Fréttir
Skriðan í Innra-Hólafjalli, tekin með dróna (29.11.2025). Mynd: Hlynur Sveinsson, snjóathugunarmaður Veðurstofu Íslands í Neskaupstað.

Skriðuvirkni í Innra-Hólafjalli

19.12.2025

Þann 24. nóvember barst Veðurstofunni ljósmynd af skriðu sem hafði nýlega fallið ofarlega í Innra-Hólafjalli ofan Eskifjarðar. Á myndinni sást mikill snjór til fjalla en jafnframt áberandi sár í hlíðinni þar sem skriðan hafði fallið (mynd 1). Í ljósi þess að hiti hafði verið vel undir frostmarki í fjallahæð og talsvert hafði snjóað síðustu vikur þótti þessi skriða óvenjuleg. Var því ákveðið að senda snjóathugunarmenn svæðisins með dróna til að fljúga yfir svæðið.

Í ljós kom að upptökin eru í urð rétt neðan við fjallstoppinn, í um 1050 m h.y.s. Ummerki benda til þess að urðin hafi verið frosin, þar sem stórar blokkir af frosnum setlögum sáust bæði í upptökum og í úthlaupi skriðunnar. Þessi ummerki sjást vel á ljósmyndum og myndbandi sem Hlynur Sveinsson, snjóathugunarmaður í Neskaupstað, tók með dróna laugardaginn 29. nóvember.

Út frá drónamyndunum hefur verið áætlað að heildarrúmmál skriðuefnisins sé um 130.000 m³ og að úthlaupslengdin sé um 450 m. Gervitunglagreiningar benda til þess að skriðan hafi fallið á tímabilinu 14.–20. nóvember.

Gervitunglagreiningar aftur í tímann sýna að skriðuvirkni hefur verið í vesturhluta Innra-Hólafjalls a.m.k. síðan 5. apríl 2025. Myndirnar gefa til kynna að talsvert hafi hrunið úr hlíðinni í sumar, en að mesta hrunið eða stærsta skriðan hafi fallið á tímabilinu 14.–20. nóvember.

Á undanförnum árum hafa nokkrar skriður fallið sem innihalda frosið efni, líkt og þessi skriða, og er talið að sumar þeirra geti tengst þiðnun sífrera vegna hlýnandi veðurfars. Á Ofanflóðadeild Veðurstofunnar er lögð áhersla á að bæta þekkingu á slíkum skriðum, meðal annars með fjarkönnun á hreyfingu yfirborðsjarðlaga og með kortlagningu og rannsóknum á sífrera í bröttum hlíðum, í samstarfi við Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnun og fleiri aðila.

Eins og sjá má á meðfylgjandi korti er svæðið í fjalllendi ofan við Eskifjörð. Engin hætta stafar af hruni þar, nema mögulega fyrir þá sem fara of nærri svæðinu. Því hvetur skriðuvakt Veðurstofunnar fólk sem fer um svæðið til að sýna varúð og halda sig í hæfilegri fjarlægð frá skriðunni.

Innra-holafjall-1Skriðan séð úr fjarska í Innra-Hólafjalli, ofan Eskifjarðar (24.11.2025).
Mynd: Sævar Guðjónsson.

Innra-holafjall-2Kort sem sýnir staðsetningu skriðusvæðisins (rautt) norðan við Eskifjörð.

Innra-holafjall-3

Skriðan í Innra-Hólafjalli, tekin með dróna (29.11.2025).
Mynd: Hlynur Sveinsson, snjóathugunarmaður Veðurstofu Íslands í Neskaupstað.

https://youtu.be/ldA1lYgkPuc?si=DCsleinTy_ILoWVC

Drónamyndband af skriðunni í Innra-Hólafjalli, tekið 29. nóvember 2025.
Myndataka: Hlynur Sveinsson, snjóathugunarmaður Veðurstofu Íslands í Neskaupstað.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica