Fréttir
Elliðavatn 7. desember

Tíðarfar í desember 2019

Stutt yfirlit

3.1.2020

Tíð var óhagstæð á norðanverðu landinu í desember en betri sunnanlands. Mikið norðanóveður gekk yfir landið dagana 10. til 11. desember sem olli miklu tjóni. Verst var veðrið á Ströndum, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra. Mikil ísing og fannfergi fyldgu óveðrinu sem olli því að hundrað hross fennti í kaf, skemmdir urðu á rafmagnslínum með tilheyrandi rafmagnstruflunum og mikil röskun varð á samgöngum. Mánuðurinn var óvenju úrkomusamur á norðanverðu landinu og mældist úrkoman þar víða sú mesta sem vitað er um í desember. Úrkoman á Akureyri mældist meira en þrefalt meiri en í meðalári og sú mesta sem mælst hefur þar í desembermánuði frá upphafi mælinga.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í desember var 0,6 stig og er það 0,8 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 0,1 stigi yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn -0,7 stig, 1,2 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 0,4 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 0,2 stig og 1,5 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 °C röð af vik 2009-2018 °C
Reykjavík 0,6 0,8 57 149 0,1
Stykkishólmur 0,2 1,0 66 174 0,0
Bolungarvík 0,3 1,3 40 122 0,3
Grímsey 0,9 1,8 33 146 0,1
Akureyri -0,7 1,2 49 139 0,4
Egilsstaðir -0,5 1,7 19 65 0,9
Dalatangi 2,5 1,9 18 81 0,7
Teigarhorn 1,8 1,9 28 147 0,8
Höfn í Hornaf. 1,5


0,5
Stórhöfði 2,5 1,1 45 142 0,5
Hveravellir -5,1 1,2 21 55 0,3
Árnes -0,9 1,0 53 til 54 140 0,3

Meðalhiti og vik (°C) í desember 2019.

Að tiltölu var hlýjast inn til landsins á Norðausturlandi en kaldast vestantil á landinu. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 1,2 stig á Brúaröræfum en neikvætt hitavik var mest -0,7 stig á Botnsheiði.


Hitavik sjálfvirkra stöðva í desember miðað við síðustu tíu ár (2009-2018).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 3,5 stig í Surtsey. Lægstur var hann -5,9 stig í Sandbúðum og Sátu. Í byggð var meðalhitinn lægstur -3,6 stig í Svartárkoti.

Mest frost í mánuðinum mældist -23,1 stig á Setri þ. 14. Mest frost í byggð mældist -21,4 stig á Húsafelli þ. 14.

Óvenju hlýtt loft var yfir landinu dagana 2. til 3. desember. Hæsti hiti mánaðarins mældist 19,7 stig í Kvískerjum þ. 2. og er það einnig hæsti hiti sem mælst hefur í desembermánuði hér á landi. Fyrra met var 18,4 stig sem mældist á Sauðanesvita þ. 14. desember 2001. Metið var jafnframt slegið í Bakkafirði á Borgarfirði eystra (19,0 stig þ. 2.) og í Vestdal við Seyðisfjörð (18,7 stig þ. 3.). Desemberhitamet féllu eða voru jöfnuð á 53 sjálfvirkum stöðvum sem athugað hafa í tíu ár eða meira - og á þremur mönnuðum stöðvum.

Úrkoma

Mánuðurinn var óvenju úrkomusamur á norðanverðu landinu og mældist úrkoman þar víða sú mesta sem vitað er um í desember.

Úrkoma á Akureyri mældist 191,1 mm sem rúmlega þrefalt meira en meðalúrkoma áranna 1961 til 1990. Úrkoman þar er sú mesta sem mælst hefur á Akureyri í desembermánuði frá upphafi mælinga. Í Reykjavík mældist úrkoman 71,9 mm sem er 90% af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 56,5 mm og 138,7 mm á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri á Akureyri voru 20, níu fleiri en í meðalári. Í Reykjavík mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 12 daga, tveimur færri en í meðalári.

Snjór

Snóþungt var á norðanverðu landinu í desember. Mikið fannfergi fylgdi óveðrinu sem gekk yfir landið þ. 10 til 11. á norðanverðu landinu, hundrað hross fennti í kaf og samgöngur lágu niðri.

Alhvítir dagar í Reykjavík voru 21, átta fleiri en að meðaltali 1971 til 2000. Alhvítt var 23 daga á Akureyri, þremur fleiri en í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 23,1, sem er 10,9 stundum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri var sólarlaust eins og oft í desembermánuði.

Vindur

Vindur á landvísu var 0,8 m/s yfir meðallagi. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum. Mikið norðanóveður gekk yfir landið dagana 10. til 11. desember sem olli miklu tjóni. Verst var veðrið Ströndum, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra. Þar fylgdi óveðrinu mikil ísing og fannfergi sem olli því að hundrað hross fennti í kaf, skemmdir urðu á rafmagnslínum með tilheyrandi rafmagnstruflunum og mikil röskun varð á samgöngum. Að auki var óvenju hvasst í Vestmannaeyjum, á Þingvöllum og víða í uppsveitum Árnessýslu. Ársvindhraðamet voru slegin á nokkrum sjálfvirkum stöðvum sem hafa mælt lengur en í tíu ár, t.d. á Þingvöllum, Hjarðarlandi, Gauksmýri, Grímsey, Raufarhöfn og Svartárkoti. Að auki var fjöldi desembervindhraðameta slegin.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 994,4 hPa og er það -6,7 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæstur mældist þrýstingurinn 1023,2 hPa á Egilsstaðaflugvelli þ. 25. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 946,5 hPa á Fonti þ. 11.

Skjöl fyrir desember

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í desember 2019 (textaskjal).

Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnumveðurstöðvum er hægt sækja í sérstaka töflu.


Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica