Fréttir

Stór skjálfti við Grindavík

12.3.2020

FRÉTTIN VERÐUR UPPFÆRÐ

UPPFÆRT 13.03., KL. 13.15

Hrinan sem hófst norðaustur af Grindavík í gær er enn í gangi en mikið hefur dregið úr henni frá því í gærkveldi. Rúmlega 1000 skjálftar mældust á svæðinu í gær og um 300 skjálftar það sem af er degi. Sérfræðingar Veðurstofunnar vinna nú að því að yfirfara og greina gögn, ásamt því að fylgjast náið með stöðunni.

UPPFÆRT KL. 22.30

Eftirskjálftar mælast enn á Reykjanesi. Klukkan 18:40 varð skjálfti sem var 3,4 að stærð og annar kl. 18:42, 3,3 að stærð sem áttu upptök sín um 3km austnorðaustur af Grindavík.

UPPFÆRT KL. 15.40

Fjöldi eftirskjálfta á því svæði þar sem stóri skjálftinn reið yfir í morgun er nú kominn vel yfir 400 það sem af er degi. Stærsti eftirskjálftinn reið yfir kl. 10.38 og var hann M3,3 að stærð. Búast má við að fólk í nágrenni Grindavíkur muni finna fyrir frekari eftirskjálftum fram á kvöld, en líklegt að þeir verði allir töluvert minni en þeir sem orðið hafa í dag.

Á þriðja hundrað tilkynningar hafa borist Veðurstofunni frá fólki sem fann fyrir skjálftanum sem reið yfir í morgun. Hann fannst víða um suðvesturhornið og tilkynningar komu frá Búðardal, Húsafelli og allt austur að Hvolsvelli. 

Stóri skjálftinn í morgun varð á um sex til átta kílómetra dýpi og ekkert bendir til þess að skjálftinn tengist eldsumbrotum.

Veðurstofan heldur áfram að fylgjast náið með gangi mála ásamt því að greina enn frekar þau gögn sem berast.


UPPFÆRT KL. 11.35

Stærð skjálftans hefur verið endurmetin og var hann M5.2 að stærð. Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum er skjálftinn sem varð á jarðskjálftasprungu líklegast afleiðing spennubreytinga sem hafa átt sér stað á svæðinu frá því í lok janúar. "Þessi skjálfti er nyrst á því svæði þar sem skjálftahrina varð sem tengdist landrisinu við Þorbjörn. Þó að landrisinu hafi í raun lokið um miðjan febrúar og dregið úr skjálftavirkni, þá hefur engu að síður verið næg spenna á svæðinu til staðar til að framkalla þennan skjálfta í dag", segir Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofunni.

Skjálftinn í dag er stærsti skjálftinn sem mælst hefur á Reykjanesskaga síðan í október 2013. Þá varð skjálfti sem var M5.2 að stærð í nágrenni við Reykjanestá. Að kvöldi 16. september 1973 varð skjálfti M5.3 um 9km norðaustur af Grindavík og í kjölfarið fylgdu allnokkrir skjálftar yfir M4 að stærð.

Innlegg Kl. 10.30

Snarpur jarðskjálfti varð kl. 10.26 á Reykjanesinu. Óyfirfarnar niðurstöður benda til þess að stærðin hafi verið um M5.2 að stæðr og hafi átt upptök skammt frá Grindavík. Nánari upplýsingar verða birtar síðar.

Vefur Veðurstofunnar er óvenju hægur vegna álags og biðjumst við velvirðingar á því.

Vel á annað hundrað tilkynningar hafa borist Veðurstofunni frá fólki sem fann fyrir skjálftanum.

Nýjustu fréttir verða einnig birtar á Facebook síður Veðurstofunnar.


Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica