Fréttir
Bylgjuský séð frá Skaftafelli 21. október.

Tíðarfar í október 2015

Stutt yfirlit

2.11.2015

Tíð var hagstæð um meginhluta landins þótt úrkomusamt í meira lagi þætti um landið suðvestan- og sunnanvert. Hlýtt var á landinu, sérstaklega þó norðaustan- og austanlands.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavik mældist 5,2 stig, 0,8 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 og 0,6 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 4,8 stig, 1,8 stigum ofan meðallags 1961 til 1990 og 1,9 yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Höfn í Hornafirði var meðalhiti 6,0 stig og 5,1 á Egilsstöðum.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð mhiti vik 1961-1990 röð af vik 2005 til 2014
Reykjavík 5,2 0,8 37 til 39 145 0,6
Stykkishólmur 5,0 1,1 35 til 37 169 0,9
Bolungarvík 4,6 1,1 28 118 1,3
Grímsey 5,2 2,2 10 142 1,8
Akureyri 4,8 1,8 17 134 1,9
Egilsstaðir 5,1 2,0 8 61 1,7
Dalatangi 6,6 2,0 6 77 1,7
Teigarhorn 5,9 1,4 18 til 20 143 1,0
Höfn í Hornaf. 6,0 1,5 1,0
Stórhöfði 5,9 0,9 31 139 0,6
Hveravellir  0,4 1,6 8 51 0,7
Árnes 4,3 0,9 37 136 0,7

Meðalhiti og vik (°C) í október 2015

Að tiltölu var hlýjast við Upptyppinga þar sem hiti var 2,7 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára, en kaldast á Vatnsskarðshólum þar sem hiti var 0,2 stigum ofan sama meðallags.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 6,9 stig, en lægstur á Þverfjalli, -0,8 stig. Lægstur var meðalhiti í byggð í Svartárkoti, 2,1 stig.

Landsmeðalhiti í byggð var lægstur þann 26., -1,3 stig, en hæstur þann 17. og 29., 8,6 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist í Neskaupstað þann 16., 18,4 stig, og er það jafnframt nýtt landsdægurhámark fyrir þann almanaksdag. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist 17,0 stig á Dalatanga þann 1.

Mest frost í mánuðinum mældist -15,7 stig við Upptyppinga þann 27. Þann 26. mældist mest frost í byggð, -14,2 stig, í Svartárkoti. Mest frost á mannaðri stöð mældist -10,5 stig á Grímsstöðum á Fjöllum, þann 26. og 27.

Úrkoma

Úrkoman í Reykjavík mældist 159,5 mm í október og er það um um 86 prósent umfram meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Þetta er mesta úrkoma í október í Reykjavík síðan 2007 og sú 5. mesta í október frá upphafi samfelldra úrkomumælinga í Reykjavík 1920. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 89,7 mm og er það um 12 prósent umfram meðallag. Á Akureyri mældist úrkoman 35,4 mm og er það um 61 prósent meðalúrkomu. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 192,5 mm.

Úrkoma mældist alla daga mánaðarins nema einn í Reykjavík og hafa þeir aldrei verið jafnmargir eða fleiri í október. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 22,8 fleiri en í meðalári en voru 26 í október 2007. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 1 mm eða meiri 19 daga, 6 fleiri en í meðalári.

Úrkoma á Vatnsskarðshólum hefur aldrei mælst jafnmikil eða meiri í október en nú og aldrei minni en nú í Miðfjarðarnesi.

Myndverk náttúrunnar
""Skaftárhlaup 3. október 2015. Hlaupið við Árkvíslar. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 59,9 og er það 24 stundum undir meðallagi áranna 1961 til 1990 en 40 stundum undir meðallagi síðustu tíu ára. Sólskinsstundir mældust færri í Reykjavík í október 2009. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 63,0 eða 12 fleiri en í meðalári. Það hefur ekki gerst síðan 1986 að sólskinsstundir hafa verið fleiri á Akureyri en í Reykjavík í október.

Vindur, loftþrýstingur og snjór

Vindhraði var lítillega undir meðallagi á landinu. Suðlægar og austlægar áttir voru ríkjandi lengst af í mánuðinum. Fremur lítið var um hvassviðri, einna mest kvað að suðaustanveðri þann 4.

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1002,1 hPa og er það -0,2 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Lægstur mældist þrýstingurinn í Grímsey þann 23., 972,4 hPa. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist 1023,3 hPa í Önundarhorni þ. 15.

Alautt var allan mánuðinn á Akureyri, að jafnaði gerist það fjórða hvert ár að október er alauður þar, en að meðaltali eru 5 dagar alhvítir á Akureyri í þeim mánuði. Ekki varð heldur alhvítt í Reykjavík, en flekkótt einn morgun. Meðalfjöldi alhvítra daga í október í Reykjavík er einn.

Mest snjódýpt í mánuðinum mældist í Svartárkoti, 27 cm, 15 cm mældust á Mýri í Bárðardal og 14 í Birkihlíð í Súgandafirði. Annars mældist snjódýpt hvergi meiri en 10 cm.

Fyrstu tíu mánuðir ársins 2015

Hiti fyrstu tíu mánuði ársins hefur verið nærri meðallagi áranna 1961 til 1990 um landið sunnanvert, en annars lítillega yfir því. Í Reykjavík er meðalhitinn 0,2 stigum ofan meðallags, 0,1 stig ofan við á Stórhöfða í Vestmannaeyjum og 0,5 stigum í Stykkishólmi. Á Akureyri er hitinn fyrstu 10 mánuði ársins 0,6 stigum ofan meðallags og 0,6 stig ofan við það á Teigarhorni.

Engu að síður verður árið það sem af er að teljast frekar kalt miðað við það sem verið hefur á síðari árum. Jafnkalt var síðast í Reykjavík árið 2000 en töluvert kaldara 1995. Á Stórhöfða hefur ekki verið kaldara síðan 1999, síðan 2002 í Stykkishólmi og 2005 á Akureyri.

Úrkoma er um 20 prósent ofan meðallags áranna 1961 til 1990 í Reykjavík en um 7 prósent á Akureyri. Sólskinsstundir hafa verið 121 umfram meðallag áranna 1961 til 1990 í Reykjavík en um 150 stundum færri en í meðalári á Akureyri. Hafa sólskinsstundir fyrstu tíu mánuði ársins ekki verið jafnfáar á Akureyri síðan 1983. Þar með er ljóst að árið verður með þeim sólarrýrustu á þeim slóðum.

Skjöl fyrir október

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í október 2015 (textaskjal).

Þessa grein, Tíðarfar í október 2015, er einnig hægt lesa sem pdf (0,3 Mb).


Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum má sækja í sérstaka töflu
.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica