Veðurstofan og Dagur íslenskrar náttúru
Framhaldsskólar heimsóttir víða um landið
Veðurstofan hefur boðið framhaldsskólum um allt land að fá sérfræðing í heimsókn á Degi íslenskrar náttúru, 16. september 2013. Viðbrögð framhalds-skólanna við þessu boði voru mjög góð og í vikunni 16.-20. september verða átján skólar heimsóttir, allt frá Laugarvatni til Húsavíkur. Á annan tug starfsmanna þarf til að sinna verkinu.
Ýmist verður Veðurstofan kynnt með glærum og stuttu erindi eða tæki sýnd á staðnum. Sá sérfræðingur sem kemur í skólann segir frá starfi sínu og svarar spurningum. Hvaða sérfræðing hver skóli fær verður óvænt, því þótt Veðurstofan sé vel kynnt í íslensku samfélagi er eflaust margt sem kemur á óvart og vekur áhuga hjá nemendum.
Viðfangsefni Veðurstofunnar eru eðlisþættir jarðar: loft, vatn, snjór og jöklar, jörð og haf. Verkefnin eru fjölbreytt og tengjast veðri, hafís, mengun, ofanflóðum, jarðskjálftum, eldvirkni, hniki á yfirborði jarðar, vatnafari, jöklabúskap, hlaupum og flóðum.
Veðurstofan rekur umfangsmikið mælakerfi og tölvuver. Hún mælir og rannsakar; miðlar upplýsingum og hefur eftirlit með ástandi náttúrunnar. Hún gerir veðurspár fyrir land, haf og flug og sendir út viðvaranir vegna náttúruvár.
Hjá Veðurstofunni starfa, auk athugana- og eftirlitsmanna út um allt land, 140 konur og karlar af ýmsu þjóðerni á ólíkum fagsviðum. Veðurstofan er meðal annars í samstarfi við Almannavarnir vegna náttúruvár, hættuástands og áhættumats, og í samstarfi við innlendar og alþjóðlegar háskóla- og rannsóknastofnanir og gagnabanka.
Á vef Veðurstofunnar má lesa um stofnunina; tilgang, hlutverk, viðfangsefni og framtíðarsýn.