Fréttir
Ísland
MODIS gervitunglamynd 5. febrúar 2012.

Falleg MODIS mynd af Íslandi

6.2.2012

Á hverjum degi fara nokkur veðurtungl yfir Ísland. Meðal þessara eru NASA tunglin Terra og Aqua en þau bera bæði háþróaða breiðbandsmyndavél sem kölluð er MODIS.

Þessar myndavélar nema bæði sýnilegt ljós og innrautt ljós og hver "mynd" er í raun gagnasafn 36 mismunandi mynda, með einni fyrir hvern hluta tíðnirófsins sem myndavélarnar sjá.  Þó bæði tunglin hafi fleiri myndavélar og mælitæki eru MODIS myndirnar það sem vekur mesta athygli; meðal annars er hægt er að gera fallegar litmyndir úr gögnunum og rata þær víða. Þessar myndir eru yfirleitt kallaðar MODIS myndir, óháð því hvort þær koma frá Terra eða Aqua. MODIS myndir má skoða á vef Veðurstofu Íslands, ásamt myndum frá öðrum veðurtunglum.

Í skammdeginu er svo lítil birta á norðurslóðum, að það er fátt um fínar MODIS litmyndir af Íslandi. En um leið og dag fer að lengja nást góðar myndir, þegar veður leyfir, og þær minna á að skammdeginu fari senn að ljúka. Ofangreint gildir um myndir frá sýnilega hluta tíðnirófsins; eftir sem áður má fá innrauðar hitamyndir (en það er önnur saga).

Sunnudaginn 5. febrúar fékkst þessi fallega mynd sem sýnir snæviþakið landið, hafís í Grænlandssundi og skýjabakka yfir suðvesturhluta landsins. Víða er snjólaust á láglendi, og sjá má hvernig snjólausir láglendisdalir skera sig inn í hálendið. Þingvallavatn er íslaust en ef myndin er skoðuð í fullri stærð má sjá vakir á Mývatni. Þó sól sé einungis gengin skammt framhjá hádegisstað þegar myndin er tekin, sýna skuggar á myndinni að sólin er ekki hátt á lofti. Drottning íslenskra fjalla, Herðubreið, er þannig auðþekkjanleg á skugganum og á Tröllaskaga sýna skuggar í norðurhlíðum stórbrotið landslag. Einnig má skoða stærri mynd.

Ísland





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica