Fréttir
Jarðskjálftar á Íslandi í janúar 2011
Jarðskjálftar á Íslandi í janúar 2011

Jarðskjálftar á Íslandi í janúar 2011

15.2.2011

Í janúarmánuði mældust um 1040 skjálftar undir landinu og hafsvæðinu í kringum Ísland. Stærsti skjálftinn varð úti á Reykjaneshrygg 10. janúar, Ml 3,4. Þrír skjálftar undir Vatnajökli voru um og yfir þrír að stærð, við Kistufell, Ml 3,2, norðan við Grímsfjall, Ml 3,3, og á Lokahrygg, Ml 3,0.

Rúmlega tuttugu jarðskjálftar mældust á Reykjaneshrygg, flestir 10. janúar um 45 kílómetra frá landi. Sá stærsti var Ml 3,4. Langflestir skjálftar sem mældust á Reykjanesskaga áttu upptök á svæðinu í kringum Kleifarvatn, eða yfir tvö hundruð. Flestir, eða um 90, urðu við suðvesturenda vatnsins. Aðrir áttu upptök á norður-suður sprungu við Núpshlíðarháls, meðfram tveimur norður-suður sprungum við Trölladyngju og dreifðir undir og austan við vatnið. Stærsti skjálftinn á svæðinu var 2,7 stig. Dagana 10. - 14. janúar mældust sjö skjálftar á litlu dýpi við Valahnúka.

Í Ölfusi og á Hengilssvæðinu urðu skjálftar við Húsmúla (20 að morgni 10. janúar), við Raufarhólshelli og á Krosssprungu. Á Suðurlandi mældust skjálftar á Hestvatnssprungu, við Gíslholtsvatn og við Bjólfell.

Um eitt hundrað jarðskjálftar mældust undir Mýrdalsjökli og þar af voru um 20 sem áttu upptök í Kötluöskjunni og voru þeir allir minni en einn að stærð. Hinir áttu upptök undir vesturhluta jökulsins og voru stærstu skjálftarnir um 2,2 að stærð.

Undir Eyjafjallajökli mældust um 20 skjálftar og voru þeir allir um eða undir einum að stærð. Á Torfajökulssvæðinu mældust 16 jarðskjálftar og var stærsti skjálftinn 2,5 að stærð með upptök um 3 km vestur af Landmannalaugum.

Fáeinir jarðskjálftar mældust í og við Langjökul, sá stærsti 1,9 að stærð. Þann 9. janúar varð jarðskjálftahrina með um 10 skjálftum við Sandfell, um 3 kílómetra norður af Geysi í Haukadal. Stærsti skjálftinn í hrinunni var 2,8 að stærð.

Tveir jarðskjálftar, sá stærri 1,8 að stærð, mældust við suðurenda Blöndulóns í byrjun mánaðarins. Einn skjálfti af stærð 2,5 mældist í norðausturhluta Hofsjökuls seint í mánuðinum.

Undir Vatnajökli mældust um 180 skjálftar í mánuðinum. Tveir skjálftanna voru staðsettir við Esjufjöll, sennilega seinustu eftirhreytur eftir virknina sem var á svæðinu á tímabilinu frá október til desember. Einn skjálfti varð undir Öræfajökli og einn við Þórðarhyrnu, en auk þess voru nokkrir skjálftar staðsettir við Skeiðarárjökul, alla vega einn þeirra líkist ísskjálfta.

Við Kverkfjöll mældust 24 skjálftar og 25 við Grímsvötn. Stærsti skjálftinn varð rétt norður af Grímsfjalli, Ml 3,3 að stærð, og var það jafnframt stærsti skjálftinn undir landinu þennan mánuðinn. Ríflega 70 skjálftar mældust við Bárðarbungu og á svæðinu milli Bárðarbungu og Grímsvatna. Margir þeirra skjálfta komu ekki fram í sjálfvirka kerfinu og var erfitt að staðsetja þá. Þeir sáust hins vegar vel sem óróahviður á óróagröfum á stöðvunum norðan Vatnajökuls.

Við Kistufell mældust 36 jarðskjálftar. Tveir skjálftar, um 1,5 að stærð, mældust sunnan við Tungnaárjökul og einn af svipaðri stærð norðan við jökulinn, allir á um 4 kílómetra dýpi. Við Dyngjufjöll, Herðubreiðartögl og Hlaupfell mældust alls 69 skjálftar, þar af um 30 við Herðubreiðartögl og átta austan við Öskjuvatn. Þeir voru allir undir Ml 2 að stærð.

Á Norðurlandi og fyrir norðan land mældust 185 skjálftar. Engir stórir skjálftar mældust í mánuðinum, en sá stærsti var af stærðinni Ml 2,4. Virknin var nokkuð jafn dreifð, en í námunda við Kópasker, Gjögurtá og Grímsey mældust um 50 skjálftar á hverju svæði fyrir sig og við Flatey mældust 17 skjálftar. Við Kröflu mældust sex skjálftar og fjórir við Þeistareyki.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica