Fréttir
Jarðskjálftar á Íslandi í ágúst 2012
Jarðskjálftar á Íslandi í ágúst 2012

Jarðskjálftar á Íslandi í ágúst 2012

12.9.2012

Tæplega 1000 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í ágúst, talsvert færri en í júlí. Stærsti skjálfti mánaðarins varð milli Bláfjallaskála og Vífilsfells þann 30. ágúst og var hann 4,6 stig. Undir mánaðamót ágúst-september varð smáhlaup úr vestari Skaftárkatli.

Þann 30. ágúst kl. 11:59 varð jarðskjálfti austast á Reykjanesskaganum, milli Bláfjallaskála og Vífilsfells, og var hann 4,6 stig. Upptök hans voru á þekktri jarðskjálftasprungu á tæplega sex kílómetra dýpi og fannst hann vel á höfuðborgarsvæðinu, víðar á Suðvesturlandi og allt austur á Hvolsvöll. Yfir 200 eftirskjálftar fylgdu í kjölfar hans fram yfir mánaðamót, stærsti 2,7.

Tæplega 110 skjálftar mældust vestar á Reykjanesskaga, allir staðsettir á þekktum jarðskjálfta- og jarðhitasvæðum í nágrenni Krýsuvíkur og Svartsengis. Stærsti skjálftinn mældist sunnan Kleifarvatns 28. ágúst kl. 17:58 og var 2,5 að stærð. Um 10 jarðskjálftar áttu upptök á Reykjaneshrygg, allir minni en 2,5 að stærð.

Um 60 smáskjálftar voru staðsettir á Hengilssvæðinu, þar af rúmlega 25 við Húsmúla, allir voru minni en 2,0 að stærð. Á Suðurlandi mældust tæplega 90 skjálftar, sem áttu upptök á þekktum sprungum milli Þrengsla og Selsundsmisgengis. Þar af voru um 50 skjálftar staðsettir í Ölfusi. Stærsti skjálfti var 1,9 að stærð og átti upptök í vestanverðu Hestfjalli.

Rúmlega 100 skjálftar mældust í Vatnajökli í mánuðinum, heldur færri en í síðasta mánuði. Mesta virknin var í  vestanverðum jöklinum. Þann 25. ágúst og dagana þar á eftir mældust allmargir ísskjálftar á því svæði og í framhaldinu jókst rafleiðni á vatnshæðarmæli í Skaftá við Sveinstind og sterk brennisteinslykt fannst á svæðinu. Í framhaldinu varð smáhlaup úr vestari Skaftárkatli. Rúmur tugur jarðskjálfta mældist undir Kverkfjöllum og litlu fleiri undir Bárðarbungu. Á báðum þessum stöðum mældust skjálftar af stærðinni 2,3 og voru það stærstu skjálftarnir  í jöklinum þennan mánuðinn.

Tæplega 60 smáskjálftar mældust á svæðinu norður af Vatnajökli, flestir um þrjá kílómetra austur af norðurenda  Herðubreiðartagla og norðan og vestan við Hlaupfell.

Framan af mánuðinum var virkni í Mýrdalsjökli með minnsta móti. Tæplega 40 skjálftar, allir litlir, mældust við Mýrdalsjökul fyrstu tvær vikur mánaðarins og stór hluti virkninnar var í vesturhluta jökulsins við Goðaland. Kl. 15:48 föstudaginn 17. ágúst mældist skjálfti 3,8 að stærð í austanverðri Kötluöskjunni. Talsverð virkni var í öskjunni í kjölfarið og nokkrir skjálftar nálægt þremur að stærð mældust. Heildarfjöldi í Mýrdalsjökli í ágúst var um 170 skjálftar.

Á Torfajökulssvæðinu mældust 14 jarðskjálftar. Sá stærsti rétt um tvö stig.  

Um 165 jarðskjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi á svonefndu Tjörnesbrotabelti sem er rúmlega helmingi minna en mánuðinn á undan. Af þessum skjálftum voru rúmlega 90 á Grímseyjarbeltinu frá Grímsey inn til Öxarfjarðar. Flestir voru inn í Öxarfirði. Smá jarðskjálftahrina mældist fyrir mynni Eyjafjarðar í byrjun mánaðarins og einnig nokkrir þann 27. ágúst en þá mældist skjálfti af stærð 2,4 sem var jafnframt stærsti skjálftinn á Tjörnesbrotabeltinu þennan mánuðinn. Um 20 jarðskjálftar voru við Flatey á Skjálfanda, allir um og undir einum að stærð og við Húsavík voru tæplega 10 jarðskjálftar. Fáeinir skjálftar voru í Eyjafjarðarál og suðvestur af Kolbeinsey. Við Þeistareyki mældust tæplega 20 smáskjálftar, flestir undir lok mánaðarins og við Kröflu tæplega 14.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica