Fréttir
Jarðskjálftar á Íslandi í mars 2009
Upptök jarðskjálfta á Íslandi í mars 2009.

Jarðskjálftar á Íslandi í mars 2009

3.4.2009

Í marsmánuði mældust 1036 jarðskjálftar og að auki á sjöunda tug sprenginga eða ætlaðra sprenginga vegna framkvæmda víðs vegar um landið. Stærsti skjálfti mánaðarins varð laust eftir miðnætti þann 1. mars á Lokahrygg í Vatnajökli og reyndist hann vera 4,4 að stærð.

Lítil jarðskjálftavirkni var á Reykjaneshrygg. Þar mældust 10 jarðskjálftar og var sá stærsti 2,7 stig þann 8. mars með upptök um 12 km suðvestur af Geirfugladrangi.

Rúmlega 40 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaganum. Upptök flestra voru við Krýsuvík og þar var stærsti jarðskjálftinn 2,1 stig þann 19. mars. Lítil sem engin jarðskjálftavirkni var á Reykjanesskagnum á tímabilinu 7. til 18. mars. Aðfaranótt 6. mars mældust sex jarðskjálftar við Svarstengi, þeir stærstu um 1,1 stig.

Á Hengilssvæði og í Suðurlandsbrotabeltinu voru staðsettir hátt í 230 jarðskjálftar. Þéttasta virknin mældist í Ölfusi á Kross- og Ingólfsfjallssprungum en þar voru staðsettir ríflega 160 skjálftar þennan mánuðinn. Þá voru á þriðja tug skjálfta staðsettir á VSV-ANA sprungunni sem gengur til vesturs inn í Hjallahverfi undir Hellisheiði. Þrír litlir skjálftar voru staðsettir austast í brotabeltinu við Haukadal á 8-10 km dýpi. Að auki mældust fáeinir litlir skjálftar á víð og dreif um Hengilssvæðið og brotabeltið. Tveir skjálftar mældust í námunda við Heklu, annar rúma 8 km suður af tindinum en hinn um 10 km til ANA.

Fremur lítil virkni mældist í Mýrdalsjökli í mars og aðeins sjö skjálftar voru staðsettir við Goðabungu en 14 innan öskjunnar eða rétt norðan hennar. Stærstu skjálftarnir í öskjunni röðuðu sér á norðvesturbarm hennar, sá stærsti 2,5 stig. Í Eyjafjallajökli voru staðsettir fimm skjálftar, einn við suðurjaðar jökulsins en hinir fjórir við norðurjaðarinn, nánar tiltekið við Steinsholtsjökul. Skjálftar mældust síðast við norðanverðan Eyjafjallajökul í ágúst 2008. Á Torfajökulssvæðinu voru staðsettir á annan tug skjálfta, sá stærsti um 2,2 stig.

Í Vatnajökli mældust 110 atburðir í mars. Þann 1. mars kl. 00:41 varð jarðskjálfti af stærðinni 4,4 á Lokahrygg í Vatnajökli. Langt er síðan jafnstór skjálfti hefur orðið á Lokahrygg. Næstu þrjá daga mældust nokkrir skjálftar á Lokahrygg, flestir smáir. Milli 12. og 25. mars mældust stöku smáskjálftar á Lokahrygg.

Nokkur virkni var í Bárðarbungu, en þar voru staðsettir 50 jarðskjálftar. Stærstu skjálftarnir urðu þann 11. mars, 3,2 að stærð. Nokkrir skjálftar mældust í Kverkfjöllum, þeir stærstu 2,4 stig. Dagana 20. til 22. mars var nokkur ísskjálftavirkni í Skeiðarárjökli í kjölfar hlýinda og úrkomu. Stakir skjálftar mældust í Dyngjujökli, Köldukvíslarjökli, Síðujökli og við Morsárjökul.

Frá 3. til 10. mars mældust 15 jarðskjálftar, á stærðarbilinu 1,1 til 2,0 stig, nokkrum kílómetrum suðvestan við Hveravelli. Þrjátíu jarðskjálftar mældust á sömu slóðum seinni hluta febrúar.

Á svæðinu í kringum Öskju og Herðubreið mældust um 160 jarðskjálftar í marsmánuði. Flestir voru staðsettir við Hlaupfell, norðan Upptyppinga, eða um 70 jarðskjálftar. Þeir voru smáir, þeir stærstu 1,2 stig. Jarðskjálftar við Hlaupfell eru flestir á sex til átta kílómetra dýpi. Við Herðubreið og Herðubreiðartögl mældust ríflega 60 jarðskjálftar, sá stærsti 1,6 stig. Í kringum Öskju mældust ríflega 20 jarðskjálftar, þeir stærstu um tvö stig. Austan öskjunnar eru upptök jarðskjálftanna niðri á um fimm kílómetra dýpi, en norðan hennar eru þau dýpri, eða á um 15 kílómetra dýpi.

Á og úti fyrir Norðurlandi mældust tæplega 400 jarðskjálftar, þar af tæplega helmingurinn á svæðinu suðaustan við Flatey á Skjálfanda. Að kvöldi miðvikudagsins þann 18. mars hófst smáskjálftahrina á því svæði og var allmikil virkni allan fimmtudaginn, en á föstudeginum þann 20. dró heldur úr henni. Jarðskjálftavirknin hélt áfram á svæðinu út mánuðinn. Stærsti skjálftinn úti fyrir Norðurlandi var 2,8 stig. Hann varð út af Gjögurtá aðfaranótt 18. mars í smáhrinu, sem hófst upp úr miðnætti og stóð fram eftir kvöldi þann 19. mars. Ríflega 70 skjálftar urðu á svæðinu út af Gjögurtá og fyrir mynni Eyjafjarðar. Tæplega 40 smáskjálftar mældust í Öxarfirði og um 90 skjálftar austan og suðaustan Grímseyjar og náðu nokkrir stærðinni tveimur eða rúmlega það.

Jarðskjálftarvirkni síðustu vikna á Íslandi má skoða nánar hér á vef Veðurstofunnar.

Eftirlit með jarðskjálftavirkni í mars höfðu Bergþóra S. Þorbjarnardóttir, Gunnar B. Guðmundsson, Halldór Geirsson, Sigurlaug Hjaltadóttir og Sigþrúður Ármannsdóttir





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica