Aukin virkni við Bárðarbungu
20:43 Jarðskjálftavirkni við Bárðarbungu hefur aukist í dag. Skjálftahrina hefur staðið yfir síðan kl. 3:00 í nótt með stöðugri skjálftavirkni. Dýpi skjálftanna er í efri hluta skorpunnar og stærðir þeirra eru í kringum 1.5; nokkrir skjálftar eru stærri en M3.
Langtíma skjálfta- og GPS mælingar gefa til kynna að aukin virkni sé í norðvestanverðum Vatnajökli, undir Bárðarbungu.
Seinustu sjö ár hefur virkni í Bárðarbungu aukist jafnt og þétt, sem og í sprungusveimnum norður af Bárðarbungu. Í kjölfar gossins í Grímsvötnum í maí 2011 datt virknin tímabundið niður en fór fljótlega að aukast aftur og hefur nú náð svipaðri virkni og rétt fyrir Grímsvatnagosið. Fyrr á þessu ári, um miðjan maí, varð lítil hrina með yfir 200 skjálftum og í hrinunni nú hafa þegar orðið yfir 300 skjálftar.
Frá fyrrihluta júní hafa færslur á GPS mælistöðvum við Vatnajökul sýnt hraðaaukningu sem bendir til virkni í Bárðarbungu.
Saman benda því bæði þessi kerfi til þess að kvikuhreyfingar eigi sér stað í Bárðarbungu. Vegna þessa ótrygga ástands hefur Veðurstofan ákveðið að breyta lit á Bárðarbungueldstöðinni á litakorti sem ætlað er til leiðbeiningar fyrir flugumferð úr grænum (eðlilegt ástand) yfir í gult sem táknar óvissustig. Við gos undir jökli er líklegt að öskustrókurinn myndi hafa umtalsverð áhrif á flugumferð.
Kl. 23:00 16. ágúst eru engin merki um að kvika hafi náð upp á yfirborð.