Fréttir
mælaskýli við ísilagðan vatnsfarveg
Jökulsá á Dal við Hjarðarhaga þann 12.3.2012.

Tíðarfar í mars 2012

Stutt yfirlit

2.4.2012

Mánuðurinn var mjög hlýr, sérstaklega um landið norðan- og austanvert en á þeim slóðum var hann meðal þeirra tíu hlýjustu frá upphafi mælinga. Mjög úrkomusamt var á Suður- og Vesturlandi. Snjólétt var á landinu. Mestallan mánuðinn gengu miklir umhleypingar en oftast fór vel með veður.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 3,1 stig og er það 2,6 stigum ofan við meðallag. Meðalhiti á Akureyri mældist einnig 3,1 stig, 4,4 stigum ofan við meðallag, og er mánuðurinn þar í 8. til 10. sæti hlýjustu marsmánaða. Það hefur aðeins gerst sex sinnum áður frá því að samfelldar mælingar hófust að jafnhlýtt eða hlýrra hefur verið í mars á Akureyri heldur en í Reykjavík.

Meðalhiti á Höfn í Hornafirði var 4,3 stig, 3,1 stigi ofan við meðallag. Meðalhiti á Hveravöllum var -2,2 stig, 3,7 stigum ofan meðallags. Þetta er þriðji hlýjasti mars sem mælst hefur á Hveravöllum. Sjá má meðalhita og vik á öðrum stöðvum í töflu.

Tafla. Meðalhiti marsmánaðar 2012 og vik frá meðallagi áranna 1961 til 1990

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 3,1 2,6 20 142
Stykkishólmur 2,7 3,5 10 til 11 167
Bolungarvík 1,9 3,5 12 115
Akureyri 3,1 4,4 8 tll 10 131
Egilsstaðir 2,9 4,3 5 57
Dalatangi 3,5 3,4 7 til 8  73
Teigarhorn 3,7 3,3 9 140
Höfn í Hornafirði 4,3 3,1
Kirkjubæjarklaustur
Árnes 2,0 2,8 [16 til 17] [131]
Stórhöfði 3,6 1,9 23 135
Hveravellir  -2,2 3,7 3 47

Hæsti meðalhiti mánaðarins mældist í Kvískerjum í Öræfum, 4,6 stig, þar á eftir komu Surtsey með 4,5 og Vestmannaeyjabær 4,2 stig. Lægstur var meðalhitinn á Þverfjalli -3,6 stig, og nánast jafnlágur í Sandbúðum. Lægsti meðalhiti í byggð var -0,8 stig í Möðrudal.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 20,5 stig í Kvískerjum þann 29. Þetta er langhæsti hiti sem mælst hefur í mars á Íslandi. Fyrra met var 18,8 stig sem mældust á Eskifirði þann 28. mars 2000. Hæsti hiti á mannaðri veðurstöð mældist á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði þann 26., 18,2 stig og er það hæsti hiti sem mælst hefur 26. mars.

Lægsti hiti mánaðarins mældist í Veiðivatnahrauni þann 18., -24,3 stig. Lægsti hiti í byggð mældist við Mývatn þann 18., -19,9 stig. Sama dag mældist lægsti hiti á mannaðri veðurstöð á Grímsstöðum á Fjöllum, -18,8 stig.

Fjögur dægurlandshámarkshitamet voru slegin í mánuðinum. Fyrir utan Íslandsmetið þann 29. og áðurnefnt dagsmet á Skjaldþingsstöðum þann 26. fór hiti þann 23. í 15,0 stig á Seyðisfirði, gamla metið var 14,9 sett í Fagradal í Vopnafirði 1964. Hiti fór í 15,9 stig á Siglunesi þann 24., gamla metið var 15,0 stig, sett á Dalatanga 1953.

Úrkoma

Mjög úrkomusamt var á Suður- og Vesturlandi en úrkoma nokkuð undir meðallagi á Norðaustur- og Austurlandi. Í Reykjavík mældist úrkoman 117,1 mm og er það 43% umfram meðallag. Á Akureyri mældist hún 33,9 mm sem er tæplega 80% af meðalúrkomu í mars.

Ekki voru nema þrír dagar alveg úrkomulausir í Reykjavík, úrkoma mældist 1 mm eða meiri 22 daga í mánuðinum og er það 8 dögum meira heldur en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoman 1 mm eða meiri sjö daga, þremur færri heldur en í meðalári. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist úrkoma alla daga mánaðarins (31) og 1 mm eða meiri 24 daga hans.

Snjóalög

Snjólétt var á landinu. Alhvítir dagar voru átta í Reykjavík og er það þremur dögum minna en í meðalári (1961 til 1990). Á Akureyri voru alhvítu dagarnir sjö og er það 12 dögum undir meðallagi.

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 62,5 og er það 49 stundum undir meðallagi. Mars í fyrra var ámóta sólarlítill. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 83,9 og er það sjö stundum yfir meðallagi.

Loftþrýstingur og vindhraði

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1003,7 hPa og er það 0,6 hPa yfir meðallagi. Hæsti þrýstingur mánaðarins mældist á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði þann 29., 1029,0 hPa, en lægstur mældist hann 947,3 hPa á Dalatanga þann 6. Þetta er fjórði lægsti loftþrýstingur sem mælst hefur við sjávarmál hér á landi í marsmánuði. 

Vindhraði í byggð var um 0,3 m/s yfir meðallagi.

Veturinn 2011 til 2012 (desember til mars)

Veturinn byrjaði með miklu kuldakasti sem stóð í hálfan mánuð. Síðan hlýnaði heldur og miklir umhleypingar tóku við með blotum, snjókomum og frostum til skiptis þannig að illa var komist um jörðina. Færð var með versta móti enda snjór meiri en um tíu ára skeið um landið sunnan- og vestanvert. Þegar leið fram á þorrann linaði nokkuð og þótt hin órólega tíð héldi áfram allt til loka vetrarins var hún umtalsvert mildari og vægari í febrúar og mars heldur en verið hafði fyrri hluta vetrar. Í marslok komu nokkrir óvenjulega hlýir dagar.

Hiti

Meðalhiti vetrarins í Reykjavík var 1,0 stig. Er það 1 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 0,2 stigum undir meðallaginu 2001 til 2010. Á Akureyri var meðalhiti vetrarins 0,4 stig eða 2,0 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,6 stigum yfir meðallaginu 2001 til 2010.

Úrkoma

Veturinn var mjög úrkomusamur um landið sunnan- og vestanvert. Úrkoman í Reykjavík mældist 475 mm og er það 55% umfram meðallag. Þetta er svipað og veturinn 2007 til 2008. Á Akureyri mældist úrkoma vetrarins 196,8 mm og er það nákvæmlega í meðallagi. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum hefur vetrarúrkoman aðeins tvisvar verið meiri en nú, það var 1945 og 1968.

Snjóalög

Óvenjusnjóþungt og áfreðasamt var um landið sunnan- og vestanvert í desember og janúar en síðan brá til betri tíðar og snjó tók smám saman upp. Snjólétt var um land allt í febrúar og mars. Alhvítir dagar voru 68 í Reykjavík, þar af 53 í desember og janúar. Í heild voru alhvítir dagar 24 fleiri en að meðaltali 1961 til 1990 í Reykjavík og hafa ekki verið jafnmargir yfir vetrarmánuðina fjóra síðan veturinn 2000 til 2001. Á Akureyri voru alhvítu dagarnir 66, 17 dögum færri en að meðaltali. Það hefur fimm sinnum gerst áður síðan 1950 að alhvítir dagar í vetrarmánuðunum fjórum hafi verið fleiri í Reykjavík heldur en á Akureyri (1954, 1959, 1984, 1989 og 2005).

Fyrstu þrír mánuðir ársins 2012

Mjög hlýtt var fyrstu þrjá mánuði ársins. Meðalhiti í Reykjavík var 2,0 stig og er það 1,9 stigi ofan við meðallag áranna 1961 til 1990 og 0,9 stigum ofan meðallagsins 2001 til 2010. Fyrstu þrír mánuðir ársins hafa átta sinnum verið hlýrri heldur en nú frá því að samfelldar mælingar hófust í Reykjavík 1871.

Á Akureyri hafa fyrstu þrír mánuðirnir aðeins einu sinni verið hlýrri heldur en nú frá því að samfelldar mælingar hófust þar 1881, það var 1964. Árið 1929 voru mánuðirnir þrír jafnhlýir og nú. Fyrstu þrír mánuðir ársins hafa aðeins þrisvar verið hlýrri í Stykkishólmi heldur en nú, það var 1964, 1929 og 1847. Þessir mánuðir voru jafnhlýir og nú árið 2003. Byrjað var að mæla í Stykkishólmi 1845.

Úrkoma hefur aðeins þrisvar mælst meiri heldur en nú í Reykjavík fyrstu þrjá mánuði ársins, það var 1921 og 1953. Úrkomudagar hafa aldrei verið fleiri sömu mánuði heldur en nú.


Höfn í Hornafirði
Samsett mynd úr þremur, sem nýráðinn veðurathugunarmaður á Höfn í Hornafirði tók af vindsköfnum skýjum. Skeytastöðin er í litlu svörtu húsi fyrir miðri mynd. Gengið er upp á lágan höfða (Leiðarhöfða) fyrir utan byggðina til veðurathugana og þar er myndin tekin hinn 27. mars 2012 kl. 18:00. Ljósmynd: Steve Johnson. 

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica