Fréttir
Jarðskjálftar á Íslandi í desember 2011
Jarðskjálftar á Íslandi í desember 2011.

Jarðskjálftar á Íslandi í desember 2011

13.1.2012

Á Reykjaneshrygg mældust 7 jarðskjálftar í desember á svæðinu frá Reykjanestá og að Eldeyjarboða. Stærsti skjálftinn mældist ML 2,4. Alls mældust 78 jarðskjálftar á Reykjanesskaga. Smá hrina skjálfta varð í suðvestanverðu Kleifarvatni þann 3. desember og voru stærstu skjálftarnir um 2 að stærð. Stærsti skjálftinn undir vatninu, ML 2,4, mældist á aðfangadagskvöld. Átta smáskjálftar, allir undir 1 að stærð, mældust á svæðinu frá norðanverðum Brennisteinsfjöllum og austur fyrir Heiðina Há.
Á Hengilssvæðinu voru yfirfarnir 579 sjálftar lang flestir við Húsmúla þar af voru yfir 100 skjálftar þann 17. Desember. Stærsti skjálftinn var ML 2.3 en flestir skjálftarnir voru minni en ML 1. Það mældust 25 skjálftar í Ölvusi, flestir undir ML 1. Á Suðurlandsundirlendi mældust 24 jarðskjálftar, þar af um helmingur á Hestvatnssprungunni. Skjálftarnir voru allir smáir, sá stærsti af stærð ML 1,1.

Á og úti fyrir Norðurlandi mældust 165 jarðskjálftar í desember og var virknin með nokkuð hefðbundnu sniði, dreifðir skjálftar í tíma og rúmi, utan skjálfta sem urðu skammt austan Akureyrar. Klukkan 19:22 föstudagskvöldið 2. desember varð skjálfti í Vaglafjalli um það bil 14 kílómetrum austan Akureyrar. Hann var rúmlega þrjú stig og fannst á Akureyri. Fjórir eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið, einn fjórum mínútum eftir þann fyrsta, annar tíu mínútum síðar og tveir um það bil klukkutíma eftir þann fyrsta. Nokkrir skjálftar mældust á sama stað síðar í mánuðinum. Þetta er fremur óvenjuleg staðsetning en skjálftar á þessum slóðum verða mun norðar en þessir þ.e. á Flateyjarskaganum.

Tæplega 60 skjálftar mældust í Öxarfirði. Smáhrina hófst klukkan 04:21 þann 8. desember um það bil sjö kílómetra suðvestur af Kópaskeri og stóð hún fram á miðjan dag. Stærsti skjálftinn var ML 2 stig.  Um tveir tugir skjálfta mældust, dagana 6. - 8. desember, um það bil átta kílómetrum norðvestur af Gjögurtá þar sem stærsti skjálftinn var ML 2,5 stig. Nokkrir smáskjálftar mældust við Kröflu og Þeistareyki. Tugur skjálfta mældist á Kolbeinseyjarhrygg og var sá stærsti tæplega 3 að stærð.

Undir Vatnajökli mældust 63 jarðskjálftar í desember, flestir um það bil 13 kílómetrum norðaustur af Bárðarbungu. Mesta virknin á þessu svæði var þann 21. þegar skjálfti af stærðinni ML 3,2 mældist á um það bil 8,5 kílómetra dýpi og 15 eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið. Á öðrum stöðum í jöklinum urðu skjálftar á Lokahrygg, um 8 kílómetrum austnorðaustur af Hamrinum. Þess utan urðu sex jarðskjálftar undir Kverkfjöllum og voru þeir á um sex kílómetra dýpi,sá stærsti ML 1,8.

Á svæðinu norðan Vatnajökuls mældust 50 jarðskjálftar, sá stærsti ML 2,1 og var hann við austanverða brún öskjuvatns. Þrettán skjálftar á stærðarbilinu ML 0,3 til ML 2,0 mældust um það bil einum kílómetra norður af Hlaupfelli.

Um 400 jarðskjálftar voru staðsettir í Mýrdalsjökli eða allra næsta nágrenni í mánuðinum. Skjálftarnir voru á stærðarbilinu ML 1,4 - 2,4. Langstærsti hluti þeirra (um 300 skjálftar) urðu innan Kötluöskjunnar. Seinni hluta mánaðarins virtist örlítið draga úr virkninni en hún hefur verið mikil síðan 9. júlí s.l. þegar hlaupið í Múlakvísl tók af brúna yfir ána. Aðeins sjö skjálftar mældust við Hafursárjökul og hefur skjálftum því fækkað þar síðan í sumar og haust.

Á Torfajökulssvæði mældust 57 skjálftar, þeir voru um og undir ML 1,3 að stærð.  Á skjálftamælistöðinni Slysaöldu norðan Mýrdalsjökuls greindust að auki allnokkrir skjálftar sem talið er að eigi upptök við Torfajökul en ekki reyndist unnt að staðsetja þá þar eð þeir greindust illa eða alls ekki á öðrum stöðvum.

Engir skjálftar mældust í Langjökli í desembermánuði en tveir litlir (undir ML 1) skjálftar voru staðsettir sunnan hans, í Högnhöfða og Sandfelli. Einn skjálfti greindist í vestanverðum Hofsjökli þann 28. desember, ML 1,2 að stærð.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica