Fréttir

Rætt um aðlögun að loftslagsbreytingum í sveitarfélögum

2.9.2022

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og innviðaráðuneytið, standa ásamt Veðurstofu Íslands, Byggðastofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg að fræðsluviðburðinum „Aðlögun að breyttum heimi – hefjum samtalið“ á Grand hótel, 5. september kl. 9-12.

Umfjöllunarefni fundarins eru áhrif loftslagsbreytinga á byggðir landsins og íslenskt samfélag, sem og sú vinna sem framundan er til þess að aðlaga innviði okkar, atvinnuvegi og samfélög að þeim breytingum sem vænta má.

Fundarstjóri er Sævar Helgi Bragason jarðfræðingur.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra flytja ávörp, en á viðburðinum verða einnig erindi frá Byggðastofnun, Veðurstofu Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Skipulagsstofnun og innlegg frá fulltrúum sveitarfélaga.

Anna Hulda Ólafsdóttir, yfirmaður skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar
hjá Veðurstofu Íslands mun flytja erindi þar sem hún fjallar um áhrif og aðlögun að loftslagsbreytingum á Íslandi.

Opnað hefur verið fyrir skráningu, en viðburðurinn verður einnig aðgengilegur í streymi. 

Nánari upplýsingar um viðburðinn og dagskrána má finna hér

Skráning á viðburðinn





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica