Fréttir
veðurfræðingur bendir með priki á pappírskort
Páll Bergþórsson, veðurfræðingur og síðar veðurstofustjóri (1989-1993), skýrir veðurkort í sjónvarpssal árið 1974. Veðurspár í sjónvarpi hófust 6. febrúar 1967. Veðurfræðingur skýrði þar kort sem sýndu veðrið á landinu og umhverfis það eins og það var samkvæmt síðustu veðurskeytum. Siðan var sýnt sérstakt spákort sem sýndi hvernig veðurfræðingurinn hugsaði sér veðrið að sólarhring liðnum. Í fyrstu voru veðurfregnir í sjónvarpi aðeins þrjá daga vikunnar; mánudaga, miðvikudaga og föstudaga. Páll taldi að veðurfregnir í sjónvarpi hefðu aukið skilning manna á veðurfræði og veðurspám og fólk hefði þar af leiðandi meira gagn af spánum en áður.

Páll Bergþórsson lést 10. mars síðastliðinn á 101. aldursári.

Páll starfaði sem veðurfræðingur, deildarstjóri veðurfræðirannsókna og veðurstofustjóri hjá Veðurstofu Íslands

22.3.2024

Páll fæddist í Fljótstungu í Hvítársíðu 13. ágúst 1923. Hann stundaði nám í Héraðsskólanum í Reykholti frá 1939 til 1941 og lauk síðan stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1944. Að loknu tveggja ára námi í verkfræði við Háskóla Íslands hélt hann til Svíþjóðar 1947 og stundaði nám í veðurfræði við Sveriges Meteorologiska och Hydrologiska Institut (SMHI) í Stokkhólmi og lauk þar prófi 1949. Hann stundaði frekara nám og rannsóknir í veðurfræði við Stokkhólmsháskóla frá 1953 og lauk fil.kand.-prófi 1955. Á árinu 1958 dvaldist hann í Osló í nokkra mánuði við rannsóknir til undirbúnings tveggja daga veðurspáa. Þá vann hann við rannsóknir á spáaðferðum við Reiknimiðstöð evrópskra veðurstofa (ECMWF) í Reading í Bretlandi hálft árið 1980.

Pall-ad-teikna-vedurkort

Á myndinni hér að ofan er Páll að teikna veðurkort og vinna.

Heim kominn frá veðurfræðinámi 1949 hóf Páll störf sem veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands en hann hafði áður starfað þar sem aðstoðarmaður frá 1946 til 1947 og sumarið 1948. Meginverkefni hans á stofnuninni allt til 1982 sneru að almennri veðurspáþjónustu og flugveðurþjónustu. Hann var deildarstjóri veðurfræðirannsókna frá 1982 til 1989. Árið 1989 var Páll skipaður veðurstofustjóri frá 1. október og gegndi því embætti til ársloka 1993, þá sjötugur að aldri.

Auk starfa að veðurþjónustu sinnti Páll fjölþættum verkefnum í hlutverki sínu sem veðurfræðingur. Hann var fulltrúi í starfsnefnd um gagnaöflun og gagnanotkun á norrænum veðurstofum og formaður hennar um skeið. Hann vann veturinn 1954 til 1955, ásamt Bo R. Doos, frumherjastarf við tölvugreiningu og teikningu veðurkorta og oft er í fræðiritum vísað til aðferðar þeirra. Hann flutti veðurfregnir í sjónvarpi frá upphafi þeirra 1967 og allt til 1989. Um skeið var Páll kennari á námskeiðum fyrir flugnema og kenndi í almenna og hagnýta veðurfræði við Háskóla Íslands frá 1971 til 1982. Hann sat í ritnefnd tímaritsins Veðrið frá 1958 til 1978 og lagði því mikið til af áhugaverðu efni.

Páll var fræðari af lífi og sál og tengdi veður og hag helstu atvinnuvega þjóðarinnar, ekki síst landbúnaðar, saman með skipulögðum og skýrum hætti. Hann var kunnur smekkmaður á íslenskt mál, bæði talað og ritað, mjög áheyrilegur fyrirlesari og skrifaði afar fallega rithönd. Hann var meðal frumkvöðla hérlendis um rannsóknir á veðurfarsbreytingum og beindi snemma sjónum að hnattrænni hlýnun og þá ekki síst hvaða áhrif hún hefði á íslenskan landbúnað. Þá rannsakaði hann samspil veðurfars og mannfjöldaþróunar. Allt frá 1969 gerði Páll um árabil árlegar spár um hafís við Ísland byggðar á hita á Jan Mayen sumarið og haustið á undan. Þá birti hann um alllangt skeið frá 1976 árlegar spár í apríllok um heyfeng á landinu. Hann kom veðurfregnum í sjónvarpi þannig á framfæri að auðskilið var almenningi. Hann flutti fjölda útvarpserinda um veður við miklar vinsældir, jafnframt hugleiðingum um lífið í landinu, og bók hans Loftin blá sem út kom 1957 er byggð á þessu efni. Páll samdi ennfremur bókarhluta, kennsluefni og skýrslur um veðurfræði og ritaði mikinn fjölda greina um þau fræði og skyld efni í blöð og tímarit. Ennfremur rakti hann ferðir landkönnuða frá Íslandi og Grænlandi til Vesturheims í kringum árið 1000, með sérstöku tilliti til náttúrufars og annarra aðstæðna og gaf út bókina Vínlandsgátan um þessi efni árið 1997.

Starfsfolk348

Páll gaf sig mikið að félagsmálum og sat m.a. í stjórn Stúdentafélags Háskóla Íslands, Starfsmannafélags ríkisstofnana, Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis og Landverndar. Ennfremur sat hann í stjórn Íslenska járnblendifélagsins og Flugráði um tíma.

Páll hafði mjög ákveðna pólitíska lífsskoðun – var staðfastur sósíalisti – og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum í vinstrihreyfingunni. Þannig var hann formaður Æskulýðsfylkingarinnar og Sósíalistafélags Reykjavíkur um hríð og sat í miðstjórn Sameiningarflokks alþýðu – Sósíalistaflokksins, síðar Alþýðubandalagsins og var frambjóðandi þess í Mýrasýslu í alþingiskosningunum 1956.

Páll var góður lausavísnahöfundur og þýddi söngtexta. Þá sá hann um tíma við annan mann um skemmtiþátt í útvarpi.

Þrátt fyrir að Páll hefði lokið sinni starfsævi á Veðurstofunni og væri kominn á eftirlaun hætti hann síður en svo afskiptum af þeim fræðum sem áttu hug hans allan. Allt fram undir leiðarlok sinnti hann þessum áhugamálum sínum af kappi og tók virkan þátt í samkomum og skoðanaskiptum veðurfræðinga og annarra fræðimanna.

Eiginkona Páls var Hulda Baldursdóttir, læknaritari og ritari veðurstofustjóra, en hún lést 2013. Börn þeirra eru Baldur kerfisfræðingur, Kristín hjúkrunarfræðingur og Bergþór, óperusöngvari og skólastjóri.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica