Fréttir
Gervihnattamynd sem sýnir lónið undir Langjökli. Vísbendingar eru um að haft í lóninu hafi brostið og gífurlegt vatnsmagn farið niður farveg Svartár.

Skyndiflóð úr Langjökli

Mikið vatnsmagn flæddi niður farveg Svartár sem alla jafna er vatnslítill á þessum árstíma

20.8.2020

Skyndilegt flóð varð úr Langjökli á mánudagskvöld og aðfaranótt þriðjudagsins 18. ágúst. Mikið vatnsmagn flæddi niður farveg Svartár sem alla jafna er vatnslítill á þessum árstíma. Vísbendingar eru um að haft við lón við norðvestanverðan Langjökli hafi brostið. Óvenjumikil hlýindi hafa verið á svæðinu að undanförnu.

Veðurstofan rekur vatnshæðarmæli við Kljáfoss í Hvítá sem er um 30 km frá Húsafelli. Sá mælir sýnir flóðatopp upp á 255 m³/s skömmu eftir miðnætti sem nálægt því að vera þrefalt meðalrennsli árinnar á þessum árstíma. Sérfræðingar Veðurstofunnar hafa kannað aðstæður og út frá fyrstu niðurstöðum ásamt frásögnum sjónvarvotta má áætla að vatnsmagnið sem braust fram úr lóninu niður Svartá og yfir í Hvíta ofan við Húsafell hafi numið 3,4 milljónir m³ á 24 klukkustundum. Hvítá skilar um 7,3 milljónum m³ á sólarhring að meðaltali yfir árið.

Við brúna yfir Hvítá ofan við Húsafell má sjá ummerkin um að vatnsborðið hafi náð upp undir brúarbitana. Farvegur Hvítár niður við Húsafellskóg var barmafullur að sögn sjónvarvotta. Mikill framburður barst með flóðinu og neðar í sveitinni eru bændur að finna dauða laxa á engjum og ummerki flóðsins sjást allt niður að Borgarfjarðarbrú.

Sérfræðingar Veðurstofunnar og Háskóla Íslands hafa verið að safna saman fjarkönnunargögnum um flóðið og lónið við jökulsporðinn. Í dag verður flogið upp að Langjökli til að kanna ummerki flóðsins nánar og aðstæður við jökulinn.

„Þetta skyndiflóð úr Langjökli niður farveg Svartár er óvenjulegt. Hætta á slíkum flóðum úr lónum við jökla landsins er þó alltaf til staðar og ástæða er til að kanna nánar aðstæður við lónið framan við Langjökul, til að sjá hvort um varanlega breytingu á farvegum þar er að ræða og meta hversu mikil hætta getur stafað af hlaupum þarna í framtíðinni. Þetta á reyndar við um lón við aðra jökla landsins líka sem við á Veðurstofunni höfum beint sjónum okkar að“, segir Tómas Jóhannesson fagstjóri á sviði jöklarannsókna á Veðurstofu Íslands.

Vísbendingar um að haft í lóni við Langjökul hafi brostið

Samanburður mynda frá 14. og 17. ágúst leiðir í ljós ekki er lengur að yfirfall úr lóninu við jökuljaðarinn yfir í Flosavatn, talsvert hefur lækkað í lóninu, og áberandi mikið vatn er í Svartá.  


Mynd frá 14. ágúst. Fremur mikið er í lóninu framan við Langjökul og greinilegt flæði úr því yfir í Flosavatn. (Myndir frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands)


Mynd frá 17. ágúst. Vatnsmagn í lóninu hefur minnkað verulega.Talsvert meira vatnsmagn er í Svartá.


Óyfirfarnar mælingar sem sýna vatnshæð við Kljáfoss í Hvítá  17.8.2020 til 19.8.2020. Flóðatoppurinn er rétt fyrir klukkan tvö um nóttina þann 18. ágúst. Smelltu hér til að sjá stærri mynd.
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica