Fréttir
glampar á vatnspoll

Viðvörun vegna vatnavaxta, hláku og veðurofsa

12.3.2015

Vatnaviðvörun

Spáð er mikilli rigningu sunnan- og suðaustanlands með hlýindum síðdegis á morgun, föstudaginn 13. mars, fram á sunnudaginn 15. mars, auk hlýinda um allt land.

Búast má við mestri úrkomu í kringum fjöll og jökla sunnan og suðaustanlands og þar gæti sólarhringsafrennsli (samanlögð úrkoma og snjóbráðnun) farið vel yfir 250 mm.

Varað er við vexti í ám í kring um Eyjafjalla-og Mýrdalsjökul og við sunnan-og suðaustanverðan Vatnajökul.
Búast má við miklum leysingum um allt land, þótt úrkoma verði mest sunnan- og suðaustanlands. Þar sem mikill nýlega fallinn snjór er víða um land má búast við vatnsflóðum, krapaflóðum og aurflóðum.

Þannig aðstæður geta skapast á nokkurra ára fresti. Hafa skal þetta í huga áður en ferðalög eru skipulögð. Til að fyrirbyggja vatnstjón er ráðlagt að huga vel að frárennslislögnum og niðurföllum og hreinsa ís o.þ.h. ef við á.

Veðurviðvörun

Veðurstofan hefur einnig sent frá sér fréttatilkynningu vegna vatnsveðurofsa sem mun ganga yfir landið næstu tvo sólarhringa. Frekari upplýsingar verða gefnar út á morgun föstudaginn, 13. mars.

Afrennslisspá
""
Uppsafnað afrennsli (mm), fljótandi úrkoma plús leysing (snjór/ís); spá gerð fimmtudaginn 12.3.2015. Gildir þar til á hádegi, laugardaginn 14. mars, stækkanleg. Athugið, að aðstæður versna til muna EFTIR það. Önnur mynd verður send út þegar nær dregur.

Fyrir hönd vatnavárhóps: Svava Björk Þorláksdóttir, Gunnar Sigurðsson, Matthew J. Roberts.

Vakthafandi veðurfræðingar: Birta Líf Kristinsdóttir, Elín Björk Jónasdóttir, Björn Sævar Einarsson.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica