Fréttir
Jarðskjálftar í júlí 2013

Jarðskjálftar í júlí 2013

9.8.2013

Júlímánuður var fremur tíðindalítill. Rúmlega 900 jarðskjálftar voru staðsettir, flestir í Tjörnesbrotabeltinu og við Mýrdalsjökul.

Suðurland

Á Hengilssvæðinu mældust um 60 jarðskjálftar, flestir eða 25 við Hellisheiðarvirkjun. Smá hrina varð við Húsmúla frá kl. 22 þann 11. júlí til kl. 01 12. júlí. Sautján jarðskjálftar mældust þá, sá stærsti 1,8. Um 30 jarðskjálftar mældust í Ölfusi, flestir við Hjallahverfi. Stærsti jarðskjálftinn á svæðinu 1,9 stig varð þar. Nokkrir smáskjálftar mældust á Krosssprungu, stærstu um eitt stig.
Á Suðurlandsundirlendinu mældust um 50 jarðskjálftar, stærstu um 1,5 stig. Flestir áttu upptök á sprungunum frá 2000, þ.e. Hestvatns- og Holtasprungum.

Reykjaneshryggur og -skagi

Á Reykjaneshrygg mældust 15 jarðskjálftar, flestir í nágrenni Geirfugladrangs. Stærstu skjálftarnir voru um tvö stig. Nokkrir smáskjálftar mældust við Reykjanestá. Við Grindavík mældust nokkrir jarðskjálftar, stærsti 1,7 stig, og sjö smáskjálftar (innan við eitt stig) urðu við Fagradalsfjall. Um 60 jarðskjálftar mældust á Krýsuvíkursvæðinu, stærsti 1,6 stig. Smáskjálftar, innan við 0 stig, mældust við Bláfjöll og Brennisteinsfjöll.

Norðurland

Úti fyrir Norðurlandi í Tjörnesbrotabeltinu mældust um 180 jarðskjálftar. Stærsti jarðskjálftinn mældist 2,4 stig með upptök um 10 kílómetra norðaustur af Grímsey. Mest var skjálftavirknin á Grímseyjarbeltinu en þar mældust um 130 jarðskjálftar, þar af um 50 í Öxarfirði. Fyrir mynni Eyjafjarðar urðu um 30 jarðskjálftar og við Flatey á Skjálfanda um 20.
Norður á Kolbeinseyjarhrygg mældust 22 jarðskjálftar í júlí. Flestir urðu í skjálftahrinu austur af Scoresbysundi 15. júlí. Sextán jarðskjálftar mældust þá, stærsti 3,7.
Á Kröflusvæðinu mældust 12 jarðskjálftar, stærsti 1,1 stig. Níu urðu við Kröflu og þrír við Reykjahlíð. Á Þeistareykjasvæðinu mældust um 30 smáskjálftar (um og innan við eitt stig), flestir 12. júlí.

Hálendi

Undir Vatnajökli mældust aðeins um 40 jarðskjálftar. Um tíu áttu upptök norðaustan í Bárðarbungu, allir innan við tvö stig. Við Hamarinn og undir Lokahrygg mældust 12 skjálftar, stærstu um 1,5 stig. Tveir skjálftar urðu við Esjufjöll norðan Öræfajökuls, 1,1 stig. Fimm skjálftar mældust við Grænalón dagana 9. - 14. júlí. Þeir voru allir innan við eitt stig.
Yfir 100 jarðskjálftar mældust á svæðinu norðan Vatnajökuls. Mest var virknin suðaustan Herðubreiðarlindar. Þar mældust um 20 skjálftar, þar af stærsti jarðskjálftinn á svæðinu 2,0 stig. Nokkur virkni var við Öskju (stærsti 1,2 stig) og kringum Herðubreið og Herðubreiðartögl (um og innan við eitt stig). Níu skjálftar mældust norðan Upptyppinga, stærsti 1,2 stig.
Í vestra gosbeltinu mældust 15 jarðskjálftar. Þrír urðu við Hagafell sunnan í Langjökli, einn við Hafrafell vestan í jöklinum og einn norðan í Þórisjökli. Stærsti skjálftinn var um tvö stig. Við Sandfell sunnan Langjökuls mældust sex jarðskjálftar dagana 27. og 28. júlí. Stærstu voru rúmlega eitt stig. Einn smáskjálfti mældist sunnnan undir Skjaldbreið. Undir Kvíslajökli í Hofsjökli mældist einn skjálfti, 2,3 stig. Annar varð suðaustan Hofsjökuls við Þjórsárlón, 1,3 að stærð.

Mýrdalsjökull

Um 190 jarðskjálftar mældust í júlí undir og við Mýrdalsjökul. Um 80 áttu upptök innan Kötluöskju (stærsti 2,2), um 60 undir vestanverðum jöklinum (stærsti 1,8) og um 40 við Hafursárjökul sunnan öskjunnar, allir innan við eitt stig. Á Torfajökulssvæðinu mældust um 20 jarðskjálftar, stærsti 2,5 stig.

pdf-skjal 0,4 Mb

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica