Fréttir
Falleg glitský sáust víða um land 28. desember. Þessi mynd sem Maria Krupa tók í Vestmannaeyjum er ein af fjölmörgum myndum sem bárust Veðurstofunni af glitskýjum þann dag. (Ljósmynd: Maria Krupa)

Tíðarfar í desember 2020

Stutt yfirlit

4.1.2021


Desember var óvenju úrkomusamur á Norðaustur- og Austurlandi og mældist úrkoman þar víða sú mesta sem vitað er um í desember. Mikil úrkomuákefð var á Austfjörðum dagana 14. til 18. og féllu miklar aurskriður á Seyðisfirði, sú stærsta þ.18. Meðalvindhraði á landsvísu var óvenju mikill í mánuðinum. Hvöss norðanátt gekk yfir landið dagana 2. til 4. með hríðarveðri norðan- og austanlands og olli þónokkrum samgöngutruflunum. Mánuðurinn var þó með snóléttasta móti miðað við árstíma. Kalt var á landinu í byrjun mánaðar en þónokkur hlýindi voru á landinu um hann miðjan.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í janúar var 1,8 stig og er það 2,0 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 1,4 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn -0,6 stig, 1,3 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 0,4 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 0,7 stig og 1,3 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 °C röð af vik 2010-2019 °C
Reykjavík 1,8 2,0 22 150 1,4
Stykkishólmur 0,7 1,4 46 175 0,5
Bolungarvík -0,1 0,9 51 123 0,0
Grímsey 0,7 1,5 39 til 40 148 -0,1
Akureyri -0,7 1,2 49 140 0,4
Egilsstaðir -1,1 1,1 26 66 0,2
Dalatangi 1,8 1,3 30 83 0,0
Teigarhorn 1,3 1,4 44 148 0,2
Höfn í Hornaf. 1,3


0,4
Stórhöfði 2,2 0,8 56 til 57 144 0,1
Hveravellir -4,8 1,5 19 56 0,6
Árnes 0,0 1,9 33 141 1,2

Meðalhiti og vik (°C) í desember 2020

Kalt var á landinu dagana 2. til 6. Við tók fremur hlýr kafli um miðjan mánuðinn (dagana 9. til 19.).

Að tiltölu var hlýjast á Höfuðborgarsvæðinu, í innsveitum suðvestan- og vestanlands og á Norðurlandi vestra. Að tiltölu var kaldast á Austurlandi og á annesjum norðanlands. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 1,6 stig í Straumsvík. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -0,7 stig við Upptyppinga.



Hitavik sjálfvirkra stöðva í desember miðað við síðustu tíu ár (2010–2019).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Steinum undir Eyjafjöllum, 3,6 stig en lægstur -6,5 stig í Sandbúðum. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -4,9 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 14,5 stig á Skjaldþingsstöðum þ. 1. Mest frost í mánuðinum mældist -23,7 stig í Möðrudal þ. 23.

Úrkoma

Mánuðurinn var óvenju úrkomusamur á Norðaustur- og Austurlandi og mældist úrkoman þar víða sú mesta sem vitað er um í desember.

Á Akureyri mældist úrkoman 211,9 mm sem er fjórfalt meiri en meðalúrkoma áranna 1961 til 1990. Úrkoman þar er sú mesta sem mælst hefur á Akureyri í einum mánuði frá upphafi mælinga árið 1927.

Fjöldi desemberúrkomumeta var sett á Norðaustur og Austurlandi. T.d. á Hánefstöðum í Seyðisfirði, Gilsá í Breiðdal, Skjaldþingsstöðum, Vöglum og Sauðanesvita.

Mikil úrkoma mældist á sjálfvirkum úrkomustöðvum á Austurlandi. Mest mældist mánaðarúrkoman á Seyðisfirði, 813,5 mm. Á Neskaupsstað mældist úrkoman 628 mm, 587 mm á Fáskrúðsfirði og 564 mm á Eskifirði. Mikill hluti mánaðarúrkomunnar á þessum stöðum féll á tíu daga tímabilinu 9. til 18.

Mest var úrkomuákefðin dagana 14. til 18. Heildarúrkoman á Seyðisfirði þessa 5 daga, mældist 577,5 mm. Það er mesta úrkoma sem mælst hefur á fimm dögum á Íslandi. Miklar aurskriður féllu á Seyðisfirði, sú stærsta þ.18.

Úrkoma í Reykjavík í desember mældist 58,1 mm sem er 74% af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 87,6 mm og 198,1 mm á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meira í Reykjavík voru 9, fimm færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 19 daga sem er átta fleiri en í meðalári.

Snjór

Mánuðurinn var snjóléttur víðast hvar.

Alhvítir dagar í Reykjavík voru 2 sem er 11 færri en að meðaltali 1971 til 2000. Á Akureyri voru alhvítu dagarnir 7, þrettán færri en að meðaltali sama tímabils.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 8,2, sem er 4 stundum færri en að meðaltali 1961 til 1990. Á Akureyri var sólarlaust eins og oft í desembermánuði.

Vindur

Meðalvindhraði á landsvísu var mikill, eða um 1,3 m/s yfir meðallagi. Meðalvindhraði í desember hefur ekki verið eins hár síðan í desember árið 1992 (en þá var hann töluvert hærri). Norðaustlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum. Hvöss norðanátt gekk yfir landið dagana 2. til 4. með hríðarveðri norðan- og austanlands og olli þónokkrum samgöngutruflunum. Einnig var hvasst dagana 14. til 15. (norðaustanátt), þ. 18. (norðaustanátt), þ. 25. (suðvestanátt) og þ. 27. (norðanátt).

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1000,9 hPa og er það 0,2 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1035,0 hPa á Flateyri þ. 4. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 963,1 hPa á Gufuskálum þ. 26.

Skjöl fyrir desember

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í desember 2020 (textaskjal).

Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica