Fréttir
jafnfallinn snjór á garðflöt, tjrám og húsi
Vetrarstemmning í Reykjavík hinn 25. janúar 2012.

Tíðarfar í janúar 2012

Stutt yfirlit

1.2.2012

Mánuðurinn telst úrkomu- og illviðrasamur um meginhluta landsins. Suðvestanlands var venju fremur snjóþungt og sömuleiðis var allmikill snjór á Vestfjörðum og sums staðar norðanlands. Hiti var ofan við meðallag um land allt, mest austanlands.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík mældist 0,4 stig og er það um 1,0 stigi ofan við meðallag áranna 1961 til 1990 en 0,5 stigum undir meðallagi áranna 2001 til 2010. Á Akureyri var meðalhitinn 0,3 stig og er það 2,4 stigum ofan meðallags. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 1,7 stig og -4,4 stig á Hveravöllum, 2,3 stigum ofan meðallags. Meðalhita á fleiri stöðvum má sjá í töflu, þar má einnig sjá röð hita mánaðarins frá þeim hlýjasta talið.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 0,4 1,0 49 til 50 142
Stykkishólmur 0,4 1,8 35 167
Bolungarvík 0,2 1,4 34 115
Akureyri 0,3 2,4 24 131
Egilsstaðir 0,1 2,6 13 57
Dalatangi 2,4 2,1 20 73
Teigarhorn 1,8 2,0 25 140
Höfn í Hornafirði 1,7 1,6
Kirkjubæjarklaustur 0,0 0,4 42 87
Árnes -1,3 0,8
Stórhöfði 2,3 1,0 36 135
Hveravellir  -4,4 2,3 13 47

Hæsti meðalhiti mánaðarins mældist í Surtsey 3,4 stig en þar á eftir á Vattarnesi 2,7 stig. Lægstur var meðalhitinn í Sandbúðum á Sprengisandsleið -5,8 stig en næstlægstur á Brúarjökli -5,3 stig. Lægstur var meðalhiti í byggð í Möðrudal, -3,6 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist á Skjaldþingsstöðum þ. 29., 15,6 stig, sama dag mældist hámarkshiti 15,2 stig á sjálfvirku stöðinni á Siglufirði. Lægsti hiti mánaðarins mældist á Brú á Jökuldal, -22,6 stig þann 27. Lægsta lágmark á mannaðri stöð mældist á Torfum í Eyjafirði sama dag, -17,5 stig.

Úrkoma

Mjög úrkomusamt var á Suður- og Vesturlandi og úrkoma var einnig ofan við meðallag víðast hvar fyrir norðan. Einna minnst að tiltölu var úrkoman austast á landinu en þar var hún nærri meðallagi.

Í Reykjavík mældist úrkoman 144,6 mm og er það 90 prósent umfram meðallag, í Stykkishólmi var úrkoman einnig um 90 prósent umfram meðallag janúarmánaðar. Úrkoma á Akureyri mældist 72,7 mm og er það um 30 prósent umfram meðallag.

Úrkoma á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist 314,4 mm. Þar hefur verið mælt samfellt frá 1921 og hefur aldrei mælst meiri úrkoma í janúar en nú. Áður var mælt í kaupstaðnum frá 1881 og þar mældist heldur aldrei meiri úrkoma í janúar en nú. Endanlegt uppgjör liggur ekki fyrir á fleiri stöðvum en svo virðist sem ekki hafi mælst meiri úrkoma Í Vík í Mýrdal í janúar síðan 1950. Á Grímsstöðum á Fjöllum hefur aldrei mælst meiri úrkoma í janúar heldur en nú – ekki þó staðfest. Fáeinar aðrar stöðvar eru nærri fyrri metúrkomu eða rétt yfir henni, af þeim sem lengi hafa athugað má í þeim flokki nefna Hraun á Skaga og Írafoss, en Eyrarbakka vantar lítið upp á met.

Snjóalög

Snjóþungt var um landið sunnan- og vestanvert og sömuleiðis var mikill snjór á Vestfjörðum norðanverðum og sums staðar norðanlands. Olli snjórinn ýmis konar vandræðum, ekki síst vegna þess að mikil svellalög sem fylgdu kulda og snjó í desember tók seint og illa upp. Óttast margir kal í vor og sumar.

Í Reykjavík voru 24 alhvítir dagar og er það 12 dögum meira en að meðaltali 1961 til 1990, en 9 dögum meira en að meðaltali 1971 til 2000. Alhvítir dagar hafa ekki verið fleiri í janúar í Reykjavík síðan 1993 en þá voru þeir 27. Alhvítir dagar voru 23 í janúar 1995 og 2005. Að magni til er snjórinn í janúar einnig sá mesti í janúar frá 1993 og aðeins 5 sinnum hefur snjór verið meiri í janúar frá því að samfelldar mælingar á snjódýpt ásamt mati á snjóhulu hófust í Reykjavík árið 1921.

Sé einnig litið til annarra almanaksmánaða er það einungis í febrúar árið 2000 að snjómagn var svipað og nú, eftir 1993. Séu mánuðirnir tveir, desember og janúar teknir saman kemur í ljós að aldrei hafa snjóþyngsli orðið samtals jafnmikil í mánuðunum tveimur og nú. Aðeins tvö önnur mánaðapör skáka því snjómagni sem nú hefur gengið yfir í Reykjavík, það eru janúar og febrúar 1984 og febrúar og mars 1989. Febrúar og mars 2000 eru ekki langt undan. Hafa verður í huga að mælt hefur verið á nokkrum stöðum í bænum og alls ekki er víst að mæliaðstæður séu sambærilegar í raun.

Á Akureyri voru alhvítu dagarnir 21 og er það í meðallagi.

Vindhraði

Vindhraði var lítillega undir meðallagi í mánuðinum. Ekki er búið að villuleita vindathuganir á öllum stöðvum en bráðabirgðaniðurstöður virðast gefa til kynna að mesti 10-mínútna meðalvindhraði í mánuðinum hafi mælst á Gagnheiði þann 11., 40,2 m/s, en mesta hviða hafi mælst á Miðfitjahól á Skarðsheiði þann 27., 56,8 m/s.

Þótt veðraskak hafi verið talsvert var lítið um illviðri sem náðu til stórra hluta landsins eða þess alls. Helst var það syrpan dagana 8. til 11. sem það gerði. Þá gekk fyrst kröpp lægð með mikilli veðurhörku yfir austasta hluta landsins en síðan skall á vestanstormur með hríðarbyljum og miklum samgöngutruflunum – mestum þó vestanlands.

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir voru fáar í mánuðinum. Í Reykjavík mældust þær 13,6 og er það 13 stundum undir meðallagi. Á Akureyri á sólin litla möguleika í mánuðinum. Að þessu sinni mældust stundirnar aðeins 4,1 en það er samt aðeins lítilega undir meðallagi. Sólskinsstundir hafa flestar orðið 21 á Akureyri í janúar.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 995,8 hPa og er það 4,5 hPa undir meðallagi. Meðalþrýstingur hefur nú verið undir 1000 hPa fimm mánuði í röð og er það óvenjulegt.

Lægsti þrýstingur mánaðarins mældist í Stykkishólmi þann 1., 957,7 hPa, en hæstur á Stórhöfða í Vestmannaeyjum þann 12. 1028,7 hPa.

Vetrarstemmning
Vetrarstemmning við Helluvatn í Heiðmörk hinn 22. janúar 2012. Ljósmynd: Sveinn Haukur Sigvaldason.
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica