Jöklakort af Íslandi
Útgáfufrétt
Út er komið Jöklakort af Íslandi þar sem settar eru saman á eitt kort útlínur allra jökla á landinu. Höfundar eru Oddur Sigurðsson, Richard S. Williams Jr. og Skúli Víkingsson. Útgefandi er Veðurstofa Íslands (2013).
Jöklar setja mikinn svip á Ísland og hafa geysileg áhrif á vatnsbúskapinn. Í því hlýnandi loftslagi sem nú ríkir eru að verða miklar breytingar á jöklunum. Breytingarnar verður að skrá og þeim verður að koma á framfæri. Þess vegna stendur Veðurstofan að útgáfu kortsins, sem sýnir alla jökla landsins og breytingar á þeim undanfarna öld.
Á Jöklakorti af Íslandi eru settar saman útlínur allra jökla á landinu þannig að auðvelt sé að átta sig á útbreiðslu þeirra og umfangi breytinganna.
Kortið sýnir mestu útbreiðslu jöklanna við hámark litlu ísaldar um 1890 og einnig hvernig þeir voru um aldamótin 2000. Á kortinu eru framhlaupsjöklar greindir frá hinum og merktar þær eldfjallaöskjur, sem vitað er um undir jökli. Tilgreind eru örnefni á öllum þeim jöklum sem nafn hafa hlotið.
Bæklingur og örnefnaskrá fylgja kortinu. Þar er meðal annars greint frá stærð helstu jökla og stærðarbreytingum á 20. öld. Allt lesmálið er á tveimur tungumálum, íslensku og ensku.
Jöklakort af Íslandi nýtist ferðafólki jafnt og fræðimönnum. Kortið verður til sölu í almennum bókaverslunum og á helstu ferðamannastöðum. Hægt er að panta kortið beint frá Iðnú.