Fréttir

Ríflega tvöfalt meiri hlýnun í Evrópu en á heimsvísu

Ný skýrsla Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) um ástand loftslags Evrópu

2.11.2022

Í dag kom út skýrsla Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) um ástand loftslags Evrópu eða State of the Climate, Europe 2021.

Í skýrslunni kemur fram að hlýnun í Evrópu á síðastliðnum 30 árum hefur verið ríflega tvöföld á við þá hlýnun sem hefur átt sér stað á heimsvísu á sama tímabili. Um er að ræða mestu hækkun fyrir einstaka heimsálfu. Með aukinni hlýnun aukast líkur á því að hátt hitastig, gróðureldar, flóð og aðrar afleiðingar loftslagsbreytinga hafi áhrif á samfélög, efnahag og vistkerfi.


Árleg hitafrávik við land í Evrópu fyrir viðmiðunartímabilið 1981-2010 (gögn frá Veðurstofu Bretlands). Til hægri: Hitafrávik meðallofthita (°C) fyrir árið 2021 í samanburði við viðmiðunartímabilið 1981-2010 (gögn frá ERAS, mynd frá Copernicus/ECMWF).

Á árabilinu 1991-2021 hefur hiti í Evrópu hækkað um 0,5°C að meðaltali á áratug. Afleiðingarnar eru meðal annars þynning jökla á Alpasvæðum og bráðnun ísbreiðunnar á Grænlandi sem veldur hækkandi sjávarstöðu víðast hvar um álfuna. Árið 2021 leiddi aftakaveður og aðrir loftslagstengdir atburðir til hundruða dauðsfalla, hafði bein áhrif á meira en hálfa milljón íbúa og olli fjárhagslegu tjóni sem nemur meira en 50 milljörðum Bandaríkjadala. Um það bil 84% þessara atburða voru flóð eða óveður.

Fig11

Yfirlit yfir nokkra atburði sem höfðu mikil áhrif á Evrópulönd árið 2021 (gögn frá Veður- og loftslagsþjónustu Þýskalands, DWD).

Samfélög ekki örugg fyrir áhrifum loftslagsbreytinga

„Evrópa er lifandi dæmi um hlýnun jarðar og minnir okkur á að jafnvel þó samfélög séu vel undirbúin eru þau ekki örugg fyrir áhrifum aftakaveðurs. Í ár, eins og árið 2021, hafa gríðarlegar hitabylgjur og þurrkar herjað á stór svæði í Evrópu og meðal annars leitt til gróðurelda. Árið 2021 leiddu mikil flóð til dauðsfalla og eyðileggingar,“ segir aðalrittari WMO, Tetteri Taalas.


Yfirlit yfir skráðar hamfarir tengdar veðurfari, vatnafari og loftslagi, skráð dauðsföll og skráð fjárhagslegt tjón í Evrópu (1970-2019) (gögn frá WMO).

Fig16

Yfirlit yfir hamfarir tengdar veðurfari, vatnafari og loftslagi í Evrópu árið 2021 (gögn frá EM/DAT).

Góðar fréttir af samdrætti í losun

Það eru þó ekki einungis harmafregnir tengdar loftslagsmálum Evrópu. Samkvæmt skýrslunni hefur fjöldi Evrópuríkja náð góðum árangri við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Losun hjá ríkjum Evrópusambandsins hefur dregist saman um 31% á árabilinu 1990-2020 og stefnt er að því að samdráttur verði 55% fyrir árið 2030. Evrópa stendur einnig framarlega hvað varðar samstarf um aðgerðir í loftslagsmálum þvert á landamæri auk þess sem álfan er leiðandi í þróun viðbragðsáætlana sem miða að því að tryggja öryggi íbúa.  

Evrópskt samfélag er berskjaldað fyrir breytilegu loftslagi. Evrópa er þó einnig leiðandi hvað varðar alþjóðlegt samstarf um mótvægisaðgerðir og þróun nýstárlegra aðlögunaraðgerða til þess að bregðast við því nýja loftslagi sem sem Evrópubúar þurfa að lifa við,“ segir Carlo Buontempo, sérfræðingur hjá Copernicus, Loftslagsþjónustu Evrópusambandsins.

Skýrslan State of the Climate, Europe 2021 var lögð fram á ráðstefnu stjórnenda evrópskra veðurstofa og er hluti af röð svæðisbundinna skýrsla sem gefnar eru út af WMO. Með skýrslunum er ætlunin að miðla svæðisbundnum upplýsingum byggðum á vísindalegum grunni til stefnumótenda.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica