Fréttir
Kortið sýnir staðsetningu vatnshæðamæla Veðurstofunnar og rennslisleið hlaupvatns frá Skaftárkötlum.

Skaftárhlaup í rénun

11.12.2025

Uppfært 15. desember
  • Skaftárhlaup í rénun, rennsli í ánni hefur farið hægt lækkandi um helgina og mælist það um 76 m3/s við Sveinstind.  

  • Leiðni er enn há en heldur áfram að lækka; brennisteinsmengun getur enn verið á svæðinu nærri jökli. 

Skaftárhlaup er í rénun og hefur rennsli við Sveinstind farið hægt lækkandi yfir helgina og mælist nú um 76 rúmmetrar á sekúndu (m3/s) við Sveinstind.  

Leiðni í ánni jókst um tíma um helgina og náði hámarki aðfaranótt sunnudags og mældist þá um 620 míkrósiemens á sentimetra (µS/cm) en hefur farið lækkandi síðan og mælist nú um tæplega 370 míkrósiemens á sentimetra (µS/cm). Þetta bendir til þess að enn sé hlaupvatn að berast í ánna. Enn má mögulega búast við brennisteinsmengun við árfarveginn nærri jökli. 

Til útskýringar: 
Leiðni er mælikvarði á magn uppleystra efna í vatni og er notuð til að fylgjast með jökulhlaupum. Hækkuð leiðni og brennisteinslykt eru dæmigerð einkenni Skaftárhlaupa og benda til þess að hlaupvatn úr jökli sé enn að berast í ána. 


Uppfært 12. desember
  • Skaftárhlaup er enn yfirstandandi en dregur hægt og rólega úr rennsli og mælist það nú um 130 m3/s við Sveinstind. 

  • Leiðni virðist hafa náð hámarki og brennisteinslykt er enn á svæðinu 

  • Engin áhrif eru á helstu vegi að svo stöddu. 

Skaftárhlaup er enn yfirstandandi en það dregur hægt og rólega úr rennsli og mælist það nú um 130 rúmmetrar á sekúndu (m3/s) við Sveinstind. 

Leiðni í ánni virðist hafa náð hámarki en hún hefur haldist nokkuð stöðug í tæplega 500 míkrósiemens á sentimetra (µS/cm) síðasta sólarhringinn. Áfram má finna brennisteinslykt við árfarveginn. Að svo stöddu hefur hlaupið ekki áhrif á helstu vegi á svæðinu en áfram verður fylgst náið með þróun hlaupsins. 

Fréttin verður næst uppfærð á mánudaginn 15. desember nema aðstæður breytist verulega. 

Til útskýringar: 
Leiðni er mælikvarði á magn uppleystra efna í vatni og er notuð til að fylgjast með jökulhlaupum. Hækkuð leiðni og brennisteinslykt eru dæmigerð einkenni Skaftárhlaupa og benda til þess að hlaupvatn úr jökli sé enn að berast í ána. 


Uppfært 11. desember
  • Skaftárhlaup er enn yfirstandandi og stöðugt. 

  • Rennsli hefur aukist að hluta samhliða úrkomu og mælist það nú rúmlega 160 m3/s við Sveinstind. 

  • Leiðni er enn há en hægt hefur úr hækkun samhliða úrkomu. 

  • Engin áhrif eru á helstu vegi að svo stöddu. 

Skaftárhlaupið er stöðugt en úrkoma og leysing á svæðinu hefur bætt að hluta í rennsli og mælist það nú rúmlega 160 rúmmetrar á sekúndu (m3/s) við Sveinstind, sem samsvarar meðalrennsli að sumri. 

Leiðni í ánni hefur haldið áfram að hækka frá því í gær en úrkoman hefur hægt örlítið á aukningunni. Áfram má finna brennisteinslykt við árfarveginn. Að svo stöddu hefur hlaupið ekki áhrif á helstu vegi á svæðinu en áfram verður fylgst náið með þróun hlaupsins. 


Uppfært 10. desember
  • Staðfest hefur verið að hlaupið komi úr Vestari-Skaftárkatli 

  • Lítillega hefur dregið úr rennsli síðan í gær og mælist það nú   rúmlega 120 m3/s við Sveinstind. 

  • Leiðni hefur aukist og brennisteinslykt er enn á svæðinu 

  • Engin áhrif eru á helstu vegi að svo stöddu 

Skaftárhlaup er yfirstandandi og hefur verið staðfest að jökulhlaupið komi úr Vestari-Skaftárkatli. Þetta er staðfest út frá Sentinel-1 radarmyndum, óróagögnum, athugunum afkomumælingahóps Jarðvísindastofnunar Háskólans og Landsvirkjunar, sem voru við afkomumælingar á Vatnajökli, og InSAR-myndum. 

Jökulhlaupið hefur verið nokkuð stöðugt frá því í gær en áfram dregur örlítil úr rennsli og mælist það nú rúmlega 120 rúmmetrar á sekúndu( m3/s) við Sveinstind. 

Leiðni í ánni hefur farið hækkandi frá því í gær og áfram má finna brennisteinslykt við árfarveginn. Að svo stöddu hefur hlaupið ekki áhrif á helstu vegi á svæðinu, en áfram verður fylgst náið með þróun hlaupsins. 


Uppfært 9. desember 
  • Rennsli og vatnshæð í Skaftá hefur verið nokkuð stöðug en dregið lítillega úr síðan í gær og mælist rennsli við Sveinstind núna um 160 m3/s.

  • Leiðni mælist enn há og brennisteinslykt er enn á svæðinu

  • Engin áhrif eru á helstu vegi að svo stöddu

  • Líklegast að hlaupið komi úr Vestari-Skaftárkatli

Skaftárhlaup er yfirstandandi og hefur verið nokkuð stöðugt frá því í gær en örlítið hefur dregið úr rennsli, mælist það nú um 160 rúmmetrar vatns á sekúndu (m3/s) við Sveinstind.

Leiðni í ánni er enn há og áfram má finna brennisteinslykt við árfarveginn. Að svo stöddu hefur hlaupið ekki áhrif á helstu vegi á svæðinu en áfram verður fylgst náið með þróun hlaupsins.

Út frá óróagögnum, athugunum afkomumælingahóps Jarðvísindastofnunar og Landsvirkjunar á Vatnajökli og InSAR-myndum er líklegast að jökulhlaupið komi úr Vestari-Skaftárkatli, sem síðast hljóp haustið 2021.


Uppfært 8. desember

Skaftárhlaup er hafið

  • Rennsli byrjaði að aukast aðfaranótt sunnudags en hefur verið stöðugt síðan um miðnætti, um 200 rúmmetrar á sekúndu

  • Brennisteinslykt hefur mælst og leiðni aukist

  • Engin áhrif eru á helstu vegi að svo stöddu

  • Óvíst er enn hvort hlaupið kemur úr vestari eða eystri katlinum

  • Síðasta Skaftárhlaup var í ágúst 2024

Skaftárhlaup er hafið og komu fyrstu merki um hlaupið fram á vatnamælingastöð í Skaftá við Sveinstind aðfaranótt sunnudags. Í gærkvöldi fór rennsli einnig að aukast í Skaftá við Kirkjubæjarklaustur og í Eldvatni. Rennsli við Sveinstind hefur verið stöðugt síðan á miðnætti og mælist nú um 200 rúmmetrar vatns á sekúndu (m3/s) sem er sambærilegt miklu sumarrennsli en er lítið miðað við stærri Skaftárhlaup sem geta náð hámarksrennsli allt að 3000 m3/s.

Skafta-q1-plotLínuritið sýnir mælingar frá þremur vatnamælingastöðvum Veðurstofunnar í Skaftá frá 5. til 8. desember 2025. Staðsetningar mælanna sjást á korti neðar í fréttinni.

Leiðni í ánni hefur farið vaxandi og borist hafa tilkynningar um brennisteinslykt frá fólki á svæðinu. Að svo stöddu hefur hlaupið ekki áhrif á helstu vegi á svæðinu en áfram verður fylgst náið með þróun hlaupsins.

Ekki hefur enn verið staðfest hvort hlaupið sé að koma úr Vestari- eða Eystri-Skaftárkatli en hegðun þessa hlaups minnir mjög á hlaup úr eystri katlinum í ágúst 2024. Þess má einnig geta að óvenju langt er liðið frá síðasta hlaupi úr Vestari-Skaftárkatli; hann hljóp síðast haustið 2021, sem er óvenju langt hlé. Að jafnaði hafa verið um tvö ár á milli hlaupa og því væri heldur ekki óvænt ef þetta hlaup kæmi þaðan.

Skafta-kortKortið sýnir staðsetningu vatnshæðamæla Veðurstofunnar og rennslisleið hlaupvatns frá Skaftárkötlum.

Flóðaaðstæður
Skaftá gæti flætt yfir vegi sem liggja nærri árbökkunum og verður fylgst með þróun næstu daga.

Gasmengun
Brennisteinsvetni fylgir hlaupvatninu undan jökli vegna þess að það er tilkomið við bráðnun yfir jarðhitasvæðum. Styrkur þess getur verið slímhúð í augum og öndunarvegi. Ferðafólki er eindregið ráðlagt að halda sig fjarri farvegi Skaftár ofan Skaftárdals og jökuljöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls.

Sprungumyndun
Sprungur geta myndast hratt í kringum þann ketil sem hleypur úr. Fólk á Vatnajökli er beðið um að halda sig fjarri Skaftárkötlunum og jökuljöðrum þar sem hlaupvatn getur brotið sér leið upp á yfirborðið.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica