Fréttir
Litakóðar
Áhrifatafla viðvarana.

Nýtt viðvörunarkerfi Veðurstofu Íslands

31.10.2017

Þann 1. nóvember tekur Veðurstofan í notkun nýtt viðvörunarkerfi. Með nýju kerfi er leitast við að auka þjónustu við almenning og hagsmunaaðila. Helstu breytingar í útgáfu viðvarana verða þær að nýja kerfið tekur meira tillit til aðstæðna hverju sinni. Stakir veðurfarsþröskuldar verða úr sögunni, en það eru viðmið sem Veðurstofan hefur notað, svo sem 20 m/s fyrir vind og 100 mm úrkoma á 24 klst. Þau víkja nú fyrir viðmiðum sem taka tillit til árstíðar og aðstæðna í hverju tilviki fyrir sig.

Viðvörunarkerfið byggist á alþjóðlegum staðli sem kallast CAP (Common Alerting Protocol) og er stafrænt snið fyrir miðlun neyðartilkynninga og viðvarana um náttúruvá. Útgefin skeyti eru á þekktu, stöðluðu formi sem gerir alla miðlun viðvarana samræmda yfir mismundandi samskiptaleiðir og miðla. Hvert CAP skeyti inniheldur upplýsingar um þá náttúruvá sem varað er við, landshluta sem viðvörunin nær til, gildistíma og mat á því hversu mikil áhrif umrædd vá getur haft á samfélagið. Fyrsta útgáfa kerfisins nær eingöngu til viðvarana vegna veðurs, en áætlað er að innan örfárra ára muni kerfið ná til allrar náttúruvár sem Veðurstofan vaktar.

Viðvaranirnar verða í litum; gulum, appelsínugulum og rauðum lit í samræmi við alvarleika væntanlegs veðurs. Litirnir eru að erlendri fyrirmynd (meteoalarm.eu) og hafa fjölmargar evrópskar veðurstofur r tekið þá í notkun. Rauðar viðvaranir eru hæsta stig og boða mikil samfélagsleg áhrif af veðri; gular viðvaranir eru lægsta stig þar sem annað hvort samfélagsleg áhrif eru takmörkuð þó miklar líkur séu á veðrinu, eða minni líkur á áhrifum mikils veðurs lengra fram í tíman.

Viðvörunarlitur ákvarðast af mati sérfræðinga á væntanlegum áhrifum veðursins og líkum á því að spáin gangi eftir. Samfélagsleg áhrif geta verið mismunandi, s.s. truflanir á samgöngum, eignatjón, skemmdir á mannvirkjum og líkur á slysum, jafnvel mannskaða. Viðbragðsaðilar verða hafðir með í ráðum um útgáfu viðvarana á efri stigum og má þar nefna Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og Vegagerðina. Veðurfræðingar gefa frekari lýsingu á atburðinum í texta sem fylgir viðvöruninni. Áhrifatafla mun fylgja útgefinni viðvörun á vef Veðurstofunnar (sjá mynd).

Viðvaranir Veðurstofunnar verða birtar á vefjum stofnunarinnar. Viðvaranaskeyti verður hægt að nálgast í gegnum vefþjónustu Veðurstofunnar fyrir birtingu á öðrum miðlum og fréttaveitum.

Áhrifatafla - leiðbeiningar (pdf).

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica