Fréttir
kort af fjallshlíð með útlínum snjóflóða
Snjóflóð í Seljalandshlíð á Ísafirði 3. mars 2009.

Snjóflóðahrina á norðanverðum Vestfjörðum

6.3.2009

Snjóflóð féllu víða á norðanverðum Vestfjörðum 2.-3. mars og voru hús rýmd í Bolungarvík og á Ísafirði og vegum milli þéttbýlisstaða lokað þessa daga.

Snjóathugunarmenn og starfsmenn Vegagerðarinnar könnuðu aðstæður þegar veðrinu slotaði þann 4. mars og þá kom í ljós að snjóflóð höfðu fallið úr mörgum snjóflóðafarvegum við Ísafjarðardjúp.

Frá Súðavík að Arnarnesi höfðu um 30 flóð fallið niður á veg og hátt í 40 flóð féllu úr Óshlíð. Einnnig féllu flóð úr Eyrarhlíð á Hnífsdalsveg milli Ísafjarðar og Hnífsdals og lokuðu veginum.

Allstór snjóflóð féllu úr s.k. Steiniðjugili, Hrafnagili og Karlsárgili í Seljalandshlíð ofan svæðis sem rýmt hafði verið og má sjá útlínur þeirra á meðfylgjandi mynd. Flóðið úr Steiniðjugili lenti á gamalli steypustöð, sem hafði verið rýmd, og flóðið úr Hrafnagili á húsinu Grænagarði, sem keypt var upp fyrir nokkrum árum vegna snjóflóðahættu, og þar er því ekki búið á veturna. Álhlerar voru fyrir gluggum Grænagarðs og hlífðu þeir rúðum sem ella hefðu væntanlega brotnað. Einnig féll snjóflóð á Seljalandsdal þar sem áður var svigskíðasvæði Ísfirðinga.

Snjóflóð í Traðarhyrnu
kort af fjallshlíð með útlínum snjóflóða
Útlínur snjóflóða sem féllu úr Traðarhyrnu í Bolungarvík þann 3. mars 2009.

Tvö snjóflóð féllu úr Traðarhyrnu í Bolungarvík, ofan svæðis sem rýmt hafði verið, og náði annað þeirra niður á framkvæmdasvæði þar sem unnið er að byggingu varnargarðs.

Flóð féll einnig úr hlíðum Ernis ofan hesthúsahverfis Bolvíkinga, og stöðvaðist skammt ofan hesthúsanna, og úr Bæjargili í Óshyrnu í grennd við vinnubúðir verktaka, sem vinnur að gerð Óshlíðarganga. Þar hefur verið reistur leiðigarður til þess að beina snjóflóðum frá gangamunnanum og rann snjóflóðið meðfram garðinum og niður á tún nokkuð austan vinnubúðanna.

Snjóflóð féllu allvíða niður á vegi innar í Djúpinu og sunnan Skutulsfjarðar. Meðal annars féll snjóflóð úr Botnshlíð í Mjóafirði á stað þar sem sjaldgæft er að snjóflóð falli og í Eyrarhlíð utan Hestakleifar í austanverðum Ísafirði innarlega í Djúpinu en það er þekktur snjóflóðastaður.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica