Fréttir
kort af upptökum jarðskjálfta
Upptök jarðskjálfta á Íslandi í apríl 2009.

Jarðskjálftar í apríl 2009

13.5.2009

Í apríl mældust 1378 jarðskjálftar undir landinu, sem er um 28% fleiri skjálftar en mánuðinn á undan. Auk þess mældust 39 atburðir sem hafa verið staðfestir sem sprengingar og 38 atburðir sem að öllum líkindum eru sprengingar vegna framkvæmda víðsvegar um landið. Stærsti skjálftinn á landinu varð suðsuðvestur af Skálafelli á Hellisheiði, aðfaranótt miðvikudagsins 29. apríl og mældist hann 3,9 að stærð.

Dagleg virkni var allt frá 16 skjálftum á dag upp í 80 skjálfta á dag og var mesta virknin þann 13. apríl þegar hrina stóð yfir við Flatey á Skjálfanda. Skjálftastærðir voru á bilinu -0,9 - 3,9, þar af voru 179 af stærð undir 0, en 5 skjálftar náðu stærðinni 3 og yfir. Flestir skjálftar mældust á dýptarbilinu 4-11 km.

Á þriðja tug skjálfta mældust á Reykjaneshrygg í apríl. Flestir voru á bilinu frá 40 til 100 kílómetra frá landi. Sá stærsti var 2,9 stig. Á Reykjanesskaga var virknin mest við Krísuvík, stærsti skjálftinn þar varð 13. apríl, 2,6 stig. Einnig urðu skjálftar við Fagradalsfjall og um 4 kílómetra norðan við Grindavík mældist skjálfti sem fannst þar, var hann 2,0 stig.

Á Suðurlandi var virknin mest á Krosssprungunni sunnanverðri þar til í lok mánaðar. Þar mældust liðlega 100 smáskjálftar. Að morgni 28. apríl fannst skjálfti í Hveragerði, reyndist hann vera um 3 kílómetra fyrir norðan bæinn, 2,3 stig að stærð. Næstu nótt fannst annar skjálfti, upptök hans voru í Hjallahverfi í Ölfusinu og var hann 3,9 að stærð. Hann fannst víða í nærliggjandi byggðarlögum og á höfuðborgarsvæðinu. Í fréttum Veðurstofu Íslands má sjá áhrifakort fyrir skjálftann.

Um 20 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli, flestir í vesturjöklinum og var sá stærsti rúm 2 stig. Tæpur tugur smáskjálfta mældist í Eyjafjallajökli og 15 skjálftar, allir innan við 2 stig, á Torfajökulssvæðinu.

Undir Vatnajökli mældust 138 skjálftar, þar af voru um 25 ísskjálftar í Skeiðarárjökli. Stærstu jarðskjálftarnir mældust um 2,3 stig og voru þeir við Bárðarbungu og á Lokahrygg. Mesta ísskjálftavirknin var dagana 19.-20. apríl, en þá rigndi mikið. Virknin í kringum Bárðarbungu var bæði austur og norðaustur af Bárðarbungu, sem og við Kistufell, en einnig var virkni á Lokahrygg, við Grímsvötn og í Kverkfjöllum.

Á svæðinu norður af Vatnajökli mældust 160 skjálftar, þeir stærstu um 2 að stærð. Norður af Upptyppingum (og suður af Hlaupfelli) mældist 61 skjálfti á um 7 km dýpi. Tvær smáhrinur af djúpum jarðskjálftum urðu í mánuðinum. Dagana 17.-18. apríl mældist jarðskjálftahrina á um 21 km dýpi norðan Vaðöldu, um 13 km austur af Öskju. Þann 11. apríl og 20.-21. apríl urðu smáhrinur á 15-23 km dýpi undir Dyngjufjallahálsi, norður af Öskju. Nokkrir grunnir skjálftar mældust austan Öskjuvatns.

Um 500 skjálftar mældust á og úti fyrir Norðurlandi í apríl. Liðlega 100 skjálftar mældust í Öxarfirði, sá stærsti 2,4 stig. Rúmlega 240 skjálftar, allir smáir, mældust suðaustan við Flatey en þar hefur verið töluverð virkni síðan 18. mars. Nokkur virkni var austan og norðaustan Grímseyjar í mánuðinum og þann 28. apríl varð skjálfti af stærð 3,2 um 5 kílómetrum austan eyjunnar. Þessi skjálfti var jafnframt sá stærsti á Norðurlandi í apríl. Sama dag urðu tveir skjálftar með fjögurra mínútna millibili um 15 kílómetrum sunnan Grímseyjar og var annar tæplega og hinn rúmlega 3 stig.

Þann 17. apríl hófst jarðskjálftahrina upp af Borgarfjarðardölum, um 10 kílómetra vestan við Okið. Hrinan gekk að mestu leyti yfir á einni viku, en þó með tveimur lokaskjálftum á níunda degi. Alls mældust 83 skjálftar á stærðarbilinu 0,4 til 2. Flestir eru skjálftarnir á 4 - 6,5 km dýpi.

Nokkrar hrinur hafa mælst á svipuðum slóðum síðan 1996, bæði norðan og sunnan við hrinuna sem nú mældist.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica