Fréttir
Jarðskjálftayfirlit í október 2013
Jarðskjálftayfirlit í október 2013

Jarðskjálftar í október 2013

15.11.2013

Um 2.640 jarðskjálftar voru staðsettir í október. Mikill fjöldi skjálfta mældist í skjálftaröðum í Tjörnesbrotabeltinu og við Reykjanestá. Stærsti skjálfti mánaðarins, 4,8 stig, varð 13. október með upptök austan við Reykjanestá.

Reykjanesskagi

Jarðskjálfti að stærð 4,8 varð 13. október kl. 07:34 með upptök einum til tveimur kílómetrum austan við Reykjanestá. Hann fannst mjög vel víða um suðvestanvert landið, og allt frá Vík í austri og norður á Strandir. Allmikil forskjálftavirkni varð um nóttina og eftirskjálftavirkni fram á kvöld. Um 450 skjálftar voru staðsettir þennan dag. Skjálftar mældust á svæðinu næstu daga. Hreyfing var síðan á svæði vestan við Reykjanestá 15. október, þar sem mældust um 50 skjálftar. Alls voru um 550 skjálftar staðsettir við Reykjanestá í október. Um 10 skjálftar voru yfir þrjá að stærð. Sjá kort hér að neðan.


Fyrstu tvo daga mánaðarins mældust 55 skjálftar í hrinu við Fagradalsfjall. Stærsti skjálftinn var um tvö stig. Um 30 smáskjálftar áttu upptök á Krýsuvíkursvæðinu í október og svipaður fjöldi við Grindavík og Svartsengi. Austast á Reykjanesskaganum, á Bláfjallasvæðinu, varð smáhrina 31. október sem stóð í um sex klukkustundir. Tuttugu skjálftar mældust, flestir innan við eitt stig, en sá stærsti tæp tvö stig. Talsverð skjálftavirkni var á svipuðum slóðum um mánaðamót ágúst-september 2012, en þá mældist skjálfti 4,6 að stærð. Skjálftarnir núna voru lítið eitt austan við svæðið sem var virkast í fyrra.

Tuttugu jarðskjálftar mældust úti á Reykjaneshrygg, við Eldey og Geirfugladrang. Stærstu voru rúmlega tvö stig.

Suðurland

Viðvarandi smáskjálftavirkni var á niðurdælingasvæði Orkuveitunnar við Húsmúla á Hellisheiði. Um 180 skjálftar voru staðsettir, flestir 4. október eða yfir 80 talsins. Stærsti var 2,2 stig.

Smáskjálftar áttu upptök í Flóanum, við Hestfjall og í Landsveit. Tveir skjálftar urðu við Vatnafjöll þann 8. október. Sá stærri var tæplega tvö stig. Að kvöldi 23. október mældust tveir skjálftar vestan undir Heklu, 0,7 og 1,1 stig.

Norðurland

Mikil skjálftavirkni var norðan við land í Tjörnesbrotabeltinu. Fyrstu viku mánaðarins hélt hrina áfram sem hófst úti fyrir mynni Eyjafjarðar 25. september. Hátt í 800 skjálftar voru staðsettir til viðbótar við um 700 síðustu daga september. Á annan tug skjálfta var yfir þrjú stig að stærð, stærsti 3,8 stig þann 2. október kl. 19:40. Fjöldi tilkynninga barst vegna skjálftanna, en þeir sem náðu stærðinni þremur fundust greinilega á Ólafsfirði og Siglufirði. Afstæðar staðsetningar, sem er úrvinnsluaðferð sem gefur meiri nákvæmni, gefa til kynna að upptakasvæði skjálftanna var þriggja kílómetra löng sprunga með stefnu aust-suðaustur, sem liggur á 9 til 10,5 kílómetra dýpi. Þessi skjálftavirkni er á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu og liggur suðaustan við svæðið, sem var virkast í fyrrahaust. Sjá kort hér að neðan.


Mikill fjöldi skjálfta mældist norður af Tjörnesi, um 250 talsins. Stærsti skjálftinn var 2,3 stig. Mestur fjöldi skjálfta var 19. október, en þá mældust þar 75 skjálftar. Yfir 50 skjálftar voru staðsettir í Öxarfirði og yfir 40 í Grímseyjarbeltinu. Nokkur smáskjálftavirkni varð suðaustur af Flatey á Skjálfanda, þar sem yfir 50 skjálftar voru staðsettir, flestir dagana 11. og 12. október. Og sex skjálftar mældust vestur af Húsavík, allir litlir.

Norður á Kolbeinseyjarhrygg mældust 13 skjálftar, stærstu um þrjú stig. Smáskjálftar mældust af og til á Kröflu- og Þeistareykjasvæðum. Stærstu voru í kringum eitt stig.

Hálendi

Tiltölulega rólegt var undir Vatnajökli í október. Um 60 skjálftar mældust. Mesta virknin var undir Lokahrygg, austan Hamarsins. Þar mældust yfir 20 skjálftar, sá stærsti þrjú stig þann 28. október.
Önnur virkni dreifðist um jökulinn við Bárðarbungu, Grímsfjall, Kistufell, Kverkfjöll og Hvannadalshnjúk.

Sex skjálftar mældust á rúmri klukkustund með upptök við Gjáfjöll á Veiðivatnasvæðinu þann 10. október. Sá stærsti var 1,2 stig.

Um 90 skjálftar mældust norðan Vatnajökuls við Dyngjufjöll. Flestir áttu upptök við Öskju eða 55 talsins. Stærsti var 2,2 stig. Aðrir skjálftar á svæðinu voru innan við tvö stig að stærð. Nokkur virkni var við Herðubreiðartögl og fáeinir skjálftar áttu upptök við Herðubreið, norður af Upptyppingum og við Lokatind.

Lítil skjálftavirkni var í vestara gosbeltinu. Um 15 skjálftar mældust, langflestir með upptök austan undir Skjaldbreið. Sá stærsti var 1,4 stig.

Mýrdalsjökull

Hátt í tvö hundruð skjálftar voru staðsettir undir Mýrdalsjökli. Um 80 áttu upptök undir vestanverðum jöklinum og álíka fjöldi innan Kötluöskju. Um 30 urðu við Hafursárjökul sunnan öskjunnar. Stærstu skjálftarnir voru um tvö stig.

Um 30 grunnir smáskjálftar áttu upptök undir Eyjafjallajökli. Þeir voru um og innan við einn að stærð. Á Torfajökulssvæðinu mældust um 30 skjálftar, stærstu um tvö stig. Flestir urðu 10. og 11. október með upptök við Hrafntinnusker.

pdf-skjal (0,5 Mb)


Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica