Vefurinn tilnefndur
Íslensku vefverðlaunin verða afhent í níunda sinn
Vefur Veðurstofu Íslands, vedur.is, hefur verið tilnefndur til Íslensku vefverðlaunanna 2009. Vefurinn er einn fimm vefja sem keppa í flokknum „
Besti þjónustu- og upplýsingavefurinn“. Vefur Veðurstofunnar komst einnig í fimm vefja úrslitin í flokknum Vefir í almannaþjónustu árið 2008 og árið 2007 var hann valinn besti vefurinn í þeim flokki.
Yfir eitt hundrað tilnefningar bárust og stóð dómnefnd SVEF, Samtaka vefiðnaðarins, í ströngu við yfirferð og úrvinnslu enda um marga góða vefi að ræða. Alls komust þrjátíu og fimm vefir í úrslit.
Ein af viðbótunum við vedur.is á síðasta ári var farsímavefurinn sem settur var í loftið í júní.
Meginbreytingarnar á vefnum endurspegla hins vegar þá nýju stofnun sem varð til við sameiningu Vatnamælinga og eldri Veðurstofu í upphafi fyrra árs. Veigamestu breytingarnar urðu á forsíðunni sem var skipt upp í fjóra hluta: veðurspá, veðurathuganir, jarðskjálfta og vatnafar. Einnig urðu fjölmargar breytingar á undirsíðum, bæði kvikum síðum og textasíðum, með miklu af nýju efni.
Afhending Íslensku vefverðlaunanna fer fram 12. febrúar kl. 17:00 í Hugmyndahúsi háskólanna að Grandagarði 2 og mun iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, afhenda verðlaunin.