Fréttir
Forsíða Vedráttu-taflna

Vedráttu-töflur Sveins Pálssonar

6.4.2011

Í tilefni af 90 ára afmæli Veðurstofu Íslands árið 2010 gaf stofnunin út Vedráttu-töflur Sveins Pálssonar (1762-1840), með töflum og veðurlýsingum frá árinu 1792, í 300 tölusettum eintökum. Handritið var myndað og gefið út með prentaðri uppskrift til þess að auðvelda lesturinn.

Handrit Sveins er líklega elsta leiðbeiningarrit á íslensku um veðurathuganir, bæði hvernig þær skuli gerðar og hvernig best sé að draga þær saman í yfirlit.

Handritið, Lbs 306 4to, er varðveitt í handritadeild Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns.

Í Vedráttu-töflum er handrit Sveins á hægri síðu í ritinu og sami texti prentaður á þeirri vinstri.

Trausti Jónsson veðurfræðingur hafði frumkvæði að útgáfunni og var umsjónarmaður hennar. Númeraðar skýringar við textann eru frá honum komnar en stjörnumerktar skýringar eru frá Sveini, svo sem sjá má í handritinu. Trausti vann uppskriftina ásamt Björk Ingimundardóttur, skjalaverði á Þjóðskjalasafni Íslands.

Eintak nr. 1 afhent
Afhending Vedráttu-taflna
Barði Þorkelsson, formaður afmælisnefndar Veðurstofunnar, afhendir Árna Snorrasyni forstjóra eintak nr. 1 af Vedráttu-töflum Sveins Pálssonar. Aðrir á myndinni eru (frá vinstri): Trausti Jónsson veðurfræðingur, Oddur Sigurðsson jarðfræðingur, Guðrún Pálsdóttir, í afmælisnefnd, Sigurlaug Gunnlaugsdóttir útgáfustjóri og Borgar Ævar Axelsson, í afmælisnefnd.

Í stuttum formála fjallar Trausti um veðurathuganir Sveins og um útgáfuna, Björk um uppskriftina og Oddur Sigurðsson ritar stutt æviágrip Sveins. Egill Baldursson ehf. annaðist umbrot ritsins en Líba Ásgeirsdóttir hjá Næst auglýsingastofu hannaði kápuna.

Veðurstofan þakkar öllum þeim sem komu að útgáfunni.

Veðráttu-töflurnar eru til sölu í afgreiðslu Veðurstofu Íslands og kostar eintakið 2.500 kr.


.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica