Fréttir
Jarðskjálftahrina austan Grímseyjar
Jarðskjálftahrina austan Grímseyjar.

Jarðskjálftahrinan við Grímsey heldur áfram

3.4.2013

Skjálftavirknin í Skjálfandadjúpi hefur færst bæði til norðvesturs og suðausturs af meginskjálftanum sem var af stærð 5,5 um eittleytið aðfaranótt 2. apríl.

Í gærmorgun rétt fyrir kl. 9 varð skjálfti af stærð 4,7 með upptök á siggengissprungu um 7-8 km norðvestur af meginskjálftanum.

Í gærkvöldi fór að myndast ný skjálftaþyrping um 15-20 km suðaustur af stærsta skjálftanum. Tveir allsnarpir skjálftar urðu þar um ellefuleytið í gærkvöldi. Sá fyrri var af stærð 4,7 kl. 22:52 og sá síðari var 4,6 kl. 23:05. Báðir skjálftarnir fundust allvíða á Norðurlandi.

Í nótt hafa margir skjálftar mælst milli 3 og 4 að stærð. Til dæmis varð skjálfti af stærð 4 með upptök nokkru suðvestan við skjálftana sem urðu um ellefuleytið og eru þeir allir sniðgengisskjálftar á norðaustlægum sprungum. Í kjölfarið hefur skjálftavirknin verið að hlaupa á milli þyrpinganna í Skjálfandadjúpi, allt norðaustan við Grímsey og suðaustur undir Tjörnesgrunn.

Skjálftavirknin er ennþá mjög mikil og áfram má búast við skjálftum af svipaðri stærð á svæðinu.

Athugið að kvikar síður á vedur.is sýna óyfirfarin frumgögn. Yfirfarin vikugögn eru áreiðanlegri.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica