Fréttir
Jarðskjálftar á Íslandi í apríl 2012
Jarðskjálftar á Íslandi í apríl 2012

Jarðskjálftar í apríl 2012

16.5.2012

Um 1300 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofunnar í apríl. Mesta virknin var við Húsmúla á Hellisheiði og á Norðurlandi, 500 á hvoru svæði. Smáhlaup hófst í Múlakvísl í apríllok.

Hátt í 500 skjálftar mældust á Hengilssvæðinu, flestir við Húsmúla á Hellisheiði, og er það mun meiri virkni en í síðasta mánuði, þegar um 60 skjálftar mældust. Mesta virknin var í þriðju viku mánaðarins, nánar tiltekið helgina 21. - 22. apríl, og var orsakavaldurinn niðurrennsli  affallsvatns í borholur Hellisheiðarvirkjunar. Laugardagskvöldið 21. apríl varð skjálfti á svæðinu sem var rúmlega þrjú stig og barst  tilkynning frá Selfossi um að hann hefði fundist þar. Tæpir tveir tugir skjálfta mældust í Landssveit á Rangárvöllum, en á þessu svæði varð smáhrina í mars. Smáskjálftavirkni var að venju á sprungunum á Suðurlandsundirlendi.

Við Kleifarvatn og í nágrenni þess mældust tæplega 60 skjálftar, sá stærsti 2,5 stig undir Núpshlíðarhálsi. Heldur færri skjálftar mældust í þessum mánuði á Reykjaneshrygg en í þeim fyrri, rúmlega 20.

Í Mýrdalsjökli mældust 135 skjálftar í mánuðinum eða um tíundi hluti af skjálftavirkni mánaðarins. Nokkuð staðbundin og stöðug virkni var í Goðalandi og við Hafursárjökul allan mánuðinn. Í öskjunni er virknin nokkuð dreifð en í 17. viku milli 27. og 29. varð hrina í norðausturhluta hennar, nokkuð sunnan við Austmannsbungu og virðist hún tengjast hlaupi, sem hófst í Múlakvísl þann 28. Einnig varð vart hátíðniatburða í 17. viku, sem sást mest á Goðalandi, en þann 27. kom fram hátíðniórói sem sást á nokkrum mælum umhverfis jökulinn. Á Torfajökulssvæðinu mældust 16 skjálftar. Þetta voru stakir atburðir og dreifðir um svæðið, en þó var mesta virknin vestast á svæðinu. Lítil virkni var í Lang- og Hofsjökli. Samtals voru sex skjálftar á svæðinu umhverfis jöklana.

Á hálendinu mældust rúmlega 200 skjálftar. Athyglisverð hrina varð norðaustan við Tungnafellsjökul, þar mældust 32 skjálftar dagana 5. til 8. apríl, sá stærsti varð laust upp úr klukkan þrjú aðfaranótt 7. apríl, 2,9 að stærð. Skjálftavirkni í Vatnajökli var með minna móti en tæpur tugur skjálfta mældist undir Bárðarbungu og rúmur tugur á Lokahrygg, austan við Hamarinn. Við Kverkfjöll mældust 17 skjálftar og 40 við Kistufell. Við Herðubreið og Herðubreiðartögl mældust 56 skjálftar, 12 norðan Upptyppinga og tugur í austanverðum Dyngjufjöllum. Tveir skjálftar mældust fyrir norðaustan Blöndulón, en við suðurenda þess var snörp hrina haustið 2010.

Á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu var fremur rólegt fram eftir mánuðinum en 22. apríl byrjaði skjálftavirkni um það bil sjö kílómetrum norðvestan Húsavíkur og stóð hún fram undir mánaðamót. Að kvöldi síðasta dags mánaðarins hófst hrina um 18 kílómetra norðvestur af Húsavík, flestir á um 10 kílómetra dýpi. Stærstu skjálftarnir voru rúmelga tvö stig. Lítil virkni var við Grímsey. Þann 11. apríl varð stakur skjálfti um það bil 11 kílómetrum norðvestan Skagastrandar. Hann var tæp tvö stig að stærð og á um átta kílómetra dýpi. Skjálftar eru sjaldgæfir á þessum slóðum. Tveir jarðskjálftar mældust sömuleiðis á óvenjulegum stað, norður af Blöndulóni, en kröftug jarðskjálftahrina varð undir sunnanverðu Blöndulóni haustið 2010. Nokkrir smáskjálftar mældust á svæðunum við Kröflu og Þeistareyki.Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica