Fréttir
Tvö ólík vatnsföll.

Af Degi vatnsins 2015

Helstu vatnaverkefni Veðurstofunnar

24.3.2015

Degi vatnsins er fagnað þann 22. mars ár hvert og þema ársins 2015 er vatn og sjálfbær þróun. Af þessu tilefni er hér yfirlit yfir þau verkefni Veðurstofunnar sem tengjast vatni.

Helstu vatnaverkefni Veðurstofunnar

Vatn er í stöðugri hringrás sem knúin er áfram yl sólar. Á þeirri leið tekur það á sig margar myndir; fast, fljótandi eða í gufuformi. Þekking á eðli og breytileika auðlindarinnar er nauðsynleg svo unnt sé að nýta hana á eins öruggan og sjálfbæran hátt og unnt er.

Starfsemi Veðurstofu Íslands tengist verulega hringrás vatnsins. Þar er spáð fyrir um úrkomu, úrkoma mæld, fylgst með þróun jökla, metin hætta og viðhafður viðbúnaður vegna snjóflóða, rekið viðvörunarkerfi vegna flóða og forvarnir vegna aurskriða. Fylgst er með grunnvatnsstöðu í borholum og vatnshæð stöðuvatna, lóna og settjarna. Unnið er jafnt og þétt að því að meta afrennsli vatnasviða sem nýst getur í hin ýmsu verkefni, svo sem við mat á hugsanlegum flóðum sem og til að meta áhrif á hugsanlega vatnstöku eða virkjanakosti. Efnisflutningur jökuláa er rannsakaður þar sem hann getur haft áhrif á mannvirki og landnýtingu.

Rekið er  sjálfvirkt mælakerfi vatnshæðarmæla og veðurstöðva um allt land til þess að afla upplýsinga sem leggja grunn að þessari vinnu.

Nýleg og fyrirliggjandi vatnaverkefni

Eldsumbrotin í vetur hafa ýtt undir kröfur um að metin sé hætta á skaða vegna vatnsflóða. Ljóst er að hættumat er nauðsynleg forsenda þess að allir viðbragðsaðilar geti unnið skipulega og markvisst og brugðist við náttúruvá. Síðustu mánuði hefur starfsfólk Veðurstofunnar metið líklega útbreiðslu flóða, sem komið gætu í Jökulsá á Fjöllum og Skjálfandafljót ef eldgos hæfist undir jökulskildi Bárðarbungu og nágrennis. Sérstök áhersla var lögð á að meta hættuna í byggð í grennd við vatnsföllin og áætlanir um rýmingu voru gerðar í samvinnu við almannavarnadeild RLS og yfirvöld á svæðinu.

Í lok síðasta árs samþykkti Alþingi breytingar á lögum er varða ofanflóðasjóð. Með þessum breytingum er nú heimilt að ráðstafa fé úr ofanflóðasjóði til að taka þátt í greiðslu kostnaðar við hættumat vegna vatnsflóða og sjávarflóða. Veðurstofan vinnur um þessar mundir að hættumati vegna vatnavár og markmiðið er að fyrir liggi upplýsingar um flóð og flóðahættu vatns- og sjávarflóða sem nái til landsins alls.

Rammalöggjöf um vatn

Með vaxandi getu mannsins til að breyta umhverfi sínu hafa komið upp margs konar hagsmunaárekstrar enda geta afleiðingar margskonar nýtingar komið misjafnlega við þegna samfélagsins. Við þessu hefur meðal annars verið brugðist með umfangsmikilli lagasetningu þar sem áhersla er lögð á að áhrif mannlegra athafna séu metin.

Árið 2011 var rammatilskipun Evrópusambandsins um verndun vatns (vatnatilskipun 2000/60/EB) innleidd með nýjum lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Innleiðing vatnatilskipunarinnar er hluti af skuldbindingu Íslands samkvæmt EES samningnum. Samkvæmt lögunum nær vatn yfir straumvötn, stöðuvötn, árósa, strandsjó, grunnvatn og jökla.

Markmið stjórnar vatnamála er að

  • vernda vatn og vistkerfis þess, hindra frekari rýrnun vatnsgæða og bæta ástand vatnavistkerfa til þess að vatni njóti heildstæðrar verndar
  • stuðla jafnframt að sjálfbærri nýtingu vatns og langtímavernd vatnaauðlindarinnar.

Samvæmt lögunum skal allt vatn vera í mjög góðu eða góðu vistfræðilegu og efnafræðilegu ástandi, þó með þeim fyrirvara að aðgerðir til þess rýri ekki hag íbúa og kostnaður fari ekki úr hófi fram. Til að ná fram markmiðunum skal vinna vatnaáætlun, aðgerðaráætlun og vöktunaráætlun.

Veðurstofa Íslands hefur átt viðamikinn hlut í að afla þeirrar þekkingar sem nauðsynlegt er að hafa til grundvallar við framkvæmd laganna. Hún hefur byggt upp öflugt gagnagrunnskerfi sem þar sem fyrirhugað er að þær upplýsingar um vatnshlot sem aflað hefur verið, eða verður aflað, verði settar inn.

Lítið vatnasvið
""
Samþætt umhverfisvöktun að Litla-Skarði í Borgarfirði skammt sunnan við Hreðavatn. Sjálfvirk veðurstöð er fyrir miðri mynd, Lambavatn í baksýn og Hafnarfjall í fjarska. Til hægri er lækur og stífla þar sem safnað er affallsvatni en myndin er tekin 23. maí 2001. Lítil vatnasvið eru ekki síður áhugaverð í stóra samhenginu og á Íslandi má finna allar tegundir vatnsfalla. Ljósmynd: Jóhanna M. Thorlacius.

Samþætt umhverfisvöktun (Integreret monitoring) er norrænt samstarf sem stýrt er frá Helsinki. Íslenska stöðin er samvinnuverkefni nokkurra stofnana, sem leitt er af Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Veðurstofa Íslands sá meðal annars um uppsetningu búnaðar til úrkomusöfnunar árið 1996 og uppsetningu sjálfvirkrar veðurstöðvar árið 2000 en sú stöð er í eigu Orkustofnunar.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica