Fréttir
Horft til suðurs yfir Bárðarbungu.

Flug yfir Bárðarbungu og farveg Jökulsár á Fjöllum

21.8.2014

Í gær fóru tveir starfsmenn Veðurstofunnar, þeir Þorsteinn Þorsteinsson og Halldór Björnsson, með flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, í flug yfir Vatnajökul og farveg Jökulsár á Fjöllum.

Tilefni flugsins var þríþætt. Í fyrsta lagi að æfa viðbrögð vegna hugsanlegra eldsumbrota í norðanverðum Vatnajökli. Í öðru lagi að nota háþróaða ratsjá (SAR) flugvélarinnar til þess að taka myndir af yfirborði jökulsins og farvegi Jökulsár vegna þess að ef til eldsumbrota kemur er líklegt að flóð verði í farveginum. Í þriðja lagi átti að fljúga yfir þau svæði norðan jökulsins þar sem gefin hefur verið út fyrirskipun um rýmingu og leita eftirlegukinda - í þessu tilviki ferðamanna sem ekki hefði náðst til. Vísindamenn frá Veðurstofunni og Jarðvísindastofnun HÍ auk starfsmanns Landsbjargar tóku þátt í fluginu sem tók um 7 klukkustundir.

Skýjað var yfir Norðurlandi og norðurhluta Vatnajökuls og því var útsýni til Bárðarbungu takmarkað en þó rofaði stöku sinnum til og sáust þá farvegur og norðurhluti jökulsins betur. Skýjahula kom þó ekki að sök fyrir mælingar með ratsjá, því hún sér gegnum ský. Ratsjármælingarnar gengu því vel og tókst að kanna mestan hluta þess svæðis sem kann að flæða yfir ef til eldsumbrota kemur, auk þess sem ratsjármyndir voru teknar af Bárðarbungu og norðvestanverðum Vatnajökli (sjá vef Landhelgisgæslunnar). Komi til eldsumbrota verða þessar myndir mikilvæg gögn til að leggja mat á þær breytingar sem kunna að verða á jöklinum og á flóðasvæðinu.

Skýjafarið gerði hinsvegar alla eftirgrennslan erfiðari og ekki sást til neinna ferðamanna í lágflugi yfir svæðið.

Mynd 1
""
Horft til suðurs yfir Bárðarbungu. Til vinstri á myndinni má greina Grímsvötn, en í forgrunni hægra megin er Köldukvíslarjökull. Ljósmynd: Halldór Björnsson.
Mynd 2
""
Horft til norðurs yfir Skaftárkatla. Til vinstri á myndinni sést vestari ketillinn. Eystri ketillinn er framarlega hægra megin en sést ekki greinilega. Eftir að hann tæmist má gera ráð fyrir að hann verði mun greinilegri. Ljósmynd: Þorsteinn Þorsteinsson.
Mynd 3
""
Ós Jökulsár á Fjöllum í Öxarfirði. Hægra megin á myndinni má einnig sjá stöðuvatnið Skjálftavatn, sem myndaðist í kjölfar Kröfluelda. Einungis lítið haft skilur ána frá vatninu. Ljósmynd: Þorsteinn Þorsteinsson.
Mynd 4
""
Brúin yfir Jökulsá á Fjöllum þar sem þjóðvegur nr. 1 liggur ekki fjarri Grímsstöðum. Skammt fyrir sunnan er stórt svæði lokað allri umferð en það er öryggisráðstöfun vegna mögulegs flóðs. Ljósmynd: Þorsteinn Þorsteinsson.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica