Fréttir
gervihnattamynd - suðurströnd
MODIS gervitunglamynd frá 22. febrúar 2010.
1 2

Sandfok suður af landinu

Svifryksstrókur frá Landeyjarsandi

23.2.2010

Mikið sandfok suður af landinu í gær olli meðal annars slæmu skyggni í Vestmannaeyjum. Meðfylgjandi eru tvær MODIS gervitunglamyndir frá því í gær, mánudaginn 22. febrúar, sem sýna þetta fyrirbæri vel.

Fyrri myndin er náttúruleg litmynd og sýnir greinilega sandfokið suður af landinu, en sérstaklega ber á sandstróki frá Landeyjarsandi sem leggur yfir Vestmannaeyjar.

Seinni myndin er greining sem kallast birtuhitastigsmismunur (e. Brightness Temperature Difference eða BTD), sem hentar sérlega vel við aðgreiningu á svifryki og gosösku frá venjulegum skýjum. Í myndinni er mismunur á tveimur hitarásum, BTD, teiknaður í gulum og rauðum lit yfir hefðbundna hitamynd sem er í gráskala.

Í svifryki er oftast til nokkuð magn af ögnum sem eru minni en 6 míkrómetrar að stærð. Þetta gefur rykinu mjög sérstæða ljóstvístrunareiginleika í samanburði við vatnsagnirnar í hefðbundnum skýjum. Mismunur tveggja hitarása dregur fram þessa eiginleika vegna þess að munur er á gegnskini hitageisla í gegnum rykskýið á rásunum tveimur.

Á ýmsum vefjum er hægt að finna ljósmyndir sem fólk hefur tekið af sandfokinu á Landeyjarsandi.

Mönnuð veðurathugun á Stórhöfða gaf einungis 15 km skyggni kl. 15 í gær og henni ber því vel saman við gervitunglamyndina. Skemmtilegt hefði verið að sýna ljósmynd af sjóndeildarhringnum í Vestmannaeyjum til samanburðar. Ef einhver á slíka mynd frá því í gær eða frá öðrum svipuðum degi og vill senda okkur þá væri hún vel þegin og við myndum bæta henni hér við.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica