Fréttir
skriða
Skriða úr farvegi Þófalækjar á Seyðisfirði.

Skriða úr Þófalæk á Seyðisfirði

24.6.2017

Skriða féll úr Þófalæk á Seyðisfirði síðastliðna nótt og lenti á tveimur húsum. Annað húsið hafði verið rýmt vegna skriðuhættu en hitt er mannlaus skemma. Þófalækurinn er þekktur skriðufarvegur og þar varð mannskætt slys árið 1950 þegar 5 manns fórust er skriða lenti á húsi ofan við veg.

Skriðan sem féll í nótt átti upptök ofarlega í fjallinu og flutti með sér stór björg. Megintaumurinn lenti á skemmunni sem virðist hafa skemmst talsvert. Hluti hennar fór einnig á nýlega uppgert hús og flæddi þar inn í kjallara.

skriða

Skriða úr Þófalæk á Seyðisfirði.  Ljósmynd: Bjarki Borgþórsson.

skriða

Skriðan úr Þófalæk féll yfir veg á Seyðisfirði.  Ljósmynd: Bjarki Borgþórsson.

skriða

Lagnir og ræsi í skriðufarvegi Þófalækjar á Seyðisfirði.  Ljósmynd: Bjarki Borgþórsson.

Fleiri minni skriður féllu út með firðinum að sunnanverðu.

Mikil úrkoma var á Austurlandi í gær, föstudag, og fram á nótt og hefur úrkoma á Seyðisfirði mælst tæpir 200 mm frá því á föstudagsmorgni. Mikill vöxtur var í ám og lækjum sem víða urðu kolmórauðir og báru með sér grjót og aur. Sumstaðar hefur flætt inn í hús og á Eskifirði stóðu menn í ströngu við að hreinsa upp úr Hlíðarendaá sem flæddi yfir nýlega byggða brú. Ljósá hafði tímabundið verið veitt yfir í farveg Hlíðarendaár vegna framkvæmda í farvegi Ljósár og því er enn meira vatn í Hlíðarendaá en ella.

20170623_182140

Hlíðarendaá á Eskifirði 23. júní 2017. Ljósmynd: Hjalti Sigurðsson.

20170623_183408

Nýleg brú yfir Hlíðarendaá á Eskifirði 23. júní 2017. Ljósmynd: Hjalti Sigurðsson.

Dregið hefur úr rigningunni og sjatnað í lækjum og gert er ráð fyrir að það stytti alveg upp með kvöldinu.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica