Fréttir
Askja, 23. júlí 2014.

Mælingar við Öskju

25.7.2014

í gær, 24. júlí, fóru tveir ofanflóðasérfræðingar og einn eldfjallafræðingur Veðurstofunnar ásamt vísindamönnum Háskóla Íslands og skoðuðu svæðið við Öskju eftir eitt stærsta framhlaup síðari tíma er féll í Öskjuvatn 21. júlí síðastliðinn.

Í dag (25. júlí) eru gasmælingasérfræðingar Veðurstofunnar við Öskuvatn við gasmælingar og að meta breytingar í jarðhitavirkni.

Á fundi vísindamannaráðs Almannavarna í morgun fóru sérfræðingar frá Veðurstofunni og Háskóla Íslands yfir atburðinn. Brotsárið er yfir 700 metrar og heildarrúmmál skriðunnar er metið um 50.000.000 rúmmetrar. Hrunið mældist á jarðskjálftamælum og ennfremur mældist innhljóð frá atburðinum í Gunnarsholti.

Á næstu dögum munu teymi ofanflóðavaktar og jarðskjálfta- og eldfjallaeftirlits Veðurstofunnar vinna frekar úr gögnunum. Fjallað er um frumtúlkun jarðskjálftagagnanna í sérstakri grein.

Eins og segir á vef RÚV, þá ákvað vísindaráð Almannavarna að gönguleiðir niður fyrir gíginn Víti, að strönd Öskjuvatns, verði áfram lokaðar, í viku að minnsta kosti, þar sem enn sé hætta á smærri skriðum sem hlaupið gætu fram í vatnið og valdið flóðbylgjum. Stór svæði á strönd vatnsins eru óstöðug eftir flóðið á mánudagskvöld og því hættuleg ferðafólki.

Þessi yfirlitsmynd af Öskjusvæðinu var tekin 10. júlí 2008, ljósmyndari Oddur Sigurðsson:

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica