kvöld. Reikna má með snjókomu og skafrenningi norðanlands sem dregur úr um kvöldið. Bjart að mestu um landið sunnanvert. Þar sem sólar nýtur við mun hiti fara yfir frostmark yfir hádaginn, annars frost. Færð gæti spillst norðantil á landinu.

Föstudagurinn langi (21.03.08)
Snýst í fremur hæga vestlæga átt og bjart með köflum um landið vestanvert, en éljagangur norðaustan- og austanlands með strekkingsvindi framan af degi. Hiti breytist lítið.

Laugardagur (22.03.08):
Útlit fyrir áframhaldandi vestlæga átt, með éljum um landið vestan- og norðanvert, en bjartviðri í öðrum landshlutum. Heldur hlýnandi veður.

Páskadagur (23.03.08):
Hægviðri með björtu veðri víða um land. Frostlaust þar sem sólar nýtur yfir hádaginn, en annars vægt frost.

Annar í páskum (24.03.08)
Einna helst er að sjá að norðan- og norðaustanátt með éljum norðan- og austanlands verði gildandi, en annars léttskýjað. Fremur kalt norðan- og austantil.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica