Veður og loftslag
Opið hús í Þjóðskjalasafni Íslands 13. nóv. kl. 11-15
Norrænn skjaladagur verður haldinn hátíðlegur laugardaginn 13. nóvember og er Þjóðskjalasafn Íslands með opið hús í frá kl. 11 til 15. Þema dagsins er Veður og loftslag undir slagorðinu Óveður í aðsigi? og verður opna húsið í samstarfi við Veðurstofu Íslands sem heldur upp á 90 ára afmæli sitt á þessu ári.
Dagskráin fer fram í húsakynnum Þjóðskjalasafns að Laugavegi 162. Veðurstofa Íslands leggur til myndskeið, t.d. um hlýnun jarðar og snjóflóð af mannavöldum, einnig frá eldgosunum í Eyjafjallajökli í vor. Þá verða sýnd nokkur veðurathugunartæki, meðal annars hitamælar í mælaskýli eins og á meðfylgjandi mynd, og gömul veðurathugunarblöð sem varðveitt eru á Veðurstofunni.
Kl. 13.30 flytur Björk Ingimundardóttir erindi sem nefnist Heimildir um veðurfar, náttúrvá og fleira.
Kl . 14:30 flytur Guðrún Nína Petersen veðurfræðingur erindi sem hún nefnir Fljúgandi furðuhlutir og skemmtileg ský.
Þá má geta þess að í leiðara skjaladagsvefsins eru vísur Páls Bergþórssonar, veðurfræðings og fyrrverandi veðurstofustjóra; Veðrabrigði um ársins hring, fallega myndskreyttar.