Fréttir
Jarðskjálftar á Íslandi í  febrúar 2011
Jarðskjálftar á Íslandi í febrúar 2011

Jarðskjálftar á Íslandi í febrúar 2011

29.3.2011

Hátt í 2000 skjálftar voru staðsettir undir og við landið í febrúar. Mest var virknin við Krýsuvík en þar var skjálftaruna í lok mánaðarins og mældust nokkrir skjálftar sem voru um og yfir fjögur stig.

Aðfararnótt 20. febrúar hófst skjálftahrina við Kleifarvatn og stóð hún allan þann dag og fram eftir kvöldi. Að kvöldi fimmtudagsins 24. febrúar hófst á ný skjálftahrina við Kleifarvatn og stóð hún út mánuðinn. Snemma á sunnudagsmorgni (upp úr klukkan 5) þann 27. febrúar fóru skjálftarnir stækkandi og mældust nokkrir um og yfir þremur stigum. Klukkan 09:06 um morguninn varð síðan skjálfti sem mældist fjögur stig, vestan við vatnið.

Seinni part sunnudagsins virtist heldur vera að draga úr virkninni en klukkan 17:27 varð skjálfti sem var heldur stærri en sá fyrri, eða 4,2 stig og var hann staðsettur nokkru sunnar en sá fyrri. Báðir þessir skjálftar fundust víða um sunnan og suðvestanvert landið. Heldur fór að draga úr virkninni á sunnudagskvöldið. Við Kleifarvatn voru staðsettir 1030 skjálftar í mánuðinum, þar af mældust  tæplega 700 þann  27. febrúar.   Skjálftarnir urðu flestir á 3 til 5 kílómetra dýpi.

Fjórtán skjálftar mældust á Reykjaneshrygg, sá stærsti 2,6 stig.

Við Húsmúla á Hengilssvæðinu mældust rúmlega 260 skjálftar. Upp úr hádegi föstudaginn 11. febrúar hófst þar skjálftahrina sem stóð allan þann dag. Snemma á mánudagsmorgni 21. febrúar hófst þar aftur hrina sem stóð fram eftir degi. Stærsti skjálftinn sem mældist á þessu svæði var 2,3 stig þann 11. febrúar. Báðar þessar hrinur urðu vegna niðurdælingar Orkuveitu Reykjavíkur á vatni niður í borholu. Fremur rólegt var annars staðar á Hengilssvæðinu og á Suðurlandsundirlendinu.

Tæplega 60 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli, flestir í vesturjöklinum. Stærstu skjálftarnir voru um tvö stig. Þrettán smáskjálftar mældust við toppgíg og suðurhluta Eyjafjallajökuls og nokkrir á Torfajökulssvæðinu.

Um 90 skjálftar mældust við Langjökul en skjálftaruna hófst um klukkan 10 þann 12. febrúar með skjálfta sem var 3,7 að stærð við Þórisdal sem liggur milli Þórisjökuls og Geitlandsjökuls. Yfir 50 eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið og stóð runan fram á kvöld. Stærsti skjálftinn fannst í Húsafelli sem er um 16 kílómetrum norðvestan upptakasvæðisins. Tveir skjálftar mældust við Hofsjökul og var sá stærri rúm þrjú stig.

Um 130 jarðskjálftar mældust undir Vatnajökli í febrúar. Stærsti skjálftinn varð norðaustur af Bárðarbungu, Ml 3,4. Rúmlega 70 skjálftar mældust í norðvestanverðum jöklinum. Við Grímsvötn mældust 34 skjálftar og var sá stærsti Ml 2,6 með upptök 8 kílómetrum norður af Grímsfjalli. Þrettán skjálftar mældust undir Lokahrygg sem er á milli Hamarsins og Grímsvatna. Við Kverkfjöll voru staðsettir rúmlega 15 skjálftar, sá stærsti Ml 1,9 á um sjö kílómetra dýpi.

Á svæðinu norðan Vatnajökuls voru ríflega 70 jarðskjálftar staðsettir með SIL-jarðskjálftaneti Veðurstofunnar. Mesta virknin var rétt austan Öskjuvatns og við Hlaupfell, norðan Upptyppinga. Skjálftarnir við Hlaupfell voru á um 8 kílómetra dýpi en við Öskjuvatn voru þeir heldur grynnri eða á um 6 kílómetra dýpi.

Á Norðurlandi og norður af landinu voru staðsettir yfir 180 skjálftar, sem er svipaður fjöldi og í janúarmánuði. Stærsti skjálftinn (Ml 2,7) sem staðsettur var á þessum slóðum varð 19. febrúar, um 130 km NNA af Kolbeinsey. 35 skjálftar urðu 9-10 km ANA Grímsey 7.-8. febrúar. Á milli 25 og 30 skjálftar voru staðsettir í Öxarfirði, flestir þeirra 9-12 km VSV af Kópaskeri. Um 35 skjálftar voru staðsettir við Flatey á Skjálfanda og úti fyrir mynni Eyjafjarðar voru um 50 skjáfltar staðsettir. Tveir skjálftar voru staðsettir í Fljótum og einn rétt norðan þeirra.

Sex grunnir (um 3 km dýpi) og litlir skjálftar, allir um 1 að stærð, voru staðsettir rétt suður af Kröfluvirkjun og vestur af (eða austan jarðskjálftastöðvarinnar Krókóttuvatna). Þá mældust einnig sex litlir skjálftar (á milli 0 og einn að stærð) dreift um Þeistareykjasvæði.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica