Fréttir
Brim, hvítfyssandi kólgusjór
Brim við Litlu-Ávík á Ströndum 24. október.

Tíðarfar í október 2008

- stutt yfirlit

3.11.2008

Hlýtt var í veðri í annarri viku mánaðarins, en annars var október kaldur og snjór heldur meiri og þrálátari en venjulegt er á þessum tíma árs. Meðal annars varð alhvítt víða sunnanlands í fyrstu vikunni.

Meðalhiti í Reykjavík var 2,8°C og er það 1,6 stigi undir meðallagi. Ekki hefur orðið jafnkalt í október í Reykjavík síðan 1987. Á Akureyri var meðalhitinn 1,1 stig, eða 1,9 stigi undir meðallagi. Á Akureyri var október 2005 lítillega kaldari en nú. Meðalhitinn á Höfn í Hornafirði var 3,2 stig, svipað og 1998. Í Stykkishólmi var hitinn 0,7 stigum undir meðallagi og 0,9 stigum undir í Bolungarvík. Á báðum stöðum var kaldara í október 2005 en nú. Á Stórhöfða var hitinn 1,5 stigi undir meðallagi. Þar var álíka kalt 1998, en annars þarf að fara aftur til 1981 til að finna áberandi kaldari októbermánuð. Hitinn á Egilsstöðum var 1,4 stigi undir meðallagi, jafnkalt var í október 1994. Meðalhitinn á Hveravöllum var -3,1 stig eða 1,9 stigi undir meðallagi og kaldast í október frá 1987 eins og í Reykjavík.

Úrkoman í Reykjavík mældist 78 mm og er það nánast í meðallagi. Úrkoman á Akureyri mældist 87 mm og er það um 50% umfram meðallag. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 143 mm og er það í tæpu meðallagi.

Sólskinsstundir mældust 103 í Reykjavík og er það 20 stundum umfram meðallag. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 44, en það er 8 stundum minna en í meðalári.

Mikið brim gerði norðanlands samfara illviðri 24. og 25. dag mánaðarins. Mikil veðurharka var þá við norðausturströndina en mun skaplegra veður var inn til landsins.

Lægsti hiti í mánuðinum mældist á Brúarjökli þann 22., -20,7 stig, lægsti hiti í byggð mældist á sjálfvirku stöðinni í Möðrudal sama dag, -17,7 stig. Lægstur hiti á mannaðri veðurstöð var -17,5°C á Grímsstöðum á Fjöllum og var lesinn af mæli að morgni 23. Hæsti hiti mánaðarins mældist í Bjarnarey að kvöldi þess 31., 17,0°C. Hiti á mannaðri veðurstöð varð hæstur í Stafholtsey þann 7., 12,7°C.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica