Fréttir
Mynd sem sýnir hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva síðastliðnar 6 vikur, 9. desember 2022 til 19. janúar 2023, miðað við síðustu tíu ár.

Óvenjuleg kuldatíð

Síðustu sex vikur þær köldustu í Reykjavík síðan 1918

20.1.2023

Viðvarandi kuldatíð á landinu síðustu 6 vikur, frá 7. desember 2022 til 19. janúar 2023 er óvenjuleg. Tímabilið er kaldasta 6 vikna tímabil í Reykjavík frá 1918. Miklar breytingar urðu á veðrinu nú í nótt þegar lægð með hlýju lofti kom úr suðri yfir landið og hrakti þar með heimskautaloftið sem hefur verið ríkjandi yfir landinu undanfarið langt til norðurs.

Spa_Munur

Hitasvið norðurheimskautsins í u.þ.b.1500 m. hæð.  Annað kortið sýnir stöðuna á miðnætti 19. janúar (aðfaranótt fimmtudags). Hitt kortið sýnir stöðuna á miðnætti 21. janúar (aðfaranótt laugardags).  Ísland merkt með rauðum hring. 

Það hefur verið mjög kalt á landinu öllu en að tiltölu hefur verið kaldast inn til landsins. Kuldatíðin er sérstaklega óvenjuleg á suðvesturhorninu. Ekki hefur verið kaldara í Reykjavík í desember í rúmlega 100 ár, en í desember 1916 var meðalhiti svipaður og í nýliðnum mánuði. Janúar hingað til hefur líka verið kaldur, og er byrjun janúar 2023 sú kaldasta frá því 1979. Síðust 6 vikur eru þær köldustu í Reykjavík síðan 1918, en þá var mikið kaldara á tímabilinu en nú.

Alhvítir dagar í Reykjavík eru sömuleiðis óvenju margir og samfellt hvítt tímabil langt, það er nú komið í 34 daga og hefur einungis 5 sinnum verið lengra.

Miklar hitasveiflur á einum sólarhring

Umskiptin í nótt og morgun hafa verið mikil, sem dæmi má nefna að kl. 06 í gærmorgun (19. janúar) var frostið í Víðidal í Reykjavík -20,4°C, en kl. 06 í morgun var hitinn orðinn 1,9°C. Kl. 10 var hitinn svo kominn í 5°C eins og sjá má á línuritinu hér að neðan.

Vididalur

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica