Fréttir
Kort
Mynd: Skráð snjó- og krapaflóð síðustu 10 daga á Austurlandi. Ekki er búið að vinna úr öllum tilkynningum og ekki hafa öll flóð verið tilkynnt svo töluvert getur vantað á kortið. Kortið er tekið af snjóflóðavef Veðurstofunnar þar sem birtir eru punktar fyrir þau snjóflóð og krapaflóð sem skráð hafa verið sl. 10 daga.

Samantekt um ofanflóð á Austurlandi síðustu viku

Flestar tegundir ofanflóða í einni og sömu vikunni, en vitað er um eina litla skriðu í Hvalnesskriðum. Ofanflóð er samheiti yfir snjóflóð, krapaflóð og skriðuföll.

1.4.2023

Sunnudaginn 26. mars var bjart og fallegt veður á Austfjörðum. Talsverður snjór hafði safnast í byggð sumstaðar á fjörðunum vikuna á undan, en snjódýpt til fjalla var ekki óvenju mikil. Lítið snjóflóð féll af mannavöldum í Oddsskarði og annað lítið lausasnjóflóð var skráð í Seyðisfirði. Sunnudagskvöldið kom lægðarbóla að Austfjörðum með mikilli snjókomu aðfaranótt mánudags.

Strax snemma að morgni mánudagsins 27. mars féll snjóflóð út í sjó innan við byggðina í Neskaupstað. Stuttu seinna féll snjóflóð úr Nesgili, sem er utarlega í byggðinni, og lenti það á fjölbýlishúsi við Víðimýri og fór að fleiri húsum. Flóðið var kraftmikið og kastaði mörgum bílum til, braut rúður og þeytti snjó inn í fjölbýlishúsið og þurfti að bjarga fólki úr húsinu. Flóð féll einnig úr Bakkagili sem fór langt en ekki á hús. Ekki hafa verið reistar varnir fyrir Nesgil og Bakkagil eins og gert hefur verið fyrir snjóflóðafarvegi innar í bænum. Varnir fyrir Nes- og Bakkagil hafa verið hannaðar og verða boðnar út á næstunni og munu rísa á næstu tveimur árum. Fleiri flóð féllu einnig ofan Neskaupstaðar þennan morgun, m.a. úr Skágili sem olli skemmdum á skógrækt og lenti á varnargarði. Einnig féll flóð á varnarkeilur neðan Tröllagils.

Á Seyðisfirði féll flóð á mannlaust hús sem stóð utan við þéttbýlið að norðanverðu og í Mjóafirði féll snjóflóð í sjó fram innan byggðarinnar norðan fjarðarins og skemmdi raflínu. Fleiri flóð féllu, m.a. á vegi.

Þessi snjóflóð sem féllu mánudaginn 27. mars voru óvenjuleg. Þau voru svokölluð kófhlaup en það eru snjóflóð sem eru mjög loftblönduð og hafa lítinn eða engan þéttan kjarna. Það var mjög lítið snjómagn í flóðunum og tungur þeirra voru illgreinanlegar nema þar sem þær höfðu lent á fyrirstöðum. Það er því víðast ekki unnt að greina þau nema út frá tjóni sem þau ollu og skemmdum á gróðri.

Þriðjudaginn 28. mars var skaplegt veður en þó var áfram éljahraglandi. Ekki fréttist af neinum nýjum snjóflóðum.

Miðvikudaginn 29. mars var einnig skaplegt veður til að byrja með en síðan byrjaði úrkoma á ný sem var víða slydda á láglendi en snjókoma í fjöllum. Úrkoman byrjaði fyrst á sunnanverðum Austfjörðum. Snjóflóð féll á ný úr Skágili í Neskaupstað.

P3280168

Mynd 1: Ummerki kófhlaups mánudag 27. mars á 17 metra háum þvergarði undir Drangagili í Neskaupstað. Snjóflóðið rakst á garðinn á miklum hraða og snjórinn klesstist inn í netgrindur sem eru til styrkingar á brattri garðhliðinni. Snjórinn kastaðist upp á garðtoppinn á um 80 m löngum kafla og náði 10-20 m niður á neðri garðhliðina. Fimmtudaginn 30. mars féll annað snjóflóð á keilur fyrir ofan sama varnargarð en það stöðvaðist áður en það náði garðinum. Mynd: Ragnar Heiðar Þrastarson fagstjóri landfræðilegra upplýsingakerfa.

Fimmtudaginn 30. mars var mikil úrkoma í A- og ANA vindi. Víðast hvar snjókoma til fjalla en rigning eða slydda á láglendi. Mörg snjóflóð féllu á nýjan leik ofan og innan Neskaupstaðar. Þau voru mjög frábrugðin kófhlaupunum sem féllu á mánudaginn. Miklu meira snjómagn var í þeim, og þau komu niður í rakan snjó í neðri hluta hlíða. Flest þeirra fóru mun styttra og stöðvuðust í um 150 m hæð yfir sjó, en snjóflóð féll á varnarkeilur undir Tröllagiljum. Stærsta snjóflóðið féll úr Drangagili og lenti á varnarkeilum, og sá sjónarvottar hvernig keilurnar köstuðu flóðinu hátt í loft upp áður en það stöðvaðist ofan við varnargarðinn. Bæði í Tröllagiljum og Drangagili eru svokölluð upptakastoðvirki eða snjóflóðagrindur ofarlega í fjallinu þar sem halli er nægur til þess að snjóflóð fari af stað. Tilgangur stoðvirkjanna er að draga úr því snjómagni sem getur farið af stað í snjóflóði. Ofan við byggðina eru varnargarðar sem kallast þvergarðar vegna þess að þeir liggja þvert stefnu snjóflóða. Þeir eru 14–20 m háir og mjög brattir fjallsmegin.  Ofan við varnargarðana eru tvær raðir af varnarkeilum, en hlutverk þeirra er að draga úr orku og hraða snjóflóða og tvístra svokölluðum iðufaldi sem fylgir oft þurrum snjóflóðum. Í Drangagil fór snjóflóðið af stað neðan við upptakastoðvirkin og lenti síðan á varnarkeilunum sem bremsuðu flóðið með því að tvístra því og kasta í loft upp. Flóðið stöðvaðist rétt ofan við þvergarðinn.

Snjóflóð féllu einnig úr Hólmatindi í Eskifirði og á Fagradal og snjóflóð féll á lyftuskúr á skíðasvæðinu í Oddsskarði. Einnig fréttist af snjóflóði í Hornafirði.

MicrosoftTeams-image--6-
Mynd af flóðinu sem féll á varnarkeilurnar neðan Drangaskarðs. Ljósmynd: Hlynur Sveinsson, Björgunarsveitin Gerpir

Að kvöldi fimmtudags og aðfaranótt föstudags 31. mars hlýnaði enn frekar og úrkoman hélt áfram en breyttist í rigningu á láglendi og neðarlega í fjöllum. Á föstudag var hiti kominn yfir frostmark upp í fjallatoppa. Þegar hlýnar og rignir svona mikið ofan í snjó getur skapast hætta á krapaflóðum sem eru mettuð blanda af vatni og snjó og fara gjarnan af stað í vatnsfarvegum. Krapaflóð geta átt upptök við minni halla en vot eða þurr snjóflóð. Stundum eru vot snjóflóð ranglega kölluð krapaflóð, en krapaflóð eru í rauninni talsvert frábrugðin. Fyrstu krapaflóðin fóru að falla aðfaranótt föstudags og á föstudeginum fréttist af krapaflóðum víða á sunnanverðum Austfjörðum og norður í Fáskrúðsfjörð og einnig í Fljótsdal. Föstudaginn 31. mars féllu einnig mörg snjóflóð sem höfðu vota tungu t.d. ofan Neskaupstaðar, í Seyðisfirði og á Fagradal.

Hrina síðustu viku bauð upp á flestar tegundir ofanflóða

Þegar þetta er skrifað á laugardagsmorgni er talið að þessi óvenjulega hrina þurra snjóflóða á Austfjörðum sé yfirstaðin en enn þá er talin hætta á votum snjóflóðum og krapaflóðum. Draga ætti hratt úr henni í dag eftir að styttir upp síðdegis. Í dag munu starfsmenn Veðurstofunnar mæla snjóflóðin í Neskaupstað og landmælingamenn munu gera nákvæm kort af þeim og taka af þeim loftmyndir. Út frá þessum gögnum verður unnt að meta rúmmál flóðanna og greina hvernig þau hafa hlaðist upp að varnarvirkjum ofan byggðarinnar. Einnig verður aflað gagna um hæð brotstáls í upptakasvæðum flóðanna og afstaða upptakanna til stoðvirkjanna mæld til þess að afla upplýsinga um hvernig þau virkuðu til þess að draga úr stærð flóðanna.

Eitt af því sem er merkilegt við hrinu síðustu viku að hún bauð upp á flestar tegundir ofanflóða í einni og sömu vikunni, en vitað er um eina litla skriðu í Hvalnesskriðum. Ofanflóð er samheiti yfir snjóflóð, krapaflóð og skriðuföll. Kófhlaup er ein gerð snjóflóða sem er tiltölulega sjaldgæf hér á landi og aðeins eru þekkt örfá dæmi um tjón af þeirra völdum í byggð á Íslandi, þekktast þeirra kófhlaup árið 1990 sem olli talsverðu tjóni á bænum Þrastalundi sem er skammt innan við þéttbýlið í Neskaupstað.

Snjóflóðin í Neskaupstað á fimmtudaginn eru væntanlega með stærstu flóðum sem snjóflóðasaga bæjarins kann frá að greina, ekki síst ef reynt er að giska á hversu stór þau hefðu orðið ef ekki hefðu komi til stoðvirki í upptakasvæðunum og varnarvirkin neðar í hlíðinni. Líklegt má telja að flóðið úr Drangagili hefði náð inn í byggðina og ekki er ólíklegt að það sama eigi við um snjóflóðið úr Innra-Tröllagili. Slík flóð eru ekki algeng og má ætla að þessi tvö stærstu flóð í nýafstaðinni hrinu hefðu verið með stærstu flóðum í kaupstaðnum á síðustu rúmlega 100 árum ef miðað er við hugsanlega eða líklega stærð þeirra án varnarvirkjanna. Mælingar munu gefa skýrari mynd af umfangi flóðanna.

Umfangsmiklar rýmingar hafa verið í gildi víða á Austfjörðum í vikunni.

Kort

Mynd: Skráð snjó- og krapaflóð síðustu 10 daga á Austurlandi. Ekki er búið að vinna úr öllum tilkynningum og ekki hafa öll flóð verið tilkynnt svo töluvert getur vantað á kortið. Kortið er tekið af snjóflóðavef Veðurstofunnar þar sem birtir eru punktar fyrir þau snjóflóð og krapaflóð sem skráð hafa verið sl. 10 daga.

Ofanflóðavakt Veðurstofunnar metur mikils að fá tilkynningar um snjóflóð, krapaflóð og skriður. Hægt er að gera það í sérstöku formi á vef Veðurstofunnar: https://skraflod.vedur.is/skra/snjoflod/ og einnig er hægt að hringja í síma 5226000.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica