Fréttir
ræðumaður
Páll Bergþórsson flytur ræðu í áramótahófi Veðurstofu Íslands.
1 2

Veðurstofunni færð gjöf

19.1.2010

Í áramótahófi 30. desember 2009 færði Páll Bergþórsson, veðurfræðingur og fyrrverandi veðurstofustjóri, Veðurstofu Íslands að gjöf mynd af einum helsta frumkvöðli nútíma veðurfræði, Vilhelm Bjerknes. Myndina fékk Páll á ráðstefnu vegna 50 ára afmælis daglegra tölvureiknaðra veðurspáa, en hún var haldin í Háskólanum í Maryland í Bandaríkjunum í júní 2004.

Svo fórust Páli orð um þennan frumkvöðul:

"Strax árið 1897 hafði hann brúað bilið milli lögmála varmafræði og aflfræði og heimfært þau upp á gufuhvolfið í svonefndri sveipakenningu (sirkulasjonsteoremet) um áhrif hitafarsins á breytingar stórra vindsveipa.

Og 1904 hélt hann því fram að öll aflfræðileg viðfangsefni í lofthjúpnum ætti að vera hægt að leysa með því að skilgreina ástand, stað og hreyfingu allra loftagna og spá ástandi þeirra, stað og hreyfingu á tilteknum tíma í framtíðinni með eðlisfræðilegum lögmálum. Nákvæmlega þetta sem hann taldi gerlegt er nú fengist við með síbatnandi árangri. En svo langt var hann á undan sínum tíma að það var ekki fyrr en skömmu fyrir lát hans árið 1951, að hilla tók undir þá tækni sem gerði þessa fyrirætlun að veruleika.

Vilhelm Bjerknes
Vilhelm Bjerknes
Vilhelm Bjerknes (f. 1862 d.1951) var norskur veðurfræðingur, einn helsti frumkvöðull nútíma veðurfræði.

Ég vil svo nefna að árið 1921 stóð Vilhelm Bjerknes fyrir því að veðurstöð var stofnuð á Jan Mayen, en hún reyndist Norðmönnum mjög gagnleg vegna lægðamyndana á því svæði, og hefur auk þess verið mikilvæg til þess að hægt væri að gera árstíðaspár um hafís við Ísland.“

Veðurstofa Íslands þakkar Páli Bergþórssyni fyrir þessa gjöf og þá samantekt sem henni fylgdi. Veðurstofan þakkar Páli einnig fyrir störf í þágu veðurfræðinnar á Íslandi í áratugi.

Daglegar tölvuspár í veðurfræði hófust vorið 1955 hjá veðurstofu sænska flughersins. Þær byggðust á tölvugreiningu tveggja nemenda við veðurfræðideild Háskólans í Stokkhólmi, Páls Bergþórssonar og Bo R. Döös undir handleiðslu prófessor Carl-Gustaf Rossby. Enn er sams konar keðjureikningur greiningar og spár notaður í grundvallaratriðum í veðurþjónustu, þó að tæknin og umfangið og þar með gæðin hafi aukist stórkostlega. Öld er nú liðin síðan Vilhelm Bjerknes hélt því fram að þetta væri mögulegt.

Í stafni
þrír veðurstofustjórar
Í áramótahófi 30. desember 2009 voru samankomnir þrír menn sem veitt hafa Veðurstofu Íslands forstöðu (talið frá vinstri): Páll Bergþórsson, Magnús Jónsson og Árni Snorrason. Ljósmynd: Katrín Guðmannsdóttir.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica