Fréttir
Íslandskort - punktar
Jarðskjálftar á Íslandi í júní 2011.

Jarðskjálftar á Íslandi í júní 2011

21.7.2011

Um 1050 jarðskjálftar mældust með SIL-kerfi Veðurstofunnar í júní. Helstu atburðir í mánuðinum voru aukin skjálftavirkni undir Geitlandsjökli og í Kötluöskju.

Um 20 jarðskjálftar voru staðsettir á Reykjaneshrygg í júní, flestir við Geirfuglasker. Stærsti var Ml 2,6 að stærð. Mesta skjálftavirknin á Reykjanesskaga var á Krýsuvíkursvæðinu. Yfir 160 skjálftar mældust þar, flestir innan við einn að stærð en stærsti 2,4 stig. Langflestir voru vestan við Kleifarvatn, við Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Nokkrir smáskjálftar mældust við Grindavík, Fagradalsfjall, Brennisteinsfjöll og Bláfjöll.

Á Hengilssvæðinu og í Ölfusi mældust um 140 skjálftar. Stærstu voru aðeins 1,2 stig. Flestir skjálftarnir áttu upptök í Ölfusi og Flóa á syðri hluta Krosssprungunnar (brotnaði í maí 2008) og við Raufarhólshelli. Nokkur þyrping var við Hveradali. Á Suðurlandsundirlendinu mældust um 45 skjálftar, allir innan við einn að stærð. Flestir urðu á Hestvatns- og Holtasprungum sem brotnuðu í júní 2000.

Ríflega 120 skjálftar voru staðsettir í Langjökli og nágrenni. Þeir urðu flestir í tveimur hrinum, 7. júní og 18.-19. júní og myndar skjálftadreifin um 5 km langa þyrpingu með stefnu SV-NA undir Geitlandsjökli. Stærstu skjálftarnir urðu 18. júní og voru þeir Ml 3,0 og Ml 3,3 að stærð. Jarðskjálftahrinur verða af og til á þessum slóðum og sú síðasta varð í febrúar síðastliðnum, ögn sunnar.

Rétt yfir 20 skjálftar mældust á Torfajökulssvæði, nær allir litlir (minni en Ml=1) utan einn sem var Ml 1,2 að stærð.

Í Eyjafjallajökli voru staðsettir fjórir litlir skjálftar en 113 í Mýrdalsjökli. Þar af voru 43 staðsettir allra vestast, við Tungnakvíslarjökul og nágrenni, einn sunnan í Fimmvörðuhálsi (allir litlir) og 69 innan öskjunnar (eða rétt við hana), sá stærsti 2,5 að stærð. Þetta er heldur meiri virkni en mælst hefur síðustu mánuði en vanalegt er að skjálftavirkni aukist innan öskjunnar í júlí. Fáir skjálftar hafa verið staðsettir við austurjaðar öskjunnar en fáeinar litlar þyrpingar má greina, m.a. nærri ískatli 4 (og 3), vestarlega innan öskjunnar. Aðrar þyrpingar eru t.d. norður af kötlum 5 og 6 og til norðausturs og milli katla 7 og 16. Númer ískatla má sjá á korti á vef Jarðvísindastofnunar.

Fremur rólegt var undir Vatnajökli í júní, en alls mældust um 70 skjálftar. Aðeins átta skjálftar (af stærð Ml 1,2-1,8) urðu í kringum Grímsvötn. Þessir skjálftar voru allir staðsettir á Kverkfjallahrygg. Fimm skjálftar urðu í kringum Hamarinn (Ml 1,2-1,6). Við Bárðarbungu voru alls átta skjálftar, þar af einn (Ml 1,3) suðaustan við toppinn og sjö norðan hans (Ml 0,8-2,1). Í kringum Kistufell mældust 23 skjálftar (Ml 0,5-2,5), þar af 15 í hrinu 7.-8. júní. Tólf skjálftar (Ml 1,0-1,9) urðu á svæðinu norðan Skeiðarárjökuls; það er líklegt að þessir skjálftar séu eftirspil gossins í Grímsvötnum. Einn skjálfti (Ml 1,1) varð um átta kílómetra vestan við Esjufjöll. Tveir skjálftar (Ml 1,0-1,1) urðu um 10 kílómetrum norðan við Geirvörtur. Rólegt var í Kverkfjöllum, eða aðeins sjö skjálftar (Ml 0,3-1,8).

Á svæðinu norðan Vatnajökuls urðu um 70 skjálftar. Við Öskju mældust um 14 skjálftar (Ml -0,2-2,2); af þeim voru átta í klasa austan við Öskjuvatn (Ml 0,4-2,2). Um 30 smáskjálftar urðu við Herðubreiðartögl, aðeins einn af þeim var yfir Ml 1,0. Nitján af þessum skjálftum komu í hrinu þann 11. júní, um tvo kílómetra vestan við fjallið. Við Herðubreið urðu um 17 skjálftar (Ml 0,3-1,0), þar af níu um fimm kílómetrum norðaustan við tindinn.

Átta skjálftar voru á Kröflusvæðinu (Ml 0,0-1,4). Við Þeistareyki mældust 12 skjálftar (Ml 0,0-1,4). Einn skjálfti (Ml 2,1) varð undir Heilagsdalsfjalli (suðaustan Mývatns).

Norðan við landið urðu alls um 180 skjálftar á stærðarbilinu Ml 0,0-2,6, en langflestir voru undir Ml 1,0. Í Öxarfirði urðu rúmlega 60 skjálftar (Ml 0,0-1,6), þar af helmingur í hrinu 16.-19. júní. Í Skjálfanda urðu um 40 skjálftar (Ml 0,0-1,7), þar af tæpur helmingur í hrinu aðfararnótt 13. júní. Úti fyrir mynni Eyjafjarðar mældust um 40 skjálftar (Ml 0,3-1,8), í norðvestur-suðaustur stefnu. Austan við Grímsey urðu rúmlega 30 skjálftar sem voru að meðaltali stærri en annarsstaðar á Norðurlandi (Ml 0,5-2,6). Átta af stærstu skjálftunum þar komu í hrinu klukkan 18 þann 5. júní.

Eftirlitsfólk í júní: Steinunn Jakobsdóttir, Evgenia Ilyinskaya, Sigþrúður Ármannsdóttir, Bergþóra S. Þorbjarnardóttir og Sigurlaug Hjaltadóttir.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica