Fréttir
þrír menn við stórt veggspjald
Opnun vefs EUMETNET um samevrópskar veðurviðvaranir.

Nýr samevrópskur vefur um veðurviðvaranir

28.3.2007

Á alþjóðlega veðurdeginum 23. mars 2007 var formlega opnaður í El Escorial á Spáni sameiginlegur vefur 21 Evrópulands um veðurviðvaranir. Hægt er að velja íslensku sem tungumál.

Vefurinn er unninn undir merkjum EUMETNET sem er formlegur samstarfsvettvangur ríkisveðurstofa þessara landa. Á vefnum má sjá með einföldum og samræmdum hætti hvort í gildi er innan hver lands viðvörun um veður eða veðurtengda þætti fyrir næstu 48 klst og er vefurinn uppfærður á 20 mínútna fresti.

Vefurinn er einkum hugsaður til nota fyrir þá sem ferðast á milli landa og þurfa að vita hvort veðurviðvörun er í gildi í landinu sem ferðast er til.

Notaðir eru fjórir meginlitir á viðvörunarkortinu: grænn ef engin viðvörun er í gildi frá viðkomandi veðurstofu, gulur vísar til þess í gildi sé tiltölulega algeng viðvörun en ef liturinn er appelsínugulur eða rauður er um að ræða mjög fátíða atburði, gjarnan mjög hættulega.

Hafa verður í huga að viðmiðunarmörkin eru mismunandi frá landi til lands, enda tíðni sambærilegra veðuratburða breytileg frá landi til lands og líkleg skaðsemi ákveðins veðuratburðar sömuleiðis. Ef þörf er á frekari upplýsinum um veður einstakra landa er vefslóðin rakin áfram inn á heimasíðu viðkomandi ríkisveðurstofu, en breytilegt er hvað þar er að finna og á hvaða tungumálum. Sjá einnig fréttatilkynningu á ensku (pdf 0,07 Mb).






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica