Fréttir
Kortið sýnir staðsetningu vatnshæðamæla Veðurstofunnar og rennslisleið hlaupvatns frá Skaftárkötlum.

Skaftárhlaup er hafið

8.12.2025

  • Rennsli byrjaði að aukast aðfaranótt sunnudags en hefur verið stöðugt síðan um miðnætti, um 200 rúmmetrar á sekúndu

  • Brennisteinslykt hefur mælst og leiðni aukist

  • Engin áhrif eru á helstu vegi að svo stöddu

  • Óvíst er enn hvort hlaupið kemur úr vestari eða eystri katlinum

  • Síðasta Skaftárhlaup var í ágúst 2024

Skaftárhlaup er hafið og komu fyrstu merki um hlaupið fram á vatnamælingastöð í Skaftá við Sveinstind aðfaranótt sunnudags. Í gærkvöldi fór rennsli einnig að aukast í Skaftá við Kirkjubæjarklaustur og í Eldvatni. Rennsli við Sveinstind hefur verið stöðugt síðan á miðnætti og mælist nú um 200 rúmmetrar vatns á sekúndu (m3/s) sem er sambærilegt miklu sumarrennsli en er lítið miðað við stærri Skaftárhlaup sem geta náð hámarksrennsli allt að 3000 m3/s.

Skafta-q1-plotLínuritið sýnir mælingar frá þremur vatnamælingastöðvum Veðurstofunnar í Skaftá frá 5. til 8. desember 2025. Staðsetningar mælanna sjást á korti neðar í fréttinni.

Leiðni í ánni hefur farið vaxandi og borist hafa tilkynningar um brennisteinslykt frá fólki á svæðinu. Að svo stöddu hefur hlaupið ekki áhrif á helstu vegi á svæðinu en áfram verður fylgst náið með þróun hlaupsins.

Ekki hefur enn verið staðfest hvort hlaupið sé að koma úr Vestari- eða Eystri-Skaftárkatli en hegðun þessa hlaups minnir mjög á hlaup úr eystri katlinum í ágúst 2024. Þess má einnig geta að óvenju langt er liðið frá síðasta hlaupi úr Vestari-Skaftárkatli; hann hljóp síðast haustið 2021, sem er óvenju langt hlé. Að jafnaði hafa verið um tvö ár á milli hlaupa og því væri heldur ekki óvænt ef þetta hlaup kæmi þaðan.

Skafta-kortKortið sýnir staðsetningu vatnshæðamæla Veðurstofunnar og rennslisleið hlaupvatns frá Skaftárkötlum.

Flóðaaðstæður
Skaftá gæti flætt yfir vegi sem liggja nærri árbökkunum og verður fylgst með þróun næstu daga.

Gasmengun
Brennisteinsvetni fylgir hlaupvatninu undan jökli vegna þess að það er tilkomið við bráðnun yfir jarðhitasvæðum. Styrkur þess getur verið slímhúð í augum og öndunarvegi. Ferðafólki er eindregið ráðlagt að halda sig fjarri farvegi Skaftár ofan Skaftárdals og jökuljöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls.

Sprungumyndun
Sprungur geta myndast hratt í kringum þann ketil sem hleypur úr. Fólk á Vatnajökli er beðið um að halda sig fjarri Skaftárkötlunum og jökuljöðrum þar sem hlaupvatn getur brotið sér leið upp á yfirborðið.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica