Fréttir
Ölfusá og Ingólfsfjall
Vatnavextir við Ölfusárbrú 26. febrúar 2013.

Tíðarfar í febrúar 2013

Stutt yfirlit

1.3.2013


Mánuðurinn var sérlega hlýr, annar til fjórði hlýjasti febrúar frá upphafi mælinga á 19. öld. Úrkomusamt var um landið sunnanvert og var mánuðurinn sums staðar sá úrkomusamasti frá upphafi mælinga. Samgöngur voru lengst af greiðar en vegir spilltust af þíðu. Talsverð flóð gerði í ám sunnanlands undir lok mánaðarins.

Hitafar

Óvenjuhlýtt var í febrúar. Í Reykjavík mældist meðalhitinn 3,9 stig, 3,5 stigum ofan meðallags og hefur aðeins tvisvar orðið hærri, það var 1932 og 1965. Á Akureyri var meðalhitinn 2,4 stig, 3,9 stigum ofan við meðallag. Á Akureyri hefur aðeins þrisvar orðið hlýrra í febrúar, 1932, 1965 og 1956. Á Höfn í Hornafirði var meðalhiti 3,8 stig og -1,7 stig á Hveravöllum. Á síðarnefnda staðnum hefur meðalhiti ekki verið jafnhár síðan mælingar hófust þar sumarið 1965.

 

Meðalhita á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 3,9 3,5 3 143
Stykkishólmur 3,1 3,8 3 168
Bolungarvík 2,6 3,6 4 116
Akureyri 2,4 3,9 4 132
Egilsstaðir 2,2 4,1 2 58
Dalatangi 3,5 2,8 3 74
Teigarhorn 3,5 3,2 5 141
Höfn í Hornafirði 3,8
Kirkjubæjarklaustur 3,6 3,3 3 88
Stórhöfði 4,8 2,8 2 136
Hveravellir  -1,7 4,3 1 47
Árnes 3,0 4,0 [2] [133]


Hæstur var meðalhiti mánaðarins í Surtsey, 5,7 stig, en lægstur í Sandbúðum, -3,3 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Svartárkoti, -1,0 stig. Frostlaust var í Surtsey allan mánuðinn. Þetta er í fyrsta skipti sem febrúar er alveg frostlaus á íslenskri veðurstöð. Það hefur gerst í marsmánuði (1929 og 1963). Surtsey er líklegasta stöðin til veiða á metum af þessu tagi en hún hefur aðeins hitt fyrir fjóra febrúarmánuði frá upphafi mælinga vorið 2009.

Hæsti hiti mánaðarins mældist á Seyðisfirði þann 25., 15,3 stig. Það er jafnframt hæsti hiti sem mælst hefur þennan dag almanaksmánaðarins. Daginn eftir náði hiti á mönnuðu stöðinni á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði 14,9 stigum og er það einnig landsdægurmet. Lægsti hiti mánaðarins mældist -21,3 stig. Það var á Brúarjökli þann 6. Lægsti hiti í byggð mældist á Brú á Jökuldal þann 2., -19,0 stig. Lægsti hiti á mannaðri veðurstöð mældist -14,6 stig á Torfum í Eyjafirði þann 1.

Úrkoma

Úrkoma í Reykjavík mældist 104,1 mm og er það 45% umfram meðallag. Enn meiri úrkoma var í febrúar í fyrra. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 77 mm, 11% umfram meðallag. Á Akureyri mældist hún 30,4 mm sem er um 30% undir meðallagi. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoma 185,5 mm. Að tiltölu var úrkoman langmest í Vestur-Skaftafellssýslu.

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 54,3 og er það í rétt rúmu meðallagi. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 43,2, tæpum 10 stundum umfram meðallag.

Snjólag

Snjólétt var á landinu. Aldrei var alhvítt í Stykkishólmi. Alhvítir dagar voru fimm í Reykjavík, um 8 dögum færri heldur en að meðaltali á árunum 1971 til 2000. Á Akureyri voru alhvítu dagarnir 14 í mánuðinum og er það 7 dögum undir sama meðallagi.

Vindhraði og loftþrýstingur

Meðalvindhraði var um 1 m/s undir meðallagi síðustu 15 ára á mönnuðum og sjálfvirkum stöðvum. Illviðri voru fátíð.

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1005,9 hPa og er það 3,3 hPa yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæsti þrýstingur mánaðarins mældist 1036,2 hPa þann 28. á Egilsstaðaflugvelli. Lægsti þrýstingur mánaðarins mældist 955,5 hPa þann 3. á Stórhöfða.

Brúará

Vatnavextir í Brúará. Vörðufell fjær. Myndin er tekin rétt fyrir hádegið 26. febrúar 2013. Ljósmynd: Snorri Zóphóníasson.

Skjöl fyrir febrúarmánuð

Textaskjal: Meðalhiti á sjálfvirkum stöðvum í febrúar 2013.

Fyrstu tveir mánuðir ársins

Fyrstu tveir mánuðir ársins hafa verið fádæma hlýir, methlýir á mörgum veðurstöðvum. Í Reykjavík eru þeir næsthlýjastir frá upphafi samfelldra mælinga (1871), árið 1964 var lítillega hlýrra.

Í Stykkishólmi eru mánuðirnir tveir hlýjastir, mæliröðin þar nær aftur til 1846. Næsthlýjast var 1964.

Í Bolungarvík eru mánuðirnir næsthlýjastir (frá 1898), 1964 var lítillega hlýrra en nú.

Á Akureyri var lítillega hlýrra í janúar og febrúar 2006 og jafnhlýtt 1964 (frá 1882).

Á austur- og suðurhluta landsins er byrjun ársins nú sú hlýjasta sem þekkt er frá upphafi mælinga (í sviga á eftir stöðvanafni). Reiknað hefur verið fyrir Egilsstaðaflugvöll (1955), Dalatanga (1938), Teigarhorn (1873), Kirkjubæjarklaustur (1926), Stórhöfða (1878), Árnes (Hæll) (1881) og Hveravellir (1966).

Eins og sjá má er mjög sjaldgæft að bæði janúar og febrúar séu afbrigðilega hlýir. Heldur algengara er að janúar og mars sama ár séu það, þá með nokkuð kaldari febrúar á milli.

Þessa vefgrein má lesa sem pdf-skjal (0,2 Mb).

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica