Fréttir
Jarðskjálftar á Íslandi í júní 2010
Jarðskjálftar á Íslandi í júní 2010.

Jarðskjálftar í júní 2010

14.7.2010

Um 1.200 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL mælakerfi Veðurstofunnar í júní.

Um miðjan mánuðinn varð skjálftahrina við Eldey á Reykjaneshrygg, um 10 kílómetra frá landi. Yfir 30 skjálftar mældust, allir innan við þrjú stig að stærð. Nokkrum dögum síðar varð nokkur virkni milli Eldeyjarboða og Geirfugladrangs, um 50 kílómetra frá landi. Þá mældust um 20 skjálftar innan við þrjú stig. Á Reykjanesskaga var lítil skjálftavirkni í júní.

Á Suðurlandi voru flestir skjálftar staðsettir við Raufarhólshelli í Ölfusi. Skjálftahrina sem hófst í lok maí hélt áfram fyrstu daga júnímánaðar. Alls voru um 200 skjálftar staðsettir. Viðvarandi skjálftavirkni var á suðurhluta Krosssprungunnar eins og síðustu mánuðina. Um 90 smáskjálftar voru staðsettir þar í júní, flestir innan við einn að stærð. Lítil skjálftavirkni mældist á Suðurlandsundirlendinu. Í vestara gosbeltinu mældust nokkrir skjálftar við Hafrafell og Hveravelli.

Tæplega 100 smáskjálftar mældust undir eldstöðinni í Eyjafjallajökli í júní. Flestir voru grunnir, innan við einn að stærð og með upptök undir eða sunnan við toppgíginn. Upp úr miðjum degi þann 4. júní jókst órói á stöðvum kringum eldstöðina en datt niður um kvöldið. Næstu daga komu fram óróahviður sem jukust snögglega og minnkuðu jafnsnögglega aftur. Þessar óróahviður komu fram vegna kvikusprenginga vestast í gígnum og þær náðu að framleiða ösku sem barst þó ekki langt frá gígnum. Hvítir bólstrar náðu allt að 6 km hæð í kjölfar sprenginganna. Þessi sprengivirkni hefur líklega náð að hreinsa ísvegginn og valdið bráðnun því þann 11. júní sást úr flugi að vatn hafði safnast fyrir í megingígnum.

Á þriðja tug skjálfta mældust undir vestanverðum Mýrdalsjökli og um 20 innan öskjunnar. Þeir voru allir smáir og dreifðir. Nokkrir smáskjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu.

Yfir hundrað skjálftar mældust undir Vatnajökli, flestir undir Bárðarbungu og við Kistufell. Stærsti var 3,2 stig, staðsettur norðaustan undir Bárðarbungu. Nokkur virkni var undir Lokahrygg. Í mánuðinum hljóp úr báðum Skaftárkötlum. Fyrra hlaupið, úr vestari katlinum, hófst 20. júní, en hið síðara viku seinna úr eystri katlinum. Óróahviður komu fram á jarðskjálftamælum í kjölfar seinna hlaupsins.

Nálægt hundrað skjálftar mældust á Öskju- og Herðubreiðarsvæðinu. Þeir voru smáir og dreifðir, allir innan við tvö stig. Nokkrir smáskjálftar mældust svo við Mývatn, á Kröflusvæðinu og við Ásbyrgi.

Um 300 skjálftar voru staðsettir úti fyrir Norðurlandi. Nokkrar litlar hrinur mældust og svo var viðvarandi skjálftavirkni í Öxarfirðinum og úti fyrir mynni Eyjafjarðar. Stærstu skjálftarnir voru milli 3,1 og 3,5 að stærð í Skjálfandadjúpi. Einn varð 6. júní í skjálftahrinu um 20 kílómetra austsuðaustan við Grímsey. Tveir voru svo 27. júní í skjálftahrinu rúmlega 30 kílómetrum austsuðaustan við Grímsey. Fimm jarðskjálftar mældust við Jan Mayen þann 3. júní.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica