Fréttir
Framkvæmdaráð Veðurstofu Íslands.
Framkvæmdaráð Veðurstofu Íslands.

Ársfundur Veðurstofu Íslands 2012

Fjölbreytt verkefni voru kynnt

26.3.2012

Allt að 100 manns sóttu ársfund Veðurstofu Íslands 22. mars sl., sem var haldinn á „Degi vatnsins“. Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, flutti ávarp og ræddi um aukin og fjölbreytt verkefni Veðurstofunnar á síðustu árum. Sem dæmi nefndi hún hlutverk stofnunarinnar varðandi náttúruvá og aukna þátttöku í alþjóðlegu samstarfi.

Að loknu ávarpi ráðherra fjallaði Árni Snorrason forstjóri um stöðu stofnunarinnar og helstu verkefni.

Theodór Freyr Hervarsson, framkvæmdastjóri eftirlits- og spásviðs, flutti erindi um hlutverk sviðsins sem er meðal annars að annast allar veðurspár fyrir landið, miðin og flugstjórnarsvæðið sem er með þeim stærstu í heimi. Sólarhringsvakt er á alla daga ársins og gefin út viðvörun sé talin hætta á einhvers konar náttúruvá. Unnið úr upplýsingum sem berast frá jarðmæli-, vatnamæli- og veðurmælikerfum, auk veðursjár-, hálofta-, eldinga- og umhverfisvöktunarstöðva.

Sigrún Karlsdóttir náttúruvárstjóri, Evgenia Ilyinskaya eldfjallasérfræðingur og Emmanuel P. Pagneux, sérfræðingur í flóðarannsóknum, greindu frá áætlun um eldfjallarannsóknir og áhættumat eldfjalla. Gert er ráð fyrir að unnið verði að fjórum fagverkefnum á næstu þremur árum: úttekt á þekkingu á íslenskum eldstöðvum; forgreiningu áhættu vegna flóða samfara eldgosum; forgreiningu á sprengigosum á Íslandi; og forgreiningu eldgosa sem valdið geta miklu eignatjóni, þ.e. eldgosum nálægt þéttbýli og alþjóðlegum flugvöllum á Íslandi.

Þorsteinn Þorsteinsson kynnti aðalniðurstöður norræna rannsóknaverkefnisins Climate and Energy Systems (CES) sem Veðurstofa Íslands stýrði á árunum 2007-2011. Í verkefninu voru reiknaðar sviðsmyndir veðurfars á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndum á 30 ára tímabilinu 2021-2050 og metin áhrif hlýnandi veðurfars á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa (sjá samantekt pdf 0,8 Mb). Í erindinu var einnig greint frá vinnu, sem fram hefur farið í íslensku systurverkefni CES-verkefnisins. Verða niðurstöður þess verkefnis kynntar á sérstökum fundi í vor og þá einnig fjallað um nauðsynlega aðlögun að loftslagsbreytingum hérlendis.

Árni Snorrason forstjóri veitti fimm starfsmönnum Veðurstofunnar, sem helgað höfðu stofnuninni starfskrafta sína í yfir 40 ár, viðurkenningu. Starfsmennirnir eru Friðjón Magnússon, Helgi Gunnarsson, Hrafn Karlsson, Jenný Olga Pétursdóttir og Oddur Sigurðsson.

Í tengslum við ársfundinn var gefin úr ársskýrsla Veðurstofunnar þar sem fjallað er um helstu náttúruviðburði síðasta árs og rannsóknarverkefni, innlend og alþjóðleg, sem unnið er að á

Forsíða ársskýrslu Veðurstofunnar stofnuninni. Greint er frá húsnæðismálum stofnunarinnar sem leystust að hluta á árinu og frá stefnumótunarvinnu starfsmanna, birtar tölulegar upplýsingar um mannauð og menntun og gefið yfirlit um rekstur Veðurstofunnar á síðasta ári.

Eftir fundinn var meginbókasafn Veðurstofunnar, sem er í rúmlega 200 fermetra sal í kjallara, vígt og því gefið nafnið Undirheimar. Var það valið úr tillögum frá starfsmönnum.

Bókasafn Veðurstofu

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica