Fréttir
Header-fyrir-FB

Samvinna sterkasta vopnið til þess að byggja upp loftslagsþol

Niðurstöður norrænnar ráðstefnu um aðlögun að loftslagsbreytingum birtar 

14.6.2023

Á vefsíðu Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar var í dag birt ágrip yfir helstu niðurstöður norrænnar ráðstefnu um aðlögun að loftslagsbreytingum, NOCCA 2023, sem fram fór í Reykjavík í apríl. Ráðstefnan fjallaði meðal annars um leiðir til þess að festa aðlögun að loftslagsbreytingum betur í sessi þegar kemur að stefnumótun- og ákvarðanatöku á sveitarstjórnastigi og hvernig Norðurlöndin geti nýtt slagkraft sinn til góðra verka í átt að loftslagsþoli.

Policy_brief_mynd

Meginskilaboð ráðstefnunnar voru á þessa leið:  

  • Mikilvægt er að sveitarfélög og ríkisstjórnir vinni saman að aðlögun að loftslagsbreytingum. Það kemur í hlut sveitarfélaga að hrinda í verk aðlögunaraðgerðum en stjórnvöld skyldu styðja við með lagasetningu og fjármagni. Þörf er á því að skýra ábyrgð þegar kemur að því að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga.  

  • Stjórnvöldum ber að tryggja að hægt sé að byggja ákvarðanir í tengslum við aðlögun að loftslagsbreytingum á áreiðanlegum gögnum og rannsóknir. Það krefst aukins fjármagns í rannsóknir og vöktun á áhrifum loftslagsbreytinga.  

  • Til þess að ná fram sem bestum lausnum þarf að sýna stöðuga viðleitni við að brúa bilið á milli vísinda og stefnumótenda.  

  • Vefsjár eru mikilvæg verkfæri til þess að auðvelda aðgengi hagaðila að vísindalegum upplýsingum. 

  • Það þarf að uppfæra skipulagslög og reglugerðir með það fyrir sjónum að færa hefðbundið skipulag sem einblínir á landnotkun yfir í víðara samhengi. Aðalskipulag þarf að taka meira mið af loftslagsbreytingum og leggja mat á áhrif þeirra á samfélag.  

  • Það hefur margvíslegan ávinning að hvetja samfélagið til þess að taka þátt í ákvarðanatöku. Þannig eykst skilningur á áhættu vegna loftslagsbreytinga og viðeigandi viðbrögðum, auðveldar val á lausnum og ýtir undir umburðarlyndi gagnvart dýrum og mögulega eyðileggjandi, en um leið nauðsynlegum, aðgerðum.   

  • Í hnattrænum heimi er mikilvægt að meta og takast á við áhættur vegna loftslagsbreytinga þvert á landamæri. Sveitarfélög þurfa að vinna með stjórnvöldum og fyrirtækjum við að takast á við slíkar áskoranir.  

  • Norðurlöndin hafa mörg þróað ýmis konar tæki og tól til þess að hjálpa til við aðlögun að loftslagsbreytingum og eru boðin og búin til þess að deila þeim með nágrönnum sínum.  

  • Með því að byggja á sameiginlegum grunni hafa Norðurlöndin tækifæri á að láta til sín taka á alþjóðlegum grundvelli við innleiðingu áhrifaríkra aðlögunaraðgerða á svæðum sem þurfa hvað mest á því að halda.  

Niðurstöðurnar kynntar á evrópskum vettvangi 

Niðurstöður ráðstefnunnar verða kynntar á sérstökum hliðarviðburði á evrópskri ráðstefnu um aðlögun að loftslagsbreytingum, ECCA 2023 , sem fram fer í Dublin í næstu viku. Með því er ætlunin að þær nýtist áfram til áhrifaríkra aðlögunaraðgerða á evrópskum vettvangi. 

Hlidarvidburdur

ECCA ráðstefnan er haldin annað hvert ár og miðar að því að hvetja til aðgerða og stefnumótunar á sviði aðlögunaraðgerða og auka skilning á viðfangsefninu. Á ráðstefnunni leiða saman hesta sína opinberir starfsmenn og stefnumótendur og fulltrúar einkageirans með það að markmiði að miðla þekkingu og reynslu hvað varðar aðlögun að loftslagsbreytingum. Ráðstefnan beinist einnig að vísindamönnum og því að móta sameiginlega sýn þeirra á því hvaða rannsókna er þörf á viðfangsefninu.  

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica